Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 11:40:15 (7442)

2002-04-10 11:40:15# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns mótmæla þeim vinnubrögðum sem þinginu er boðið upp á, að ætla að afgreiða þetta stóra mál, sem skoða þarf vandlega í nefnd, á örfáum dögum. Það er ekki boðlegt. Við munum gera kröfu um það þegar málið fer til efh.- og viðskn. að það fái þar eðlilega umfjöllun, eins og þörf er á. M.a. þarf að senda frv. til umsagnar til ýmissa aðila. Það er ekki nóg, eins og stundum er gert með hraði í þinglok þegar mál koma seint fyrir þingið, að efh.- og viðskn. kallar 20--30 manns í einu inn á fund í klukkutíma og þar með sé umfjöllun af hálfu nefndarinnar lokið. Í svona stóru máli þurfa að koma fyrir þingið skrifleg álit.

Varðandi málið sjálft þá verð ég að segja að það vakti nokkra undrun mína að málið skyldi koma fyrir þingið. Það að leggja niður Þjóðhagsstofnun kom, eins og allir vita, fyrst fram í sjónvarpsviðtali við hæstv. forsrh. fyrir um ári, að því er best verður séð í reiðikasti hans vegna umfjöllunar Þjóðhagsstofnunar um að ógætilega væri farið við hagstjórnina. Auk þess voru stjórnvöld ekki sátt við verðbólguspá sem Þjóðhagsstofnun hafði sett fram. Það er alveg ljóst að ýmsir fá á baukinn bjóði þeir valdinu birginn og sem ganga ekki í takt við hæstv. forsrh. Það er alveg ljóst að þetta frv. er auðvitað eitt afkvæmi þess ástands.

Ég sé ekki, herra forseti, að nein fagleg eða fjárhagsleg rök séu fyrir því að leggja niður þessa sjálfstæðu og óháðu stofnun sem svo mikla þýðingu hefur haft m.a. fyrir greiningu og hagstjórn í efnahags- og atvinnulífi á mörgum umliðnum árum. Ég held að það sé fyrst og fremst verið að þjóna dyntum forsrh. sem unir því ekki að Þjóðhagsstofnun hafi aðrar skoðanir eða spár en honum þóknast.

Ég held að fæstir sjái nokkra skynsemi í að leggja niður Þjóðhagsstofnun, sem gegnir mikilvægu hlutverki sem óháð stofnun við hagrannsóknir og greiningu á stöðu og spá um þróun efnahagslífsins. Það vekur vonbrigði að andstaða Framsfl., sem birtist fyrst þegar þessi hugmynd kom fram, hafi breyst. Þeir hafa lyppast niður í þessu máli og ætla að fylgja sjálfstæðismönnum.

Hvorki í frv. né í framsöguræðu hæstv. starfandi forsrh. komu fram nein frambærileg rök fyrir því að leggja niður þessa stofnun. Það má vel vera að ástæða sé til að skoða endurskipulagningu á öllum þeim stofnunum sem fjalla með einum eða öðrum hætti um hagrannsóknir eða efnahagsmál. En er þetta endilega rétta leiðin, að leggja niður Þjóðhagsstofnun? Hefði ekki eins verið ástæða til að efla Þjóðhagsstofnun eins og að leggja hana niður?

Ef það átti að fara út í að endurskipuleggja málin hjá þeim stofnunum sem fjalla um hagstjórn, hagskýrslur, þjóðhagsspá og efnahagsstjórn átti auðvitað allt að vera undir. Í þeirri endurskipulagningu hefði átt að taka með í reikninginn verkefni Seðlabankans, Hagstofu, Þjóðhagsstofnunar, efnahagsskrifstofu fjmrn., hagdeilda innan stofnana ráðuneytisins o.s.frv. Þess í stað er byrjað á öfugum enda. Menn setja sér fyrst og fremst eitt markmið, þ.e. að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Það er útgangspunkturinn en engin markmið eru sett um greiningarvinnu, hverju eigi að ná fram í hagræðingu eða þjónustu við stjórnvöld og Alþingi, aðila vinnumarkaðarins o.s.frv. Útgangspunkturinn er bara að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Punktur og basta. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð og ég held að menn muni sitja uppi með höfuðverk af óhagkvæmara kerfi og umfram allt miklu dýrara, eins og við vorum að ræða áðan.

[11:45]

Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gengið á hæstv. ráðherra áðan hefur því ekki verið svarað hvað það kostar að færa inn í ráðuneytin ýmis af þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft. Talað hefur verið um að flytja jafnvel þessi verkefni til einkaaðila. Við þekkjum hvað sérfræðiþjónusta hefur almennt blásið mikið út hjá ráðuneytunum og ég mun í efh.- og viðskn. óska eftir útreikningum á því hvað viðbótarkostnaður getur orðið mikill hjá ráðuneytunum þegar þau eiga að fara að taka til sín ýmis verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni könnu.

