Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 15:26:06 (7455)

2002-04-10 15:26:06# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef aðeins fáeinar mínútur í þessari seinni umferð um þetta frv., að hámarki 10 mínútur, en í upphafsorðum mínum í fyrri ræðunni vék ég að aðdragandanum eins og við þekkjum hann öll, hvernig hæstv. forsrh. reiddist Þjóðhagsstofnun sem leyfði sér að hafa uppi aðrar meiningar en hann og ríkisstjórnin um efnahagsmálin og þróun þeirra. Ég vísaði í sögulegan eða öllu heldur sagnfræðilegan samanburð við Nýja-Sjáland þar sem Þjóðhagsstofnun var einnig lögð niður í byrjun 10. áratugarins þegar hún leyfði sér að hafa uppi efasemdir um einkavæðingarstefnu nýsjálensku stjórnarinnar sem þá hafði haldið niðurskurðarsveðjum gagnvart samfélagsþjónustunni á lofti nær allan 9. áratuginn. Þegar þessi stofnun fór að hreyfa sig eitthvað var hún hreinlega slegin af á sama hátt og verið er að gera hér. Þetta er sambærilegt að mörgu leyti.

Andstaðan við þetta mál er margþætt og af ýmsum rótum. Hún hlýtur náttúrlega að vera hin innibyrgða óhamingja hins grátklökkva niðurbeygða manns í stjórnarmeirihlutanum sem er andvígur stofnuninni. Ég hef ekki trú á öðru en að í stjórnarmeirihlutanum séu margir andvígir frv. Það kom fram hjá Framsfl. á sínum tíma. Hann hafði uppi miklar efasemdir og gagnrýni en hefur núna verið settur aftur niður í vasann á Sjálfstfl. eins og í svo mörgum öðrum málum. Þess vegna nær þetta mál fram. Að sjálfsögðu er þessi hópur niðurbeygður og óhamingjusamur þótt hann láti lítið á því bera.

[15:30]

En víkjum þessu til hliðar og förum yfir hin málefnalegu rök í málinu þótt þetta sé vissulega einnig málefnalegt að tala um það hvernig gangverk lýðræðisins er hér nú um stundir.

Það sem menn finna að frv. er að verið er að leggja niður stofnun sem hefur haft einhverja tilburði til sjálfstæðis og þvert á móti hafa brtt. sem fram hafa komið á Alþingi gengið í þá átt að við eigum að efla sjálfstæði stofnunarinnar. Menn hafa haft af því áhyggjur innan þings og utan að erfiðara verði að fá upplýsingar um efnahagsmálin frá sjálfstæðum aðila. Þetta lýtur að Alþingi, bæði einstökum alþingismönnum og þingnefndum sem hér starfa. Ég get tekið sem dæmi úr eigin starfi að undir lok síðasta árs aflaði ég mér upplýsinga um skuldastöðu þjóðarinnar og þróun skuldastöðunnar á síðasta áratug. Ég fór þess á leit við Þjóðhagsstofnun að fá þær upplýsingar í hendur og þetta var unnið mjög samviskusamlega og mjög vel. Það getur vel verið að ég hefði fengið slíkar upplýsingar frá Seðlabanka eða öðrum aðilum en ég tel að upplýsingar af þessu tagi eigi að koma frá stofnun sem heyrir undir Alþingi og út á það hafa tillögur okkar gengið. Þetta er dæmi um upplýsingaöflun fyrir einstakan þingmann.

Við höfum fjallað um það hvernig þingnefndir hafa nýtt sér störf Þjóðhagsstofnunar, t.d. og ekki síst fjárln., en einnig efh.- og viðskn. þingsins, þar sem ég sit og hef af því reynslu. Þar voru uppi mismunandi sjónarmið frá fjmrn. og Þjóðhagsstofnun við afgreiðslu skattalaga sl. haust. Ég er ekki að halda því fram að fjmrn. sé vísvitandi misnotað, ég er ekki að gera það. Og ég er ekki að segja það heldur að ég hafi verið eða sjái fram á að vera alltaf sammála Þjóðhagsstofnun jafnvel þótt hún yrði færð undir þingið. Ég er að tala um mikilvægi þess að efla sjálfstæði stofnana og að upplýsingaveiturnar séu margar, ekki ein heldur margar, ekki ein miðstýrð upplýsingaveita færð undir framkvæmdarvaldið. Og þá eru þær hættur vissulega fyrir hendi þótt ég sé ekki með neinar ásakanir á hendur sérfræðingum fjmrn. í þessari umræðu.

