Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:06:30 (7426)

2002-04-10 11:06:30# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974.

(Forseti (HBl): Ég vil fá að grípa fram í. Ég sé að þingmenn þurfa að bregða sér frá og vil biðja þá að vera fljóta að því.)

Það kemur ekki að sök, herra forseti, þó að einhver kliður sé. Ég byrja aftur.

Ég mæli fyrir frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl., sem felur í sér nauðsynlegar lagabreytingar um að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður eins og heiti frv. ber reyndar með sér.

Hugmyndir í þessa veru eru ekki nýjar af nálinni heldur hafa tillögur af þessu tagi komið fram í einni eða annarri mynd allt frá miðjum 9. áratugnum eins og rakið er í II. kafla athugasemda við frv. Á þeim tíma hafa miklar breytingar orðið á sviði efnahagsmála í þjóðfélaginu og starfsemi annarra stofnana sem starfa á því sviði, einkum fjmrn., Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands, hefur aukist og styrkst.

(Forseti (HBl): Ég vil aftur biðja hæstv. utanrrh. afsökunar og biðja hv. þm. að eiga þessi áríðandi samtöl annars staðar en hér á ganginum fyrir framan ræðumann.)

Herra forseti. Þær stofnanir sem hér voru nefndar eru vel í stakk búnar til að taka við helstu verkefnum Þjóðhagsstofnunar, eins og síðar verður gerð grein fyrir. Í meginatriðum er við það miðað að færsla þjóðhagsreikninga og opinber hagskýrslugerð verði færð til Hagstofunnar og sameinuð skyldum verkefnum þar, en gerð efnahagsáætlana og ráðgjöf við stjórnvöld á því sviði verði í hendi fjmrn. Hlýtur það að teljast eðlileg verkaskipting og í samræmi við það sem tíðkast í flestum vestrænum ríkjum.

Efnahagsráðgjöf við stjórnvöld er nú með allt öðrum hætti en þegar gildandi lög um Þjóðhagsstofnun voru sett. Hún felst nú fyrst og fremst í mati á framvindu og horfum þegar móta skal stefnu til næsta árs eða næstu ára og þá einkum stefnu í ríkisfjármálum við gerð fjárlaga. Þjóðhagsspár eru nauðsynleg forsenda fyrir ákvarðanir stjórnvalda í efnahagsmálum, einkum við gerð fjárlaga. Fjármálaráðuneytið hefur eflt starfsemi sína á þessu sviði enda nauðsynlegt að það geti sem best lagt mat á þróun og horfur í efnahagsmálum vegna fjárlagagerðar og almennrar hagstjórnar.

Þetta fyrirkomulag felur það í sér að spárnar eru settar fram með hliðsjón af efnahagsstefnu stjórnvalda hverju sinni. Það á reyndar ekki bara við um opinberar efnahagsspár heldur er það almennt viðtekin venja flestra aðila sem fást við slíkar spár, hvort sem það eru fjármálastofnanir, aðilar vinnumarkaðarins eða aðrir. Hinar opinberu spár og efnahagsstefna stjórnvalda eru sá grunnur sem byggt er á og síðan ræða menn hugsanleg frávik frá þeim, meðal annars með tilliti til breyttra forsendna og annarra atriða sem skipta máli.

Seðlabankinn rekur öfluga starfsemi um allt sem lýtur að því að fylgjast með framvindu og horfum í efnahagsmálum enda forsenda þess að ákvarða vexti í ljósi horfa um verðbólgu allt að tvö ár fram í tímann. Með nýjum Seðlabankalögum eru lagðar meiri kvaðir en áður á bankann um miðlun upplýsinga til stjórnvalda, jafnt ráðuneyta sem Alþingis, og almennings, þannig að Seðlabankinn er mun betur í stakk búinn en áður var til að þjóna þessu hlutverki.

Almennt mat á stöðu og horfum í efnahagsmálum mun því í vaxandi mæli verða hluti af starfsemi þeirra stofnana hins opinbera, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka, sem annast veigamikla þætti efnahagsmála og hagstjórnar. Eðlilegt er að ríkisstjórn setji fram forsendur sínar og spár um þróun efnahagsmála beint við fjárlagagerðina og Seðlabankinn meti stöðuna á eigin forsendum og hafi yfir að ráða upplýsingum og möguleikum til að gera það og veita þannig spá stjórnvalda á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald, þannig að sem mestur trúverðugleiki ríki í þessum efnum.

