2002-04-09 22:29:07# 127. lþ. 115.21 fundur 685. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2002# þál. 19/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður er engin ástæða til mikillar bjartsýni í sambandi við samninga um nýtingu kolmunnastofnsins og því miður er það svo að um ofveiði hefur verið að ræða og þess vegna höfum við gripið til þess ráðs að takmarka afla okkar í þeirri von að aðrir geri það sem virðist vera að menn ætli sér að gera. Við höfum ekki verið ánægðir með þá hlutdeild sem okkur er ætluð í þessu sambandi, en það er alveg rétt hjá hv. þm. að Íslendingar og Færeyingar hafi ekki verið algjörlega samstiga í þessu máli. Þar er eins og oft vill verða um ólíka hagsmuni að ræða.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að við höfum átt mjög góð samskipti við Færeyinga og okkur tókst í eitt sinn þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum um nýtingu síldarstofnsins að ganga frá samningum milli Íslands og Færeyja að næturlagi til þess að reyna að tryggja rétt okkar sem best sameiginlega gagnvart öðrum í því máli og það var skref sem skipti miklu máli um framhaldið.

Sem betur fer hefur ríkt góð samvinna á milli þjóðanna á sviði sjávarútvegsmála og ég vona sannarlega að svo verði áfram og íslensk stjórnvöld hafa, eftir því sem ég best veit eða a.m.k. ávallt meðan ég hef komið þar að málum, alltaf átt mjög góða samvinnu við Færeyinga og sú góða samvinna hefur m.a. byggst á því að við Íslendingar höfum verið tilbúnir til þess að sýna sérstöðu og málum þeirra fullan skilning.