2002-04-09 22:03:43# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að sú stefnumörkun liggi fyrir meðal annarra þjóða að stóriðjufyrirtæki greiði fyrir losun sína. Sú stefnumörkun liggur fyrir, og það er unnið að því, að losunarkvótar gangi kaupum og sölum þannig að hægt sé að kaupa upp kvóta í öðrum löndum með fjárfestingum, t.d. í löndum Austur-Evrópu, Mið-Evrópu og víðar í heiminum, og ýmis fyrirtæki í heiminum sjái sér hag í því að fjárfesta í þessum löndum og skapa þannig aukið svigrúm. En það liggur náttúrlega jafnljóst fyrir að það mun hafa nokkur áhrif á arðsemi þessara fyrirtækja ef hér á landi á að skattleggja þau þeirra sem ætla að byggja upp stóriðju sérstaklega, og gæti komið í veg fyrir að viðkomandi fyrirtæki risu hér á landi.

Ýmsir draga í efa að þau fyrirtæki sem hér hafa verið að rísa og eiga eftir að rísa gefi nægilegan arð. Ég held að það sé nokkuð snemmt að byrja núna að tala um réttmæti þess að skattleggja þessi fyrirtæki. Engin slík áform eru uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að þessi fyrirtæki geti starfað hér en ekki að koma í veg fyrir starfsemi þeirra, svo það sé alveg skýrt. Það er ekki stefna íslenskra stjórnvalda að gera einhverjar allt aðrar kröfur til fyrirtækja á Íslandi en í samkeppnislöndunum.

Það er stefna íslenskra stjórnvalda að íslenskt atvinnulíf sé samkeppnisfært við fyrirtæki á alþjóðlegum markaði. Við þurfum á því að halda að fá fleiri fyrirtæki hingað til lands, meiri erlenda fjárfestingu sem er minni hér á landi en víðast hvar annars staðar í heiminum, sérstaklega í vestrænum löndum. Það vill svo til að orkulindirnar eru okkar mikilvægasta auðlind og við hljótum að nýta þær til að auka velferð Íslendinga og samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum en ekki til að draga úr þessari samkeppnishæfni. Hvað síðar kann að gerast í þessum efnum vil ég ekki spá neitt um, eða hvernig við munum halda þessum málum áfram á öðrum hluta þess tímabils sem hér er verið að tala um. Við erum með stefnumörkun að því er varðar fyrsta hluta þessa tímabils, til ársins 2012. Þar kemur ýmislegt fram, t.d. í samgöngumálum, á bls. 36, sem hefur verið sagt hér að ekkert komi fram um. Það er því ekki rétt að ekki sé verið að huga að því.

Að því er varðar útstreymi fyrirtækja í áliðnaði í sambandi við flúorkolefni er stefnt að því og það tryggt í þessari stefnumörkun að útstreyminu verði haldið í lágmarki, og það mun verða gert.

Út af fullyrðingu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um að það væri engin auðlindastefna --- að sjálfsögðu er auðlindastefna. En hún þarf ekki að byggjast á því að fara út í það á þessu stigi að skattleggja sérstaklega útstreymi í stóriðju. Þá kemur spurningin: Er ekki rétt að skattlegja annað útstreymi? Það má vel vera að sá dagur komi að við þurfum að gera það í einhverjum meiri mæli, ég ætla ekki að útiloka það, en á þessu stigi tel ég rangt að fara út í sérstaka skattlagningu á stóriðjuna nema þá ef áhugi hv. þingmanna beinist að því að koma í veg fyrir byggingu þessara fyrirtækja. Það er ekki stefna núverandi ríkisstjórnar, það eitt er víst. Við viljum byggja nauðsynlegar virkjanir til að hægt sé að halda þeim áformum sem eru uppi um uppbyggingu stóriðju hér á landi. Við teljum það nauðsynlegt íslensku efnahagslífi, íslensku velferðarkerfi, íslenskum almenningi sem þarf að auka kaupmátt sinn og íslenskum byggðum. Við ætlum ekki að finna upp einhverja skattpíningarstefnu til að koma í veg fyrir það.