2002-04-09 21:51:12# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Helsta ráðið til þess að draga úr losun að því er varðar samgöngur er skattlagning. Það er gagnrýnt mjög í heiminum hversu lítil skattlagning er á eldsneyti í Bandaríkjunum. Það er alveg ljóst að ef bensínverð yrði hækkað verulega í Bandaríkjunum þá kæmi það til með að draga mjög úr losun, en þar er bensínverð mjög lágt. Það stendur í okkur hér að hækka eldsneytisverð til flutninga innan lands, ekki síst með tilliti til byggðamála. Það er því ekki auðfundin leið í þessu sambandi.

En af því er hv. þm. hefur svona mikinn metnað að gera miklu meira en hér er gert, er hann þá að leggja til að lagður verði á nýr eldsneytisskattur á dísilolíu og bensín til flutninga til þess að draga úr þessum flutningum þannig að þeir borgi fullkomlega það sem vegirnir kosta? Svo er ekki í dag. Fróðlegt væri að vita hvort það er það sem hv. þm. er að tala um. Það er ekki nóg að koma hér upp í máli eftir máli og segja í þessu máli að þetta beri að gera, en segja svo í öðru máli að eldsneytið og flutningskostnaðurinn sé allt of hár. Það er þessi tvískinnungur sumra þingmanna í þessu máli sem mér finnst ekki vera boðlegur.