2002-04-09 21:37:12# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það nú þannig að Ísland fékk heimild til að auka sína losun um 10% miðað við 1990 meðan mörg önnur iðnvædd ríki og ekkert óskaplega mikið iðnvædd stóðu frammi fyrir því að þurfa verulega að draga úr losun sinni. Við höfðum nú í fyrsta lagi þetta 10% svigrúm.

Í öðru lagi gátum auðvitað aukið losun í samræmi við það sem okkur hefði tekist með aðgerðum að draga úr henni á öðrum sviðum. Það svigrúm stóð atvinnulífinu til boða.

Í þriðja lagi hefði að sjálfsögðu verið hægt að reisa hér fyrirtæki á komandi árum, eftir að þetta fyrirkomulag væri komið á, með því að kaupa út losunarheimildir, eins og bíður manna í iðnaðaruppbyggingu annars staðar í iðnríkjunum. Þannig er beinlínis rangt að halda því fram að frekari iðnaðaruppbygging á Íslandi hefði þar með verið úr sögunni. Það eru heimatilbúin rök sem hæstv. ráðherrar hafa smíðað sér.

En það er að vísu rétt að menn hefðu ekki haft á lager stórfelldar ókeypis losunarheimildir til að lokka að nýja stóriðju eins og hæstv. ríkisstjórn vildi fá. Það er rétt. Sá hefði orðið munurinn á.

Varðandi tugguna hjá Framsókn um að félagar okkar á Akranesi séu með aðra stefnu í umhverfis- og stóriðjumálum en flokkurinn að öðru leyti þá er hún óskaplega þreytt. Ég verð að segja um Framsókn gömlu: Ja, litlu verður Vöggur feginn. Það er lítið sem tungan finnur ekki. Þetta er það eina sem þeir hafa til að draga fram í þessa umræðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það sem félagar okkar á Akranesi segja um þetta mál er í beinu samhengi við þá staðreynd að fyrirtækið hefur starfsheimildir til að auka umsvif sín og í tengslum við atvinnu- og skipulagsmál bæjarfélagsins og ganga félagar okkar út frá þeim veruleika. Það er nú allt og sumt sem Framsókn hefur fundið. En að sjálfsögðu deila þeir meiningum og skoðunum með okkur í almennu samhengi umhverfismála, þar á meðal því að við gerum sömu kröfur til virkjana og framkvæmda í þessu samhengi eins og öðru hvað umhverfisáhrif snertir. Ég hugga hæstv. utanrrh. með því að þannig er það.