Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 14:14:51 (7450)

2002-04-10 14:14:51# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur allt í einu birst frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun. Satt að segja vorum við hætt að eiga von á því á hv. Alþingi að slíkt mál kæmi fram svo mjög sem liðið er á það þing sem nú stendur. Manni datt ekki lengur í hug að þetta mál kæmi fram.

[14:15]

Hins vegar vissu menn svo sem af því að áhugi var á því að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Sá áhugi virtist á tímabili a.m.k. vera fyrst og fremst hjá hæstv. forsrh. sem lýsti því eftirminnilega yfir að hann teldi að leggja ætti þessa stofnun niður.

En ég minnist þess að þegar hæstv. forsrh. lýsti þessu yfir, héldu framsóknarmenn ró sinni mjög og töldu enga ástæðu til þess að leggja þessa stofnun niður. Þeir sögðu að það hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn og það væri, að því sem mér skildist, allt að því fráleitt að ræða það að leggja þessa stofnun niður eða a.m.k. að framkvæma það þó menn hefðu kannski viljað ræða málið. En þetta, sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann, var einhvern tíma ort. Nú liggur það sem sagt fyrir hæstv. utanrrh. og formanni Framsfl. að mæta sjálfur með þetta mál og mæla fyrir því í sölum hv. Alþingis. Mér finnst það út fyrir sig honum mátulegt að þurfa að gera það sjálfur. En ég er satt að segja ekki ánægður með þetta frv. Ég tel að með því fyrirkomulagi sem menn ætlast til að taki við sé ekki með sama hætti greiður aðgangur að upplýsingum sem eru unnar í umhverfi sem ekki er undir áhrifum af einhverju tagi. Þjóðhagsstofnun var óháð stofnun sem gat, án þess að vera sjálf þátttakandi í málefnum sem um var verið að tefla, metið og skoðað horfur og spáð um framtíðina og látið koma fram hvað hún teldi líklegast.

Hagstofan er eins og allir vita miklu tengdari forsrn. og forsrh. Ég efast um að menn muni taka með sama hætti --- ég efast reyndar ekki um það. Ég er sannfærður um að menn munu ekki taka með sama hætti mark á tölum, spám og yfirlýsingum þaðan og frá Þjóðhagsstofnun. Með allri virðingu fyrir Seðlabankanum, þó svo hann eigi að vera sem sjálfstæðastur og að menn hafi samþykkt lagabreytingar til þess að gera hann sjálfstæðari en hann hefur verið, þá er Seðlabankinn líka gerandi hér í efnahagsmálum. Hann tekur ákvarðanir. Hann gerir spár og hann reynir að taka ákvarðanir sem eru í takt við þessar spár. Á þeim bæ er örugglega tilhneiging til þess að reyna að láta hlutina koma út, eðlilega, í samræmi við það sem þeir hafa spáð á þeim bæ og er svo sem ekkert nema gott um það að segja. En frá honum er að mínu viti ekki endilega að vænta heildaryfirsýnar með sama hætti óháð verkefnum hans eins og frá Þjóðhagsstofnun. Og verkefni sem fara til ASÍ úr þessum ranni verða auðvitað unnin af fullum heilindum þar. En menn geta ekki heldur gleymt því að þar á bæ hafa þeir það helst hlutverka að passa upp á umbjóðendur sína, verja hagsmuni þeirra og reyna að hafa áhrif á þjóðfélagsmálin með öllum sínum gerðum til hagsbóta fyrir þann hóp.

