Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:45:54 (7404)

2002-04-09 23:45:54# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er eitthvað sem mér finnst ekki alveg ganga upp í málflutningi hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs því að annars vegar er því haldið fram að ríkið hefði átt að eiga lítinn hlut í þessari verksmiðju ásamt því fyrirtæki sem nú hefur gert tilboð í kaup á mestöllum hlutum í fyrirtækinu, sem hefði þýtt að sá hlutur ríkisins hefði orðið ákaflega verðlítill ef ekki verðlaus. Jafnframt er því haldið fram að ríkið hafi staðið illa að málum í sambandi við sölu á Áburðarverksmiðjunni og þá er eins og það hafi átt að vera aðalatriðið að tryggja söluna þannig að gott verð fengist, þannig að það rekur sig hvað á annars horn.

Mörg orð eru höfð um það að þetta fyrirtæki hafi verið mikill happafengur og sé gulls ígildi og allt þar fram eftir götunum og get ég tekið undir það. Þetta er mikilvægt fyrirtæki og skiptir umrætt byggðarlag ákaflega miklu máli. En ekki verður horft fram hjá því að þegar sú staða var komin upp að sveitarfélagið vildi selja og finnska fyrirtækið, Paroc Group, að ríkið varð að hugsa um að verja sinn hlut í þessu ágæta fyrirtæki og komast þá inn í þá sölu sem varð niðurstaðan. Ég held því að þarna hafi verið staðið mjög skynsamlega að málum af okkar hálfu, ég leyfi mér að halda því fram.

Það að hér sé staðið óeðlilega að málum og þetta sé gert án lagaheimildar eins og hér hefur verið haldið fram, þá er með frv. verið að leita heimildar löggjafarsamkomunnar til þess að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni. Auðvitað gengur sú sala og þau viðskipti ekki fram nema að samþykktu þessu frv.

Það sem hér var sagt um samkeppnismál, þá er það svo að samkeppnisyfirvöld þurfa að fara yfir þá stöðu sem þarna mun skapast verði af þessum viðskiptum, og mikilvægt að þau svör liggi fyrir fyrir lok þessa mánaðar og verði jákvæð til þess að af viðskiptum geti orðið. Allt tal um að samkeppnismálaráðherra eigi ekki að standa að þessu er náttúrlega ekki sanngjarnt vegna þess að á þessari stundu veit ég ekkert um hvort þetta stenst ákvæði samkeppnislaga og það er einfaldlega til meðferðar á þeim stað sem er bær um að meta það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að betra væri ef fleiri slíkar verksmiðjur væru starfandi á landinu og ég er alveg sammála honum um það. Ég hefði gjarnan viljað sjá sambærilega vinnustaði miklu víðar og auðvitað erum við alltaf að vinna að því að reyna að finna slík fyrirtæki og fjárfesta sem eru tilbúnir í að leggja fjármagn í vinnustaði sem þennan. Það er ekki á hverju strái sem við finnum slíka aðila en þó eru ný dæmi um að líklegt virðist vera að farið verði í uppbyggingu á áhugaverðu fyrirtæki í Helguvík. Það sýnir að auðvitað erum við með allar klær úti og reynum eins og við getum að skapa slíkar aðstæður og slík tækifæri.

Haft var á orði að sérkennilegt væri að það skyldi eiga að verja einhverju fé í uppbyggingu á viðkomandi svæði, annaðhvort í sambandi við atvinnulíf eða samgöngubætur. Vel má vera að það sé umdeilanlegt. En hins vegar tel ég mikilvægt að hluti af þessu fjármagni geti farið til uppbyggingar á landsbyggðinni og lít á það sem byggðamál. Og það að samgöngumál hafi komið þar til umræðu er fyrst og fremst hugsað sem framlag ríkisins og ríkisstjórnar í þeim efnum að lækka flutningskostnað hingað á Stór-Reykjavíkursvæðið ef af því yrði að því fjármagni yrði varið til uppbyggingar á veginum yfir Þverárfjall. Það mundi stórbæta samgöngur suður þar sem markaðurinn er stærstur auk þess sem það mundi vera nánast bylting í samgöngubótum í héraði og ég veit ekki betur en þingmenn þessa kjördæmis, Norðurl. v., hafi verið sammála um að leggja áherslu á þennan veg. Ég vonast því sannarlega til að hv. þingmenn standi þá með mér í því að því fjármagni verði varið til slíkra samgöngubóta. Þessi texti er í samræmi við það sem sett var fram í sambandi við Kísiliðjuna og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon studdi það mál, sem mér þótti ákaflega vænt um, kom mér kannski aðeins á óvart en samt sem áður er það alltaf gleðilegt ef maður fær svona stuðning úr óvæntum áttum.

Ég var búin að fara yfir það hvers vegna ekki þótti skynsamlegt af ríkinu að eiga áfram sinn hlut eftir að ljóst var að tilboð mundi berast í hlut bæði Paroc og Skagafjarðar og tel að full rök séu fyrir því þar sem þar hefði verið um 70% hlut að ræða.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara frekar út í þau atriði sem hér hafa verið til umfjöllunar. Ég heyri að hv. þingmenn hafa efasemdir um þennan gjörning og þannig er það, að allt orkar tvímælis þá gjört er, en ég stend við það að ég tel að hér hafi verið staðið vel að málum og vonast til að frv. eigi greiðan gang í gegnum þingið.