Þjóðhagsstofnun hefur unnið að ýmsum verkefnum fyrir einstök ráðuneyti, Alþingi, aðila vinnumarkaðarins o.fl. Má þar meðal annars nefna athuganir sem tengjast sjávarútvegsmálum, orku- og iðnaðarmálum, umhverfismálum og tryggingamálum. Gert er ráð fyrir að athugunum af þessum toga verði framvegis sinnt af hlutaðeigandi ráðuneytum eða þau verði falin öðrum stofnunum og einkaaðilum. Í þessu sambandi má nefna að gert er ráð fyrir að hagfræðilegar athuganir á sviði sjávarútvegsmála færist til sjávarútvegsráðuneytisins en það geti aftur leitað til annarra aðila, bæði opinberra stofnana og einkaaðila. Grundvöllur slíkra athugana yrði annars vegar í Hagstofu hvað varðar afla, framleiðslu og uppgjör fyrir liðna og líðandi tíð. Hins vegar er áformað að efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytis muni annast mat á horfum í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum, meðal annars á grundvelli fyrirliggjandi reiknilíkana sem verða vistuð þar. Iðnaðarráðuneytið og stofnanir þess hafa fengist við margvíslegar athuganir á sviði stóriðju og orkumála og er reiknað með að svo verði áfram.

Á sviði umhverfismála hefur umhverfisráðuneytið sjálft staðið fyrir ýmsum athugunum. Gert er ráð fyrir að svo verði áfram og ráðuneytið geti jafnframt falið öðrum stofnunum eða fyrirtækjum að annast ýmis verkefni auk þess sem mat efnahagsáhrifa verður á verksviði efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hvað snertir verkefni á sviði heilbrigðis- og tryggingamála er gert ráð fyrir að þeim verði sinnt af stofnunum ráðuneytisins, Hagstofu og efnahagsskrifstofunni. Tryggingastofnun hefur í vaxandi mæli annast ýmsar athuganir á sviði almannatrygginga og styrkt starfsemi sína á því sviði. Hagstofan hefur byggt upp verulegt gagnasafn um heilbrigðis- og tryggingamál í samvinnu við ráðuneytið, landlæknisembættið og Tryggingastofnun, en jafnframt er nú áformað að leggja enn ríkari áherslu á athuganir á þessu sviði, meðal annars í tengslum við áætlanir um samræmda skýrslugerð um þennan málaflokk innan vébanda hagskýrslusamstarfs EES-ríkja. Loks má nefna að fjármálaráðuneytið sinnir að sjálfsögðu margvíslegum athugunum á sviði skattamála, ekki síst fyrirspurnum frá Alþingi, aðilum vinnumarkaðarins o.fl.

Þannig er ljóst að þótt Þjóðhagsstofnun verði lögð niður verður áfram fyrir hendi sérþekking til að vinna verk eins og þau sem hér hafa verið nefnd og koma að mörgum aðilum í samfélaginu.

Hagstofan leggur mörgum aðilum til reglubundnar og sértækar upplýsingar um framvindu efnahagsstærða, svo sem stjórnvöldum, samtökum á vinnumarkaðinum og einstökum fyrirtækjum, ekki síst á fjámálamarkaði. Jafnframt hefur hún annast athuganir og álitsgerðir fyrir stjórnvöld og stofnanir og látið Alþingi í té upplýsingar og umsagnir. Þá hefur Hagstofan um langan aldur átt mikil samskipti og samstarf við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega á sviði verðlags- og launamála. Við flutning hagskýrsluverkefna Þjóðhagsstofnunar til Hagstofunnar er gert ráð fyrir að upplýsingastarfsemi Hagstofunnar um hvaðeina, sem lýtur að efnahagsframvindu og breytingum þjóðhagsstærða, verði aukin og styrkt.

Meðal annars er áformað að leggja aukna áherslu á að afla og miðla upplýsingum um skammtímabreytingar efnahagsstærða til þess að sú vitneskja nýtist sem best við mótun efnahagsstefnu og athuganir á efnahagsframvindunni á hverjum tíma. Hagstofan verður enn fremur betur í stakk búin til að þjóna ríkisstjórn, Alþingi og aðilum vinnumarkaðarins með upplýsingagjöf og athugunum á grundvelli sameinaðra haggagnasafna frá stofnununum tveimur. Eðlilegt er og nauðsynlegt að áhersla verði lögð á þessa starfsemi þegar allir helstu þættir opinberrar hagskýrslugerðar um efnahagsmál verða saman komnir í einni stofnun eins og stefnt er að með frumvarpinu. Auk þess er fyrirhugað að endurskipuleggja Hagstofuna jafnframt að öðru leyti og flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyra hagskýrslugerðinni beinlínis. Nánar er fjallað um þau áform í V. kafla athugasemda við frv. og boðað að leita verði eftir viðeigandi lagabreytingum í því skyni á hausti komanda.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að Seðlabanki Íslands er reiðubúinn að taka að sér hagfræðilegar athuganir og skýrslugerðir um efnahags- og peningamál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála og að láta nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahags- og peningamál, enda stangist það ekki á við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands og samrýmist að öðru leyti hlutverki hans og sérfræðiþekkingu.

