Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:53:22 (7405)

2002-04-09 23:53:22# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:53]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að leggja tvær spurningar fyrir hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra byggðamála. Fyrri spurningin er sú hvort ráðherrann óttist ekki að sú sala sem fyrirhuguð er á hlut ríkisins, sveitarfélagsins einnig, geti orðið til þess að verksmiðjan verði ekkert endilega rekin í framtíðinni á Sauðárkróki, gæti þess vegna alveg eins verið flutt þaðan innan nokkurra ára. Þetta var fyrri spurningin og snýr að því að viðhalda atvinnutækifærum og efla byggð í landinu, og lýsir áhyggjum mínum af því hvaða afleiðingar þetta gæti haft.

Í annan stað spyr ég hvort sú stefnumótun sem birtist í því að ákveðinn hluti þeirra fjármuna sem ríkið selur fyrir verði notaður til framkvæmda heima í héraði, hvort megi líta svo á að hér sé um stefnumótun almennt að ræða. Nú er þetta þriðja dæmið sem viðkomandi hæstv. ráðherra stendur fyrir í þessa veru. Það fyrsta var salan á Orkuveitu Suðurnesja og hluti af þeim fjármunum notaður til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Síðan Kísiliðjan í Mývatnssveit og nú salan á Steinullarverksmiðjunni og í öllum tilfellum hafa fjármunir verið notaðir eða ætlast til að þeir verði notaðir í viðkomandi landshlutum. Því spyr ég: Komi til þess að ríkið selji Orkubú Vestfjarða, mun þá hluti af þeim fjármunum verða notaður á Vestfjörðum?