2002-04-09 22:31:09# 127. lþ. 115.21 fundur 685. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2002# þál. 19/127, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði þá held ég nú að það hafi verið hyggindi sem í hag komu og við höfum notið góðs af, án þess að ég sé að mæla með því að við leggjum einhliða hagrænan mælikvarða á gildi þeirra samskipta. Ég tel að okkur hafi verið sómi að því að koma vel fram við frændur okkar og vini Færeyinga í því tilviki að þeirra aðstæður breyttust mjög með útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar á sínum tíma. Ef það stendur okkur nærri að reyna að koma sæmilega rausnarlega fram við einhverja þá held ég það séu nú þessir ágætu grannar okkar.

Það mætti reyndar margt af samskiptum okkar við Færeyinga læra og væri betur t.d. ef jafnhnökralaus væru og hefðu verið í gegnum tíðina samskipti okkar við nágrannana í vestri, Grænlendinga. Þar hefur ekki tekist að leysa jafngreiðlega úr öllum samskiptamálum og vantar upp á í raun að samningar séu til staðar um mál, þó það valdi kannski ekki miklum vandræðum eins og nú háttar.

Varðandi kolmunnastofninn aftur þá held ég að ákaflega mikilvægt sé að reyna að halda góðu sambandi við Færeyinga og ef mögulegt er að Íslendingar og Færeyingar stilli saman kröfur sínar eins og kostur er. Það gætu alveg átt eftir að verða uppi sambærilegir tímar að einhverju leyti í því máli eins og átti við um norsk-íslensku síldina. Ég er alveg sannfærður um að ef Íslendingum og Færeyingum tekst að finna sanngjarnar leikreglur sín í milli þannig að við þurfum ekki að óttast að upp komi erfiður ágreiningur um innbyrðis skiptingu, þ.e. ef slíkt yrði að einhverju leyti uppi á teningunum, þá finnst mér margt benda til þess að sameiginlega væru þjóðirnar sterkari í heildina tekið í þessari glímu vegna þess að þá er komin stór lögsaga þar sem kolmunninn heldur sig mikið og krafan auðvitað orðin stærri og sterkari sem gerð væri sameiginlega. Ég tel því að menn eigi að leggja nokkuð á sig í þeim efnum.