2002-04-10 00:31:43# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[24:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef fylgst af athygli með umræðunni og sannast sagna þegar ég sá frv. fyrst hélt ég að hæstv. ráðherra væri að leggja fram frv. til kynningar sem yrði síðan tekið til skoðunar og afgreitt á næsta þingi. En síðan kemur í ljós að af hálfu Framsfl. er þetta fyrst og fremst hugsað sem formsatriði. Verið er að skjóta lagastoð undir ákvörðun sem þegar hefur verið tekin. Það er þegar búið að ganga frá kaupsamningi þegar Alþingi fær í hendur frv. til samþykktar. Mér finnst þetta vægast sagt furðuleg vinnubrögð. Og mér leikur forvitni á að vita hver afstaða þess fólks er sem starfar við þetta fyrirtæki. Þarna starfa tugir manna. Hver er afstaða þess fólks? Ég hef ekki orðið var við að það kæmi fram við umræðuna. Hefur það verið kannað? Hafa farið fram viðræður við starfsfólkið? Eftir því sem mér er tjáð er þar mikil andstaða gegn þessari ráðagerð auk þess sem hér hefur verið bent á að á meðal sveitarstjórnarmanna eru miklar deilur um málið. (Gripið fram í.)

Síðan hafa komið fram staðreyndir við umræðuna sem mér finnst vert að gaumgæfa og þær lúta að hinum margfræga markaði. Hér er gert ráð fyrir að selja hlut ríkisins þeim aðilum sem höndla með þessa vöru, koma henni á markað og fá þannig kverkatak eða eignarhald öllu heldur yfir framleiðandanum. Ef það væri þeirra hagur að beina viðskiptunum annað, til útlanda til innkaupa á vörunni, þá verður það gert eða farnar aðrar leiðir. Að þessu beinast varnaðarorðin, að rekstur verksmiðjunnar yrði ekki tryggari með slíku fyrirkomulagi. Þvert á móti yrði hann ótryggari. Það er þetta sem sveitarstjórnarmenn hafa verið að benda á og það er þetta sem mér er sagt að starfsmenn verksmiðjunnar hafi áhyggjur af. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi Alþingi nánari skýringar á þessu.

Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég furða mig á því að við umræðuna skulu ekki vera mættir allir þingmenn Norðvesturlands vegna þess að þetta er atvinnumál sem brennur á fólki og menn vilja láta taka alvarlega. En það sem ég staldra við í upphafi eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu, að gengið skuli vera frá samningum og Alþingi síðan ætlað að skjóta undir þá lagastoð. Mér finnst þetta vera forkastanleg vinnubrögð.