2002-04-09 22:25:08# 127. lþ. 115.21 fundur 685. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2002# þál. 19/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er eiginlega fátt nema gott og ekkert nema gott að segja um samskipti Íslands og Færeyja á sviði sjávarútvegsmála. Þau hafa lengi verið góð og gagnkvæmt hagstæð báðum ríkjum. Ég leyfi mér að fullyrða að Íslendingar hafi á ýmsan hátt notið góðs af, þó svo að ljóst sé að þau samskipti séu og voru náttúrlega einkum framan af alls ekki jöfn í þeim skilningi að Færeyingar nutu hér lengi og njóta enn talsvert meiri veiðiréttinda en við hjá þeim. Það er alveg frá þeim tíma að Færeyingar byggðu sjávarútveg sinn að verulegu leyti upp á sókn á Íslandsmið og Íslendingar sýndu því skilning þegar þeir færðu út landhelgina og Færeyingar hafa hér lengi síðan notið talsverðra heimilda. En ég minni líka á að þau fiskveiðiréttindi Færeyinga sem áttu undir högg að sækja á ákveðnum tíma og skammsýnir íslenskir stjórnmálamenn og forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi gerðu á ákveðnum tíma harða hríð að þeim einhliða fiskveiðiréttindum sem Færeyingar höfðu hér og töldu að við ættum að afnema þau þegar erfiðir tímar gengu yfir í íslenskum sjávarútvegi og við þurftum að takmarka dálítið veiðar okkar. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir það og það hefur nú bærilega skilað sér á seinni árum, því hagsmunir Íslands hafa farið að liggja í verulega ríkari mæli í því að hafa þessi góðu samskipti við Færeyinga.

Það er t.d. ljóst að við mundum alls ekki hafa náð þó þeirri hlutdeild í norsk-íslensku síldinni sem við náðum í samningum þar um, nema vegna þess að á grundvelli góðra samskipta við Færeyinga fengum við veiðiréttindi í færeysku lögsögunni og tókum drjúgan hluta af afla okkar í norsk-íslenska síldarstofninum, einkum á árunum 1996 og 1997 og fram á ár 1998 innan færeysku lögsögunnar. Einnig er ljóst að gagnkvæm veiðiréttindi t.d. í kolmunna og fleiri tegundum hafa ekki síður nýst okkur Íslendingum vel núna seinni árin heldur en öfugt.

Það er eitt atriði þó sem ástæða er til að spyrja um í þessum samskiptum og það er kolmunninn. Nú hafa ekki náðst um hann samningar eins og kunnugt er, sem menn jafnvel gerðu ráð fyrir, og það stendur í 7. gr. samningsins sem er settur á blað í febrúar, að menn séu sammála um það, eða eins og segir á færeyskunni: ,,Partarnir eru samdir um, at vegna væntandi broytingar í umsitingini av svartkjaftastovninum í íslendskum og/ella føroyskum sjógvi,`` --- þá ætli menn að tala saman um þau mál og þessi endurskoðun eigi að fara fram --- ,,áðrenn 15. mars 2002``.

Nú er nýlega lokið eða fyrir stuttu árangurslausum fundum um þessi mál í Grænlandi og ég veit ekki hvort íslensk og færeysk stjórnvöld hafa haft með sér eitthvert samband síðan. Það er ekki endilega víst að það verði alveg jafnvandkvæðalaust að tryggja fullkomna samstillingu Íslendinga og Færeyinga í þessu máli af augljósum ástæðum, því við erum upp að vissu marki keppinautar um hlutdeild í þeim stofni. Og ég ætla ekki að fara að rukka utanrrh. um einhver viðkvæm samningahagsmunamál, en ég leyfi mér að spyrja eftir því hvort sé eitthvað af þessu að frétta, hvernig hæstv. sjútvrh. meti stöðuna í samningum almennt um kolmunnann og þá líka þau samskipti okkar og Færeyinga í því ljósi.