Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:38:31 (7403)

2002-04-09 23:38:31# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:38]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju. Við erum að tala um fyrirtæki sem var stofnað á Sauðárkróki með undirritun samnings 2. desember 1982. Það kemur fram í greinargerð með frv. að fyrstu starfsár fyrirtækisins voru erfið. En eftir endurskipulagningu á fjárhag þess 1989 fóru hlutir að ganga vel. Í greinargerðinni segir:

,,Þær langtímaáætlanir sem lagðar voru til grundvallar hinni fjárhagslegu endurskipulagningu árið 1989 hafa gengið eftir. Fyrirtækinu hefur tekist að þróa nýjar vörutegundir bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Í þeim efnum hefur fyrirtækið notið góðs af samstarfi við Partek á sviði tækni- og vöruþróunar. Markaðsstaða fyrirtækisins er traust og mikil umsvif í byggingariðnaði hér á landi á síðustu árum hafa leitt til þess að efnahagur fyrirtækisins er sterkur. Fyrirtækið hefur staðið vel að viðhaldi og endurnýjun framleiðslubúnaðar og síðasta haust var tekinn í notkun nýr og fullkominn pökkunarbúnaður.``

Virðulegi forseti. Þannig standa málin að við erum að tala um, eins og segir í greinargerðinni, mjög traust og mjög gott fyrirtæki. Við erum að tala um fyrirtæki sem er starfrækt á landsbyggðinni. Út frá öllum málatilbúnaðinum er fáránlegt út frá byggðasjónarmiðum að selja þetta fyrirtæki á Sauðárkróki, sérstaklega þegar maður fer yfir málatilbúnaðinn eða það hvernig sú hugmynd verður til að það eigi að selja þetta fyrirtæki. Það má alveg lesa milli línanna að auðvitað átti byggðaráð Skagafjarðar í fjárhagserfiðleikum og það ríður á vaðið með að reyna að losa peninga út úr eignum. Þannig er málið til komið og þannig fer það af stað.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er fáránlegt frá mínum bæjardyrum séð að nálgast þessa hluti eins og hæstv. iðnrh. ætlar að gera nú. Miklu nær hefði verið að ríkið kæmi inn í þetta fyrirtæki með framlögum og hefði aukið eignarhlut sinn. Nú hefur Sauðárkrókur selt rafveituna, þó að það sé í gegnum Rarik, en hún er grunnþjónustufyrirtæki sem hefði að mínu mati átt að vera í eigu sveitarfélagsins. Miklu ríkari ástæða hefði verið til þess að selja ríkinu eignarhlut bæjarins í þessu félagi. Ríkið átti augljóslega að koma að því dæmi.

Það er mjög vanhugsað út frá byggðalegum sjónarmiðum að taka fyrirtæki í góðum rekstri á þennan hátt og leika sér með það eins og hér á að gera. Það er mjög vanhugsað. Ef maður les á milli línanna þá er Kaupfélag Skagfirðinga að koma inn í þessa sölu og maður getur alveg getið sér þess til af hverju félagið er að strekkja sig í þá átt að koma að því að kaupa fyrirtækið af ríkinu og af bænum. Það er vegna þess að það félag hefur fjárhagslega burði og þar innan veggja eru hugsjónir um að viðhalda byggð og treysta byggð í Skagafirði. Út frá byggðasjónarmiðum er því fáránlegt að setja kaupfélagið í þá stöðu að þurfa að beita fjárhagslegu afli sínu til þess að halda þessari vel reknu framsæknu verksmiðju í byggðarlaginu þegar það félag gæti farið í næg önnur verkefni að öðrum kosti. Þannig sé ég þetta mál.

Þetta mál þarf mikillar umræðu við vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það er röng byggðaleg aðgerð að mínu mati að brjóta þetta fyrirtæki upp og selja. Ég tel það líka ranga byggðalega aðgerð út frá stöðu Kaupfélags Skagfirðinga. Á þess að vita það tel ég að ákvörðunartaka þess byggist fyrst og fremst á þeim grundvallarsjónarmiðum að það vilji treysta byggð og efla bæjarfélagið á Sauðárkróki og Skagafjörð. Það fyrirtæki mun undir öllum kringumstæðum nota alla þá fjármuni sem það hefur til ráðstöfunar til þess að efla atvinnuuppbyggingu á svæðinu á öðrum sviðum þurfi það ekki að vera í slíkum varnarleik sem þetta frv. framkallar.

Virðulegi forseti. Þetta frv. á eftir að fara til nefndar. Við þurfum að fá útskýringar á tilurð þess. Augljóst er hvernig hugmyndin er sett á flot. Hugmyndin að því að selja er fyrst og fremst til komin vegna fjárhagslegrar stöðu sveitarfélagsins. Það hefur viljað losa um peninga. En ríkisstjórnin á auðvitað að hafa önnur markmið að leiðarljósi. Þarna er kjörið tækifæri til þess að viðhalda sterku fyrirtæki í heimabyggð í stað þess að selja, vita ekkert um framtíð fyrirtækisins og vera svo í alls konar byggðaaðgerðum upp á nýjan leik. Þetta eru ekki sannfærandi vinnubrögð, virðulegi forseti.

Ég þarf svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta núna við 1. umr., en við munum kalla eftir því hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að gefnar verði frambærilegar skýringar á því hvers vegna hæstv. ríkisstjórn fer þessa leið. Hún ætlar að nota ágóðann af sölunni til ýmiss konar verkefna. En til lengri tíma litið verður manni hverjum ljóst að það að hafa svo stórt og hlutfallslega stöndugt fyrirtæki í sveitarfélaginu Skagafirði hlýtur að vera gulls ígildi fyrir allt það svæði.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu ætla ég að láta máli mínu lokið. Við munum fara fram á í nefnd að fá miklar og góðar skýringar á því hvers vegna þessi vegferð er farin.