Það sama má segja um hin ýmsu samtök atvinnulífsins að þau hafa líka hagsmuni umbjóðenda sinna að verja. Taka ber upplýsingar, athuganir og spár þessara aðila allra með slíkum fyrirvörum. Ég get því ekki séð annað en að málið standi einfaldlega þannig þegar menn hafa tekið ákvörðun um að leggja Þjóðhagsstofnun niður, að í raun geti engin stofnun eða aðili farið með sama hætti með þessi mál sem hér er um að ræða. Það er miður. Ég tel að menn hefðu þurft að hugsa þessi mál betur og reyna að sjá til þess að einhver aðili væri til staðar í þjóðfélaginu sem menn gætu treyst að væri óháður og mæti þessi málefni sem slíkur. Ég tel líklegt að þingmenn muni ekki fá í hendur spár og umsagnir sem þeir muni geta treyst á sama hátt og þeir hafa talið sig geta treyst því sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara á undanförnum árum, þ.e. eftir að búið er að leggja hana niður. Þó svo að hæstv. ráðherra hafi sagt hér áðan að menn gætu leitað til bankanna t.d. og skoðað spárnar frá þeim þá er auðvitað allt annar hlutur þar á ferðinni og verður til í allt öðruvísi umhverfi. Mér finnst sem sagt að menn hefðu þurft að gefa sér betri tíma til að fara yfir þessi mál. Málið er seint fram komið. Ég tel að það þurfi að leggja fram tillögur um breytingar ef menn ætla sér að leggja niður Þjóðhagsstofnun, sem a.m.k. gæfu möguleika á því að vinna spár á sambærilegan hátt og gert hefur verið hjá Þjóðhagsstofnun.

Ég verð því miður að segja að ég tel að allt þetta mál sé merki um að þarna hafi farið fram kaupskapur milli stjórnarflokkanna. Hæstv. forsrh. var greinilega mjög mikið í mun að ná því fram að þessi stofnun yrði lögð niður og nú er mönnum allt í einu alveg sama hvort skipulagsbreytingar valda sparnaði eða ekki. Nú liggur það bara fyrir í umræðunni og enginn kippir sér upp við það á stjórnarheimilinu að verið sé að gera skipulagsbreytingu til að leggja niður stofnun og það sparist ekki neitt á því, menn muni bara borga meira fyrir það sem þessi stofnun framleiddi og afurðirnar muni ekki vera sambærilegar. Það er mín skoðun. Afurðirnar verða ekki sambærilegar. Það verður ekki hægt að treysta þeim með sama hætti og það hefur ekki verið rökstutt í umræðunni af þeim hv. þingmönnum og ráðherra sem ég hef hlustað á að hægt verði að treysta með sama hætti þeim upplýsingum sem menn hafa aðgang að eftir að búið verður að leggja þessa stofnun niður.

Til hvers er þá verið að standa í þessu ef menn græða ekki neitt, ef menn bara tapa, borga meira fyrir verri upplýsingar? Ég segi bara: Er þá ekki rétt að skoða málið betur? Er ekki ástæða til þess að leggja þessu máli við stjóra fram á næsta vetur a.m.k. og verður þá einhver skaði að því? Það er svo sem hugsanlegt að Þjóðhagsstofnun hafi beðið slíkan hnekki við þessa umræðu að þar á bæ séu menn ekki að vinna með fullum afköstum og með sambærilegum hætti og þeir gerðu áður. Ég hvet hv. þm. sem eiga sæti í efh.- og viðskn. að fara vandlega yfir það hvort stofnunin muni ekki geta unnið eðlilega fram á næsta vetur meðan menn fara betur yfir þessa hluti en hér hefur verið gert og að tekið verði til vandlegrar íhugunar hvort ekki sé rétt að gefa bæði þingi og þeim aðilum sem hlut eiga að máli tækifæri til að vinna meira og betur að þessu. Mér hefur skilist á umræðunni og yfirlýsingum frá bæði fyrrverandi forstöðumanni þessarar stofnunar og starfsmönnum að þeim hafi ekki verið gefin tækifæri til þess að hafa nokkur áhrif á hvernig heimilinu er skipt upp eða hvað ætti að taka við af þeirri starfsemi sem þarna hefur verið rekin. Ekki er það góður vitnisburður um vinnubrögðin, verð ég að segja, eftir allan þennan tíma því hæstv. forsrh. upplýsti að það hefði verið áhugamál hans býsna lengi að leggja þessa stofnun niður. Ekki er það góður vitnisburður um vinnubrögðin að ekki hafi einu sinni verið hægt að vinna þannig að málum að starfsmenn og forstjóri stofnunarinnar fengju tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum, a.m.k. gefin tækifæri til þess að hlýða á það sem menn höfðu til málanna að leggja.

