2002-04-09 20:50:01# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:50]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það er nokkurt gleðiefni að hér skuli vera tekin til umræðu till. til þál. um aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Eins og hv. þm. er fullkunnugt um þá gekk ekki þrautalaust að ganga frá þessari bókun á vettvangi rammasamningsins. En það tókst að lokum og þó svo að niðurstaðan hafi kannski ekki verið okkur öllum fullkomlega að skapi þá hefur það mjög mikið gildi í sjálfu sér að gengið hafi verið frá Kyoto-bókuninni og að samningar hafi náðst um það til hvaða aðgerða eigi að grípa og skuli gripið á fyrsta samningstímabili eða skuldbindingartímabili samningsins frá 2008--2012. Því ber að fagna, herra forseti.

Mjög mikilvægt er samt að hafa í huga að fyrsta skuldbindingartímabilið er einmitt það sem í nafninu felst, þ.e. fyrsta skuldbindingartímabilið. Strax á næstu missirum og árum þurfum við að huga bæði á alþjóðlegum vettvangi og hér heima að því sem þá tekur við, þ.e. eftir 2012, þ.e. hver verði þá bæði samningsmarkmið Íslands og einnig það hvernig best verði komið til móts við þau ríki sem á fyrsta skuldbindingartímabilinu hafa verið undanskilin í losunarkvótunum en munu þurfa að axla sínar byrðar þegar fram í sækir.

Eins og oft hefur verið rætt á hinu háa Alþingi hafa stjórn og stjórnarandstaða mest deilt um samningatækni stjórnvalda vegna hins svokallaða íslenska sérákvæðis. Sérákvæðið fékkst samþykkt á elleftu stundu á lokasprettinum í Marrakesh. Án þess að ég ætli að fara efnislega út í ákvæðið sem slíkt vil ég að það komi skýrt fram, herra forseti, að þetta voru fyrst og fremst deilur um aðferðir.

Við í Samfylkingunni vorum því t.d. algjörlega mótfallin að við skyldum ekki undirrita bókunina og síðan ganga til samninga og fylgja þeim þannig eftir. En hæstv. ríkisstjórn ákvað hins vegar að rita ekki undir bókunina og reyna svo að ganga til samninga og um það hefur verið deilt á hinu háa Alþingi hvort það hafi reynst farsæl leið. Ég hef lýst því áður yfir og ég er enn þeirrar skoðunar að við hefðum átt að undirrita bókunina og semja síðan um framhaldið. En gert er gert og þetta er niðurstaðan, herra forseti, fyrir hið fyrsta skuldbindingartímabil, árin frá 2008--2012.

Í annan stað ber að halda því til haga að um stefnumörkun hér á landi hefur næsta lítið verið fjallað. Jú, í fylgiskjali þessarar þáltill., fskj. III, liggur fyrir almennt orðuð stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar. Það er mín skoðun að þessa stefnumörkun þurfi að útfæra miklum betur en gert hefur verið og þar þurfi líka að taka fleira inn í dæmið, ef þannig má að orði komast. Mér þykir þessi stefnumkörkun nokkuð naum, herra forseti. Það er ekki hugsað miklu lengra fram í tímann en til þessa fyrsta skuldbindingartímabils. Reyndar kemur fram að þessa stefnu beri að endurskoða árið 2005. Hér eru taldar upp ráðstafanirnar í samgöngum, vegna fiskiskipaflotans, flúorkolefnis við álframleiðslu, meðhöndlun úrgangs og bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt. Allt eru þetta hin ágætustu markmið en býsna almennt orðuð. Þá er einnig kveðið á um fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og rannsóknir og þróun.

Það vekur sérstaka athygli undir þessum áhersluatriðum er varða rannsóknir og þróun að til þess að geta staðið við skuldbindingar loftslagssamningsins og til þess að marka stefnu til framtíðar um loftslagsmál hér á landi þá hefði ég haldið að vetnisvæðingin svokallaða ætti hér að vega þyngra en hún í raun gerir. Það hefur valdið mér þó nokkrum vonbrigðum að fylgjast með málflutningi hæstv. ríkisstjórnar í þeim málum því að mest hefur verið talað, lítið gert og enn minna fé reitt fram til þess að stuðla að rannsóknum og þróun á vetni sem orkubera.

Herra forseti. Hér á dögunum kom fram í svari til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að gefin hafa verið fyrirheit um 80 millj. kr. framlag til rannsókna og þróunar vegna vetnisvæðingarinnar. En það er athyglivert, herra forseti, að langstærstur hluti þess rannsóknarfjár sem fer til þessara hluta kemur úr sjóðum Evrópusambandsins. Það er allt gott um það að segja í sjálfu sér. Ég hefði hins vegar haldið, miðað við málflutning hæstvirtra ráðherra, að meiri metnaður byggi hér að baki og að menn hefðu gert sér grein fyrir því að til þess að ná verulegum, miklum og mikilvægum framförum við að þróa nýja orkugjafa þyrfti að leggja meira til en nokkra tugi milljóna króna.

Herra forseti. Ég vil einnig halda því til haga að rammasamningurinn sem hér um ræðir felur í sér almennar skuldbindingar um fjárhagslega aðstoð til þróunarríkjanna. Alþjóðlega umhverfissjóðnum, sem á ensku heitir Global Environment Facility, hefur verið falið að hafa milligöngu um þessa aðstoð. Það kemur fram í þessu þingskjali að endurfjámögnun sjóðsins standi nú yfir og að nauðsynlegt sé að íslensk stjórnvöld, og væntanlega hið háa Alþingi, taki afstöðu til hennar. Þó nokkuð mörg ríki, iðnríki, hafa lýst yfir vilja sínum til þess að fjármagna sjóðinn og það er vel. En ég vek hins vegar athygli á því, herra forseti, að ekki hefur verið gengið frá því hvernig framlög eigi að skiptast á milli iðnríkjanna í þennan sjóð og hversu háa upphæð Íslendingar ætli að láta af hendi rakna í sjóðinn. Ég held að þessi sjóður sé algjört grundvallaratriði fyrir áframhaldandi þróun og framgang þessa samnings og ég vona svo sannarlega að íslensk stjórnvöld láti sitt ekki eftir liggja við að leggja þróunarríkjunum lið við að þróa hreina orkugjafa.