Gagnrýni hefur einnig komið utan úr þjóðfélaginu. Ég hef orðið var við gagnrýni frá hendi aðila á vinnumarkaði. Menn setja þá gagnrýni kannski fyrst og fremst fram núna í spurnarformi vegna þess að þetta er allt saman í véfréttastíl. Talað er um að færa slíka upplýsingaöflun og miðlun til Alþýðusambands Íslands. Ég er því hjartanlega sammála að það er gott að efla hagdeildir samtaka launafólks, mér finnst það mjög æskilegt. Þar á bæ hefur verið rætt um að stofna til sérstakrar efnahagsstofnunar verkalýðshreyfingarinnar allrar, sjálfstæðrar stofnunar sem hafi með hagstærðir að sýsla, og þá er horft til verkalýðshreyfingarinnar allrar. Og ég hef nú grun um að á einhverjum bæjum muni menn vilja fá nánari aðgang að þeirri umræðu, ég hef grun um það. En hér er talað í véfréttastíl þannig að við vitum ekki hvað raunverulega er upp á teningnum.

Síðan hef ég varað við því að við förum út á þá braut að aðgangur verði seldur að upplýsingum og þeirri vinnu sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum, skýrslugerð og upplýsingaöflun fyrir aðila á vinnumarkaði, fyrir þingið og þingnefndir, en sá háttur er nú hafður á hjá hagfræðideild Háskóla Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mun hún heita, og sinnir slíkum verkefnum gegn gjaldi. Þetta er þróunin og viljum við þetta? Viljum við fara að taka aðgangseyri að upplýsingum í þjóðfélaginu um efnahagsmál? Ég held ekki.

Mér finnst við vera að stíga skref aftur á bak en ég segi það líka að ég tel mjög brýnt að efla hagfræðirannsóknir hjá Samtökum atvinnulífsins, mér finnst það vera mjög æskileg þróun. En það er ekki óháður aðili. Að sjálfsögðu ætlast menn til þess að þar starfi fólk sem misnotar ekki upplýsingar heldur fer vel með þær og setur þær fram á málefnalegan og heiðvirðan hátt. Ég er að tala fyrir fjölbreytninni í lýðræðisþjóðfélagi í örri þróun sem býr við yfirþyrmandi framkvæmdarvald. Það er við slíkar aðstæður sem við eigum að efla fjölbreytnina og efla stofnanir á borð við Þjóðhagsstofnun í stað þess að bregða fyrir þær fæti hverju sinni sem þær hafa uppi einhverja tilburði til gagnrýni og hvað þá að þær verði lagðar niður eins og ráð er fyrir gert með Þjóðhagsstofnun.

En hér er kominn hæstv. fjmrh. og verður mjög fróðlegt að hlýða á mál hans því að ég hef bent á að í þeim fréttum sem borist hafa um þessar breytingar er talað mjög í véfréttastíl og við væntum þess að fá ítarlegar upplýsingar af hálfu fjmrh. um málið.

Ég velti því líka fyrir mér hvort hæstv. fjmrh. hafi kynnt sér álit fulltrúa starfsmanna Þjóðhagsstofnunar, sem eru algerlega mótfallnir þeim áformum sem birtast í frv. ríkisstjórnarinnar sem ,,muni ekki leiða til eflingar faglegrar umfjöllunar um íslenskan þjóðarbúskap né til hagræðingar í rannsóknum á efnahagsmálum.`` Á þessa leið er álit þeirra. Og bent er á að þeirri stofnun hafi verið falin ýmis verkefni af ráðuneytum og þingmönnum sem leitað hafi til sérfræðinga stofnunarinnar, ég hef rakið þetta hér í máli mínu, og hvernig starfsmenn hafi reynt að tryggja þessum aðilum greiðan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum.

En síðan segir, með leyfi forseta, og ég er að ljúka máli mínu:

,,Samkvæmt frumvarpinu verður gerð efnahagsspáa og áætlana færð til fjármálaráðuneytis. Spágerðin yrði því undir pólitísku forræði ...`` Pólitísku forræði, þetta eru þung orð, og verður fróðlegt að hlýða á ræðu hæstv. fjmrh. hér á eftir.