Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:05:02 (7464)

2002-04-10 16:05:02# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég hef heyrt meira sannfærandi varnarræðu hjá hæstv. fjmrh. en þá sem hér var flutt og í það heila tekið finnst mér þeir félagarnir, forsvarsmenn málsins af hálfu ríkisstjórnar, hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh., ekki verka sannfærðir þegar þeir eru að mæla fyrir ágæti þessa máls, heldur sé þetta eins og eitthvert skylduverk sem hafi lent á þeirra herðar.

Auðvitað er þetta ekki bara reikningsdæmi, herra forseti, og þar á ofan er nú algerlega ósýnt og meira en það að út úr þessu yrði sparnaður. Þvert á móti verður þetta dýrara í byrjun og það er erfitt að rökstyðja að það verði skilvirkara og ódýrara að taka verkefni sem eiga mjög vel saman í stofnun eins og færsla þjóðhagsreikninganna, gerð þjóðhagsspáa, söfnun grunnupplýsinga og greining þeirra og dreifa þeim á fjóra aðila. Hvernig á að sannfæra mann um að það verði skilvirkara og ódýrara að tvístra þeim verkefnum í fjórar áttir, en það er það sem málið gengur út á, til fjmrn. --- og hæstv. ráðherra er auðvitað ánægður með það að fá eitthvað undir sig --- til Seðlabankans, til Hagstofunnar og til hagdeildar ASÍ?

En best þykja mér rökin, herra forseti, um að þetta sé svo mikilvægt til þess að eyða óvissu. Og það er auðvitað sannarlega að eyða óvissu að taka menn og leggja þá niður. Það er engin óvissa um þá eftir það, það er rétt. En eigum við ekki að ræða við starfsfólk Þjóðhagsstofnunar sem menn eru þá væntanlega að bera hér fyrir brjósti og spyrja það: Hvort vilja menn heldur að óvissunni um þá sé eytt með því að slá þá af eða t.d. með að málin fari í vandaða skoðun í sumar og málin verði svo gerð upp og afgreidd á haustmánuðum, t.d. kláruð í október þannig að stefna megi að lagabreytingum um næstu áramót? Eru það ekki vandaðri og trúverðugri vinnubrögð, herra forseti?