2002-04-09 21:33:31# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert um að önnur stjórnvöld hefðu ekki reynt að fá breytinga vegna sérstöðu sinnar. Það liggur fyrir að í upphaflegu samningagerðinni var komið til móts við sérstöðu ríkja. Sumum var gert að draga úr losun, önnur fengu óbreyttan kvóta í sinn hlut og enn önnur ríki fengu heimild til að auka nokkuð losun, m.a. Noregur, Ástralía og Ísland, sem fékk langmest, þ.e. 10%. Krafa Íslands um hið sérstaka íslenska ákvæði gekk miklu lengra en allt annað.

Það má líka deila um hvort áformin, hin göfugu áform um að ná þarna umtalsverðum árangri í þágu umhverfisins og loftslagsins á jörðinni, hafi ekki verið þynnt dálítið út með ýmsum þeim undanþágum, eins og flugi og öðru slíku, sem teknar voru inn. Það er meining margra.

Ég hef aldrei hafnað því að ákveðin efnisleg rök geti verið fyrir ákveðinni sérstöðu Íslands. Við töldum hins vegar að þá ætti að vinna henni brautargengi þannig að undirrita með fyrirvara um að þeirra mál yrðu skoðuð. Það var upphaflegi ágreiningurinn í þessu máli. En ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skera sig algjörlega úr leik ef hún fengi ekki sinni kröfu framfylgt tók íslenska ríkisstjórnin ein ríkisstjórna. Meira að segja Bandaríkin undirrituðu, eins og kunnugt er, á síðasta degi sem tilskilinn var til þess.

Það að krefjast þess að sérstaða Íslands yrði metin er eitt. En hitt, að krefjast undanþágu fyrir öll stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar, alla stækkun og nýjar fabrikkur sem voru á borðinu, er íslenska ákvæðið. Íslenska ákvæðið er að fá að taka alla stóriðju sem ríkisstjórnina dreymdi um að mögulega gæti verið í sjónmáli á næstu árum komplett inn sem undanþágu. Það er nú millivegur á milli þessa, herra forseti.