Framhald þingfundar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:05:30 (7471)

2002-04-10 18:05:30# 127. lþ. 117.93 fundur 502#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég átti ekki von á því að það yrði vitnað í fundi sem haldnir voru langt fyrir minni flestra núv. þingmanna, sem hefðu staðið jafnvel í 36 tíma hér á hv. Alþingi, þegar spurt er í einlægni um hve lengi menn ætli að halda áfram starfi hér í dag. Ég tel að það hafi verið staðið nokkuð vel að málum, a.m.k. miðað við þann tíma sem hv. þm. hafa varið til starfa hér undanfarna daga. Það er ekki hægt að bjóða upp á að hér verði næturfundur eftir þennan dag. Ég bið hæstv. forseta að kanna hvort hann telji að það sé upp á það bjóðandi að hér verði næturfundur eftir þennan dag. Ég óska eftir því að menn ræði það vel við formenn þingflokka hvort ekki sé hægt að stjórna málum eitthvað öðruvísi í framhaldinu en þannig að hafa þurfi enn einn næturfundinn.

Mér er alveg sama þótt meiningin sé að hafa fundi í nefndum en það er nauðsynlegt að menn geti mætt á þá fundi og tekið þátt í þeim störfum sem þar fara fram. Það er nú þess vegna sem verið er að gera hlé á fundum þingsins til að nefndir geti starfað. Væntanlega verða ekki haldnir nefndarfundir á meðan þingfundir eru. En það stefnir í það ef hæstv. forseti ætlar sér að stjórna fundum með svipuðum hætti og hann minnist úr bernsku sinni hér á Alþingi.