Mál á dagskrá

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 10:32:59 (7421)

2002-04-10 10:32:59# 127. lþ. 116.91 fundur 495#B mál á dagskrá# (aths. um störf þingsins), SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur jafnan ekki þótt gott ráð að vega tvisvar í sama knérunn. Allir muna umræðuna um afbrigðamál hæstv. forsrh. í gær, um Þjóðhagsstofnun, en mér sýnist enn verra vera upp á teningnum nú varðandi 38. mál. Það er sótt um afbrigði því til handa.

Ég vil skjóta því hér inn í að þessi ákvæði um tímamörk á framlögðum málum hljóta bráðum að verða einskis virði og menn með hugarfóstur sín hljóta að fá afbrigði veitt fyrir þau. En hér er sótt um afbrigði fyrir fráleitasta og heimskulegasta mál sem sá sem hér talar hefur nokkru sinni á ævidögum sínum séð eða heyrt.