2002-04-10 00:06:33# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[24:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að taka það fram að frv. gengur ekki út á að leggja fyrirtækið niður heldur selja það ábyrgum aðilum. Ég get alveg tekið undir það að þetta er vel rekið fyrirtæki og á vonandi glæsta framtíð fyrir sér. Það er ekki hægt að halda því fram að verið sé að setja kaupfélagið í einhverja varnarstöðu. Kaupfélagið er bara burðugt og það stendur í því að kaupa þennan hlut ásamt Húsasmiðjunni og BYKO. (Gripið fram í: Nauðugt ...) Því er ekki nokkur fótur fyrir því sem hv. þm. kallar fram í, að það hafi nauðugt farið út í þessi kaup. Það er svo langt frá því. Ég gæti miklu frekar trúað því að kaupfélagið hefði áhuga á að kaupa enn meira.

Og varðandi það hvers vegna þetta sé nú á borðum hv. þm. Það er einfaldlega vegna þess að sveitarfélagið Skagafjörður vildi selja og ríkið er að hugsa um að verja sinn hlut og fá viðunandi verð fyrir hlut sinn í þessu fyrirtæki. Það gerist með því að hoppa upp í þennan vagn og selja ásamt sveitarfélaginu. Mér finnst þetta mjög eðlilegur framgangur í málinu og átta mig ekki á því hvaða tónn þetta er sem heyrist hér á hv. Alþingi.