Jafnframt kemur fram í athugasemdunum eftir viðræður við Seðlabanka Íslands að á sömu forsendum er Seðlabankinn reiðubúinn að láta aðilum vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi í té upplýsingar og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir eftir því sem um semst og væntanlega getur það orðið til þess að skapa þessum aðilum fullnægjandi aðstæður til að leggja mat sitt á stöðu og framvindu í efnahagsmálum. Seðlabankinn hefur fengið það sjálfstæði sem kunnugt er með lögum að hér ætti að vera um góðan vettvang að ræða fyrir þá aðila sem hér um ræðir.

Í þessu samhengi er jafnframt rétt að benda á að starfsemi ýmissa ráðgjafar- og þjónustufyrirtækja á hinum ýmsu sviðum auk rannsóknastofnana háskólanna hefur eflst verulega á undanförnum árum og í mörgum tilvikum getur beinlínis verið æskilegt að leita til slíkra aðila um úrvinnslu verkefna. Sama gildir um miðlun upplýsinga, hvort sem er til ríkisstjórnar, Alþingis eða annarra aðila. Fjármálaráðuneytið, Hagstofa Íslands, Seðlabankinn og aðrar opinberar stofnanir munu sem fyrr veita öllum þessum aðilum upplýsingar og aðra þjónustu eftir því sem starfsemi þeirra segir til um.

Opinber umræða um efnahagsmál fer nú fram á mun breiðari og faglegri grunni en áður var og það hefur að sjálfsögðu gerst með breyttri þjóðfélagsgerð. Enn fremur hefur miðlun upplýsinga um efnahagsmál til almennings farið vaxandi á undanförnum árum og þar koma fjölmargar stofnanir við sögu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa um alllangt skeið rekið öfluga starfsemi á þessu sviði sem hefur einna skýrast birst í þætti Alþýðusambands Íslands hvað varðar almenna stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Sama má segja um Samtök atvinnulífsins. Þetta er mikilvægur þáttur í almennri efnahagsumræðu og mótun efnahagsstefnunnar hverju sinni og nauðsynlegt að renna styrkum stoðum undir hann.

Þá hefur starfsemi fjármálastofnana á þessu sviði eflst verulega með tilkomu greiningardeilda þeirra og margar þeirra gefa út mánaðarlegar skýrslur um efnahagsmál eins og kunnugt er. Þær eiga því stóran þátt í umræðunni og hafa breikkað hana til muna frá því sem áður var. Rannsóknastofnanir háskólanna hafa einnig eflst og eru að eflast. Þótt þessir aðilar birti ekki heildstæðar þjóðhagsspár setja þeir fram rökstutt álit á þeim spám sem birtast og ekki ólíklegt að þeir muni í framtíðinni gera eigin spár eftir því sem þeim vex fiskur um hrygg. Það er því af sem áður var að slíkar upplýsingar verði að sækja til einnar og sömu stofnunar.

Til þess að styrkja upplýsingamiðlun og efla faglega umræðu enn frekar er stefnt að því að gera helstu reiknilíkön og gagnasöfn sem notuð eru við gerð þjóðhagsspár o.fl. öllum aðgengileg, t.d. á vefnum. Þetta mun gera efnahagsspár stjórnvalda og allar meginforsendur þeirra gagnsærri auk þess sem öðrum aðilum verður gert kleift að nýta sér þessi líkön og gera spár og athuganir á eigin forsendum og skapa nauðsynlegt aðhald í þessu sambandi í samfélaginu þannig að áreiðanleiki og trúverðugleiki þeirra verði meiri.

Að öllu samanlögðu verður því að telja að áfram verði vel séð fyrir þeim verkefnum og þeirri starfsemi sem Þjóðhagsstofnun hefur sinnt auk þess sem verkaskipting opinberra stofnana á þessu sviði verður skýrari og til lengdar hagkvæmari en nú er. Sú þróun sem orðið hefur þar sem fleiri aðilar koma að þessum málum en áður, ekki síst á almenna markaðinum, er bæði eðlileg og æskileg og stuðlar að markvissari umræðu og styrkir faglega umfjöllun á þessu sviði sem skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir hv. Alþingi sem þarf að hafa sem mestar og bestar upplýsingar um stöðu og framvindu efnahagsmála og þá skiptir miklu máli að sem flestir komi þar að þannig að álit sem flestra birtist.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar sérstaklega um einstakar greinar frv. heldur vil ég vísa um það til athugasemda við þær að svo miklu leyti sem þær skýra sig ekki sjálfar.

Að svo mæltu vil ég leggja til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.