Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:06:46 (7446)

2002-04-10 14:06:46# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins reyna að svara þeirri spurningu sem hér kom upp. Ég tel að með þeirri skipan sem þarna er gert ráð fyrir muni fjárln. fá frv. til fjárlaga í sínar hendur eins og það er afgreitt frá ríkisstjórn og undirbúið af fjmrn. á grundvelli þeirrar vinnu sem þar fer fram. Síðan getur fjárln. leitað til Seðlabankans um álit á því sem þar stendur og þeim forsendum sem þar eru til staðar. Fjárln. í heild, minni hluti fjárln. eða stjórnmálaflokkar geta jafnframt leitað til annarra stofnana í þjóðfélaginu eins og bankanna sem eru með álit á slíkum málum. Það er líka eðlilegt að leitað sé til aðila vinnumarkaðarins um álit á þeim forsendum sem þarna eru fyrir hendi þannig að möguleikarnir til að kalla fram upplýsingar sem geta verið gagnrýnar á það sem liggur fyrir frá ríkisstjórninni eru mjög miklir og miklu meiri en nokkru sinni fyrr. Ég sé því enga ástæðu, hv. þingmaður, til að óttast um það fyrir hönd t.d. stjórnarandstöðuflokka, hverjir sem þeir eru á hverjum tíma, að ekki verði hægt að sjá vel fyrir þeim málum. Og ég skil þá þörf sem þarna er fyrir hendi. Ég held að enginn geti dregið sjálfstæði Seðlabankans í þessu sambandi í efa. Þjóðhagsstofnun heyrði undir forsrn., og heyrir. Seðlabankinn heyrir ekki undir neinn. Hann er að vísu á ábyrgðarsviði forsrn. eins og málum er skipað í dag en Seðlabankanum er tryggt algjört sjálfstæði með lögum um hann.