Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:09:14 (7466)

2002-04-10 16:09:14# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Stjórn peningamála, gengis, vaxta, ríkisfjármála er líka vandasamur hlutur og þó að það séu önnur viðfangsefni á öðrum tímum en voru á tímum reddinganna sem hæstv. fjmrh. fer hörðum orðum um en á nú einhverja aðild að, hann og flokkur hans, þá er líka gott að hafa sjálfstæða óháða stofnun sem getur látið álit sitt í ljósi á því hvernig menn eru að beita hinum nýju tækjum, markaðsstýringartækjunum. Það gerði Þjóðhagsstofnun í mars 2000 og 2001 og fékk hótanirnar fyrir að hún yrði lögð niður. Auðvitað eru það ekki rök fyrir því að ekki sé þörf fyrir sjálfstæða stofnun sem safnar saman, greinir og metur þjóðhagsupplýsingar að hér hafi orðið breytingar á hagkerfinu. Það eru bara ekki rök, herra forseti, og það að aðrir aðilar séu að fást við þetta í dag eru heldur ekki fullnægjandi rök.

Að lokum tek ég að vísu undir það að helst er þó hægt að heimfæra það að þessi verkefni að einhverju leyti eða öllu leyti gætu verið hjá Hagstofunni enda mundi ég gera greinarmun á því ef verið væri að sameina Þjóðhagsstofnun og Hagstofuna í eina sterka stofnun eða þessu sem hér er verið að bjóða upp á.