Ég minnist þess þegar stóra yfirlýsingin kom frá hæstv. forsrh. á fundi Seðlabankans þar sem hann sagði frá því að verið væri að vinna að því að leggja þessa stofnun niður. Hann sagði í framhaldi af því að einhver starfshópur væri í málinu og að meira að segja forstjóri Þjóðhagsstofnunar væri í þeim starfshópi. En forstjórinn svaraði því til að hann hefði aldrei verið kallaður þar til starfa og ekki virðist hann hafa verið kallaður mikið meira til starfa eftir reiðilestur forsrh. og ákvörðunina um að leggja stofnunina niður því hann skrifaði bréf sem lesið var við umræðuna í morgun, og ég ætla ekki að þreyta hv. þingmenn á að lesa aftur, þar sem hann rekur hinar ýmsu athugasemdir sínar sem ekki hefur verið hlustað á í umfjöllun um þetta mál.

Mér finnst allt bera að sama brunni, að hér sé á ferðinni ákvörðun sem tekin er í einhverju hugarástandi sem menn ættu helst ekki að vera í þegar þeir taka stórar ákvarðanir. Það er því miður ekki einsdæmi að íslenskir ráðherrar taki slíkar ákvarðanir. Ég minnist þess að núna liggur fyrir frv., sem á að ræða hér á eftir, um stofnun nýrrar stofnunar, Umhverfisstofnunar. Það hefur svo sem verið nefnt áður að slík stofnun gæti orðið til. En umfjöllunin um þetta mál hefur ekki tekið mjög langan tíma og mér a.m.k. dettur í hug að ákveðinn árekstur á milli hæstv. umhvrh. og forstöðumanns einnar af stærstu stofnununum sem þarna á að sameina með öðrum hafi valdið því að hæstv. ráðherra hafi stokkið til á síðustu dögum þingsins til þess að leggja þessar stofnanir saman í eina.

Hæstv. forseti. Ég ætla mér ekki að halda hér einhverja langhunda um þetta mál. Mér fannst hins vegar ástæða til að gera athugasemdir við það hvernig að þessu öllu saman er staðið. Ég viðurkenni að ég er óánægður með að það umhverfi sem á að bjóða hv. þingmönnum upp á í framhaldinu af þessari breytingu verði eins og ég lýsti hér áðan þannig að menn geti ekki treyst þeim upplýsingum sem þeir fá jafn vel og að þær verði ekki til í umhverfi sem gefur tilefni til þess að treysta því að þær verði unnar af óháðum aðilum sem ekki láta nein verkefni eða skyldur sínar hafa áhrif á það hvernig staðið er að því að vinna þessi verkefni. Það óttast ég að muni geta gerst ef Seðlabanki, bankar eða ASÍ eða önnur samtök atvinnulífsins fjalla um þessa hluti. Lái mér hver sem vill. Töluverður munur hefur verið á spádómum þessara aðila þó þeir hafi verið að spá tiltölulega stuttan tíma fram í framtíðina. Ég tel þess vegna ástæðu til þess að halda að ég sé að fara með rétt mál.

Hæstv. forseti. Ég mun auðvitað fylgjast með þessu máli. Ég satt að segja vona að hv. þingmenn í efh.- og viðskn. leggi mikla vinnu í að fara yfir þetta. Ég vil alveg sérstaklega fara fram á að menn fari vandlega yfir og leggi ekki til annað hér í niðurstöðu sinni en tillögur sem miða að því að aðgangur Alþingis og annarra í þjóðfélaginu að þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun hefur miðlað fram að þessu verði áfram til staðar og að menn þurfi ekki að efast um að þar hafi óháðir aðilar um vélað.