Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:08:56 (7447)

2002-04-10 14:08:56# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. starfandi forsrh. fyrir svar við þessari spurningu sem ég bar fram. En ég vil og verð að benda á að við fjárlagagerðina hefur fjárln. gjarnan kallað til þá aðila sem hann nefndi hér, Seðlabanka, stuðst við gögn frá honum, fulltrúa vinnumarkaðarins á stundum, og er gleggst að minnast þess að við síðustu fjárlagagerð virðist, eins og nú er komið í árinu, sem marktækasta spáin hafi verið spá Þjóðhagsstofnunar. Það er eðlilegt að maður haldi í það vegna þess að það var gífurlegur munur á spá Þjóðhagsstofnunar og spá fjmrn. í áætlunargerðinni. Þess vegna hugsar maður málið þannig að þar hafi verið, og maður treystir því, óháð stofnun, og þess vegna kalla ég eftir þessu og hef áhyggjur af að Seðlabankinn sé háður --- þótt hann eigi að vera óháð stofnun --- á einhvern hátt því stjórnvaldi sem hann lýtur. Alveg sama er með peningastofnanirnar. Þær geta verið óhagstæðar stjórnvöldum, maður veit ekkert um það. Kannski er alltaf hægt að efast um að hægt sé að útbúa sjálfstæða og óháða stofnun en reynsla mín þau ár sem ég hef starfað í virðulegri fjárln. er sú að við höfum fengið traustustu og haldbestu ábendingarnar um fjárlög og efnahagsmál frá Þjóðhagsstofnun.