Auðvitað þarf líka að fá fram hverju ASÍ hefur verið lofað í þessum efnum og ég er alveg sannfærð um að aðrar hagdeildir aðila vinnumarkaðarins, eins og hjá Samtökum atvinnulífsins, BSRB, BHMR og hjá fleiri aðilum munu kalla eftir sambærilegri fyrirgreiðslu. Ég sem fyrrv. félmrh. þekki það að félmrn. hafði úr einhverri púllíu að spila til þess að leggja til hagdeilda aðila vinnumarkaðarins og það mátti aldrei setja krónu meira í aðra hagdeildina en hina þannig að allar þessar hagdeildir munu gera sömu kröfu um að auka jafnmikið við sig og ASÍ fær í sína hagdeild.

Af því að ég er að ræða um ASÍ vil ég nefna það að verið er að réttlæta að ASÍ fái aukið hlutverk í efnahagsmálum við niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar. Í Morgunblaðinu í dag segir Gylfi Arnbjörnsson að það sé ekki nægilegt að hans mati fyrir ASÍ að verið sé að færa þessi verkefni inn í Seðlabankann sem taki að sér aukið hlutverk við efnahagsráðgjöf í stað Þjóðhagsstofnunar. Orðrétt segir Gylfi Arnbjörnsson, með leyfi forseta, ,,að ASÍ hefði lýst skilningi á að slíkt gæti hentað t.d. Alþingi og stjórnmálaflokkunum`` --- þ.e. að færa þetta inn í Seðlabankann, og að Alþingi og stjórnmálaflokkar gætu leitað þangað, en síðan er ,,bent á að samtökin ættu hins vegar mjög erfitt með að fallast á þá leið. Ástæðan væri sú að Seðlabankinn tæki ákvarðanir um framkvæmd peningamálastefnunnar, ASÍ ætti oft á tíðum í hagfræðilegri umræðu við bankann og það fengi ekki samrýmst ef bankinn væri á sama tíma ráðgjafi ASÍ um ákveðin mál. Slíkt mundi leiða til árekstra.``

Það á nákvæmlega sama við um þingið, herra forseti, og þingmenn. Þeir geta iðulega staðið í deilum við Seðlabankann um þá hagstjórn sem hann er með. Þetta er hagstjórnaraðili sem hefur það hlutverk að vinna með ákveðið stýritæki til að ná ákveðnum verðbólgumarkmiðum og það er ótækt, með sömu rökum og Gylfi Arnbjörnsson nefnir hér, að þingmenn eigi sína ráðgjöf komna undir Seðlabankanum. Seðlabankinn og efnahagsdeild fjmrn. eru ákveðnir hagstjórnaraðilar sem er mjög mikilvægt að óháð efnahagsstofnun hafi með sjálfstæðri og óháðri spá visst aðhald með, og því er verið að kippa frá með þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Það eru náttúrlega mjög furðulegar staðhæfingar sem koma fram í frv. þar sem stendur að Þjóðhagsstofnun hafi ekki lengur hlutverki að gegna og að hætta væri á að verkaskipting yrði óljós og óhagkvæm að óbreyttu skipulagi. Síðan kemur löng runa um að fjmrn. eigi að sinna alls kyns viðbótarverkefnum, og að þetta og hitt verkefnið verði unnið af hinum og þessum, flytjist inn í ráðuneytin, til einkaaðila o.s.frv. þannig að ef eitthvað er óljóst og óhagkvæmt er það þetta sem á að taka við þegar Þjóðhagsstofnun verður lögð niður. Önnur rök sem má finna í þessu frv. er að margir séu farnir að gera verðbólguspá eins og hæstv. starfandi forsrh. nefndi áðan. Það má vel vera, en hverjir gera grunnspá eins og Þjóðhagsstofnun sem byggir á einkaneyslu, landsframleiðslu og öðrum mikilvægum þáttum hinna ýmsu efnahagsstærða? Staðreyndin er sú að enginn annar en Þjóðhagsstofnun gerir þjóðhagsspá og þjóðhagsáætlun sem er mikilvægt gagn í þinginu. Hagdeildir hinna ýmsu stofnana gera jú verðbólguspá en oft út frá þeim forsendum sem Þjóðhagsstofnun setur fram en ekki sjálfstæða þjóðhagsspá. Maður veltir fyrir sér hvort þetta verði í síðasta skipti sem við fáum slíka þjóðhagsáætlun eins og árlega er lögð fyrir þingið, mjög ítarlega með alls konar upplýsingum og greiningum varðandi efnahagsmál, stöðu þeirra og þróun.

