2002-04-10 00:08:15# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[24:08]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi það ekki skilist í ræðu minni, þá finnst mér þetta óeðlilegur framgangsmáti. Ég tel ekki verjandi að fara þessa leið þegar hér er um að ræða gott fyrirtæki sem er staðsett á landsbyggðinni og þess vegna hafi verið valinn lakasti kosturinn með einhverri sýn á markaðsmál að leiðarljósi.

Fyrirtækið var sett á laggirnar til þess að treysta atvinnustarfsemi úti á landsbyggðinni og því má halda áfram þó svo að því þurfi eitthvað breyta hvernig eignaraðilar koma að fyrirtækinu. Það var ég að draga fram. Ég er sannfærður um, þó að hæstv. iðnrh. sé það ekki, að aðkoma Kaupfélags Skagfirðinga byggir fyrst og fremst á því að þar eru stjórnendur hræddir um að ef heimamenn missi yfirráð og ítök í fyrirtækinu þá sé mikil hætta á að það fari burt.