2002-04-09 21:15:23# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér tökum við til umræðu till. til þál. um að Alþingi álykti að heimila að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gerð var 10. desember 1997.

Eins og fram kom í framsögu hæstv. utanrrh. höfum við mjög oft rætt þetta mál hér. Við höfum tekist á um aðferðafræðina, við höfum tekist á um hvort réttmætt hafi verið og þá út frá hvaða sjónarmiðum að kalla eftir sérstöku íslensku ákvæði.

Nú erum við hér til þess að ræða heimildina sjálfa. Og auðvitað verður það auðsótt fyrir hæstv. utanrrh. að fá stuðning við að við fullgildum bókunina. En þetta er í eðli sínu stórt mál og öll Kyoto-umræðan er þess eðlis að ég hefði kosið að við ræddum þessa tillögu við allt aðrar aðstæður, ekki sem eitthvert 20. mál á dagskrá fundar sem er með 57 mál og við erum hér stödd klukkan korter yfir níu um kvöld, heldur fersk að morgni dags með þingsalinn fullan af fólki sem vill ræða það með hvaða hætti við ætlum að horfa inn í framtíðina, hvert við ætlum að stefna og hvernig við ætlum að útfæra þetta, ekki bara næstu fimm ár eða tíu ár heldur í framtíðinni.

Þannig er það ekki, virðulegi forseti. Við erum að taka þetta sem eitt af þessum hraðmálum sem á að ná í gegn á þessu vori, á þeim 16 dögum sem eftir lifa. Þess vegna mun ég ekki halda langa ræðu heldur fyrst og fremst koma inn á örfá atriði sem mér finnst mikilvæg í tengslum við umræðuna og þá ákvörðun sem hér á að taka.

Á bls. 5 í skjalinu kemur fram að staðfest sé af umhvrn. hálfu að ákvæði Kyoto-bókunarinnar stangist ekki á við gildandi lög og að aðild Íslands að bókuninni kalli ekki á breytingar á lögum, en: ,,Skuldbindingar samkvæmt bókuninni eru þess eðlis að þær kalla á víðtæka stefnumörkun og útfærslu.`` Þannig er það orðað í skjalinu: ,,... að þær kalla á víðtæka stefnumörkun og útfærslu.``

Sú víðtæka stefnumörkun og útfærsla hefur ekki farið fram að mínu mati þegar litið er á fylgiskjalið sem fylgir tillögunni.

Þessar fjórar línur fá mig til að velta því fyrir mér að eðlilegt hefði verið að hæstv. umhvrh. hefði verið hér viðstödd þegar við ræðum þessa tillögu. Ég geri mér alveg grein fyrir að tillagan sem slík er á forræði hæstv. utanrrh. en svo mikið höfum við rætt þessi mál og svo stór hluti útfærslunnar mun hvíla á herðum hæstv. umhvrh. að mjög eðlilegt hefði verið að hún hefði verið hér ef eitthvað hefði komið upp í umræðunni sem við hefðum kosið að fá upplýsingar um.

Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands er almenna ákvæðið að almennt skuli útstreymi gróðurhúsalofttegunda ekki aukast meira en sem nemur 10% frá áriðnu 1990 og vera innan við 3.200 þús. tonna koltvíoxíðígilda á árunum 2008--2012.

Þegar litið er til þeirra ráðstafana sem á að grípa til eru það í fyrsta lagi samgöngurnar. Og það verður að segjast eins og er að á þeim árum sem við höfum fjallað um aðild að bókuninni höfum við farið okkur afar hægt með að stýra mengun frá samgöngum. Ég geri ekki lítið úr neinni þeirri aðferð sem hægt er að nýta til þess en við höfum farið okkur hægt og það er ástæða til að herða þá för og grípa til aðgerða.

Einnig er talað um að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir, og ég hef rætt það við hæstv. iðnrh. að möguleiki er á að nýta afgas frá stóriðjunni til að framleiða metanól en metanólið er talið verða ein af þeim leiðum sem farin verður til að breyta um orkugjafa í bifreiðum. Ljóst er að málmblendiverksmiðjan hefur verið jákvæð og hefur verið tilbúin að fara í slíkt rannsóknarverkefni með kanadísku fyrirtæki og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að íslensk stjórnvöld gerðu um það samkomulag við þá aðila sem vilja annaðhvort stækkun eða nýja aðila sem vilja koma hér og reisa álver, að þeir undirgangist það að láta afgas af hendi vegna þess að jafnvel þó að það verði ekki nýtt í vetnis- eða metanólframleiðslu er alveg ljóst að það minnkar mjög mikið útstreymi frá slíkum verksmiðjum og ætti þess vegna að vera eitt af því sem ríkisstjórnin leggur mesta áherslu á.

En, herra forseti, það sem mig langar að nefna áður en tíma mínum er lokið eru mengunarkvótarnir og ég spyr: Hvernig ætlum við að fara með þá? Þeir hafa verðgildi vegna þess að í öðrum löndum geta fyrirtæki sem menga þurft að greiða fyrir mengunarkvótana. Og það hlýtur að vera framtíðin á Íslandi að við gerum kröfur til þeirra fyrirtækja sem menga, að það sé ekki einkamál hvernig Íslendingar haga málum sínum heldur sé því með einhverjum hætti stjórnað með aðgerðum stjórnvalda.

Ég sakna þess mjög í umræðunni að á Íslandi skuli ekki vera auðlindastefna eða auðlindapólitík. Það var rakið hér ágætlega í umræðunni um virkjanir fyrir fáum dögum af hálfu talsmanns okkar þar hversu ólíkt við hefðumst að í sambandi við sjávarútveg, orkumál, landnýtingu eða fiskeldi, hvort við erum að greiða fyrir rannsóknir, hvort veittir eru styrkir, hvort greitt er fyrir afnot af landi eða ekki eða varðandi eldið, hvernig á að haga sér ef tveir vilja nýta sama fjörð o.s.frv. Auðlindastefnu vantar og við þurfum að setja okkur hana og við verðum að hætta að mismuna fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir eða sem njóta einhvers sem í felst verðmæti, því að ekki get ég fengið mig til að nota orðið ,,auðlind`` yfir mengunarkvótana. Hins vegar hafa þeir verðgildi og það hlýtur að vera eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnar í kjölfar þess sem hér verður ákveðið að setja sér auðlindastefnu og að við fáum að vita hvernig á að halda á slíkum málum í útfærslunni.