Jafnframt vekur athygli, herra forseti, að Þjóðhagsstofnun byggir verkefni sín og vinnu á ákveðnum lögum um Þjóðhagsstofnun. Þau eru í átta greinum og þar eru talin upp verkefni Þjóðhagsstofnunar þannig að það er lögbundið hvaða verkefni á að gera á sviði hagrannsókna sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að lesa það upp núna en það er furðulegt að hér skuli nægja ein grein um að leggja eigi Þjóðhagsstofnun niður. Það verður sem sagt ekki lögbundið hér eftir að vinna þau verkefni sem eru núna bundin í lögum um Þjóðhagsstofnun, ýmis verkefni á sviði hagrannsókna, hagfræðilegra athugana, skýrslugerða og að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál. Það er lögbundið núna samkvæmt lögum um Þjóðhagsstofnun en það verður ekki eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. Það nægir að skrifa eina setningu um að leggja niður Þjóðhagsstofnun og taka svo úr öðrum lögum þar sem fyrir kemur orðið Þjóðhagsstofnun. Þetta er þinginu boðið upp á, herra forseti, og það er auðvitað alveg ótækt að ekki skuli vera lögbundið hvar og hver eigi að vinna þau mikilvægu og lögbundnu verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur á sinni könnu.

Kjarni málsins er sá að það þarf að vera til sjálfstæð efnahagsstofnun til að veita hagstjórnaraðilum eins og Seðlabanka og fjmrn. aðhald. Það er einfaldlega kjarni þessa máls.

Ég fæ ekki betur skilið en að ráðuneytin eigi líka að þurfa að einhverju leyti að leita með útreikninga sína til fjmrn. í ýmsum þeim verkefnum sem þau eru að vinna að, og ég spyr: Er það nægilega hlutlaus aðili? Er ekki eðlilegra að ráðuneytin, ef svo ber undir, geti leitað með útreikninga sína og annað til óháðrar stofnunar í staðinn fyrir að leita með þau til fjmrn.? Ráðuneytin standa í glímu við fjmrn. á hverju ári vegna fjárlagagerðar til að fá fjármagn til verkefna sinna og nú verða þau háð fjmrn. um að fá upplýsingar um hvað hin og þessi verkefni kosta í staðinn fyrir að geta leitað með það til Þjóðhagsstofnunar, t.d. verkefni á sviði skattamála og almannatrygginga. Þjóðhagsstofnun hefur verið hagdeild margra ráðuneyta og nú á að fara að stofna hagdeildir við öll ráðuneytin, eða hvernig er hugsunin á bak við þetta? Þetta er allt saman mjög ógegnsætt og óljóst.

Herra forseti. Mér finnst mjög sérkennilegt í umræðu um svona mikilvægt mál sem þinginu er gefinn skammur tími til að ræða að starfandi forsrh. sem fylgir þessu máli úr hlaði skuli ekki sýna þeim þingmönnum sem hafa áhuga á að ræða þetta mál þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna. (Utanrrh.: Ég er viðstaddur.) Það er ágætt. Ég vona að hæstv. ráðherra sem ég sá ekki til í hliðarsal hlusti þá á mál mitt. (Utanrrh.: Hvert orð.)

Herra forseti. Það eru engin hagfræðileg rök fyrir að leggja niður stofnunina. Það eina sem þetta gerir er að þrengja mjög að faglegri umfjöllun og sjálfstæði í hagrannsóknum og þjóðhagsspá og ávinningurinn virðist bara vera tilfærslur á útgjöldum og tilflutningur á verkefnum varðandi gerð þjóðhagsreikninga og efnahagsspáa. Sérþekking og reynsla mun glatast og ég spái því að starfsmenn stofnunarinnar verði ekki allir mjög viljugir að láta færa sig á milli stofnana eftir það sem á undan er gengið.

Það er ekki trúverðugt, herra forseti, hvernig sett er fram í frv. hvernig haga á ýmsum hagrannsóknum í mörgum þeirra verkefna sem stofnunin hefur haft með höndum, t.d. verkefni, úttektir og reiknilíkön tengd sjávarútvegs- og stóriðjumálum, almannatrygginga- og skattamálum, sem hvergi er gert ráð fyrir í þessari endurskipulagningu en í frv. er gert ráð fyrir að færa þetta inn í ráðuneytin og setja til Hagstofu eða færa til einkaaðila. Ef ég hefði haft tíma til hefði ég viljað fara yfir sérálit Þórðar Friðjónssonar sem ég hef undir höndum. Hann gagnrýnir þessa málsmeðferð sem hér er lögð til og hann segir varðandi reiknilíkön, með leyfi forseta:

,,Hagkvæmt er við aðstæður hér á landi að hafa eina opinbera greiningar- og þjónustustöð sem getur í senn þjónað Alþingi, stjórnvöldum og almenningi. Þetta stafar m.a. af því að slík stofnun þarf að sjá um og viðhalda mörgum reiknilíkönum og gagnagrunnum eins og Þjóðhagsstofnun gerir nú. Þessi líkön eru flókin og viðamikil og byggja að hluta á upplýsingum og gagnavinnslu sem á varla heima í ráðuneyti. Jafnframt þarf auðvitað sérþekkingu og reynslu til þess að vinna með þau, og þessum málum eru hvorki gerð viðhlítandi skil í frumvarpinu né voru þau rædd að gagni við undirbúning þess.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta álit Þórðar Friðjónssonar þar sem fram kemur að hann telur greinilega alls ekki með fullnægjandi hætti gert ráð fyrir reiknilíkönunum í því frv. sem við ræðum. Hann nefnir sem dæmi um reiknilíkön á vegum stofnunarinnar þjóðhagslíkön, sjávarútvegslíkön, loftslagslíkön og skatta- og almannatryggingalíkön. Þar fyrir utan er stofnunin að sjálfsögðu líka með spár fyrir verðbólgu en þær er víða annars staðar að finna.

Herra forseti. Þetta gengur allt út á það sama. Niðurlagningin mun ekki auka á faglega umfjöllun um efnahagsmál eða þjóðarbúskapinn. Þvert á móti er hætta á að greining á stöðu og efnahagsspá lúti pólitískri forskrift þegar hún fer inn í Seðlabanka, og ég tala nú ekki um efnahagsskrifstofu fjmrn. Þetta býður auðvitað heim miklum ágreiningi um trúverðugleika í spám um þróun efnahagslífsins.

Herra forseti. Ég held að það sé rétt sem kom fram hjá Katrínu Ólafsdóttur, hagfræðingi Þjóðhagsstofnunar og formanni Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar, í Morgunblaðinu í síðustu viku. Verði stofnunin lögð niður verður ekki til sjálfstæð stofnun sem fjallar um efnahagsmál. Hún segir að aðrir möguleikar um endurskipulagningu hafi ekki fengist ræddir. Ég gagnrýni með þessum hagfræðingi að auðvitað er ótækt að búa við það að ekki hafi fengist ræddir aðrir möguleikar á endurskipulagningu. Þjóðhagsstofnun hefur líka haft mikla sérstöðu að því er varðar aðgang þingmanna að upplýsingum um efnahagsmál og það er ekki ásættanlegt að vísa þingmönnum á fjmrn., ekki síst fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma, enda lýtur ráðuneytið pólitískri forustu. Þingmenn og stjórnarandstaða vinna oft með mál sem þau vilja fá útreikninga á og það er ekki boðlegt að ætla þingmönnum það og stjórnarflokkunum að fá útreikninga sína t.d. hjá Seðlabanka eða fjmrn.

Varðandi starfsmennina hef ég undir höndum ítarlegt álit frá starfsmannafélaginu þar sem þau gagnrýna mjög alla málsmeðferð. Ég vil spyrja um það sem fram kemur hjá þeim, sem ég vildi að ég hefði haft tíma til að fara í gegnum hér, að þeim hafi verið lofað því að fá sambærileg störf. Það kom fram þegar málið var rætt í nefndinni sem fjallaði um þetta mál. Í frv. er ekki gert ráð fyrir því. Það er ekki tekið fram að um sambærileg störf sé að ræða og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hverju geta starfsmennirnir átt von á? Mér finnst ríkisstjórnin hafa farið illa með starfsmennina sem hafa búið við óvissu í heilt ár, og fullkomin óvissa ríkir nú um hvað þeirra bíður þegar þessi stofnun verður lögð niður.

Ég vil þá ljúka máli mínu, af því að tími minn er búinn, með því að vitna í það sem fram kom hjá Þórði Friðjónssyni 29. mars fyrir ári en þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta: ,,Fyrir ári, þegar Davíð lýsti því yfir á ársfundi Seðlabankans að hann teldi að það væri rétt að endurskoða verkaskiptingu á milli stofnana, var tekin ákvörðun eftir samtal mitt við Davíð um að þessi mál yrðu skoðuð á yfirvegaðan hátt og í samráði við mig og starfsmenn stofnunarinnar.``

Þetta hefur gjörsamlega brugðist, herra forseti, og þetta loforð sem forustumönnum Þjóðhagsstofnunar og starfsmönnum var gefið hefur ekki gengið eftir. Það ber að harma. Þetta mál er allt illa unnið. Fyrst og fremst mun það leiða til ófaglegrar umfjöllunar um efnahagsmál og hagstjórnina og er margfalt dýrara en að reka Þjóðhagsstofnun eins og hér hefur komið fram.