Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:40:28 (7475)

2002-04-10 18:40:28# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Starfsmennirnir hafa verið í mikilli óvissu frá því að forsrh. sló fram þessari yfirlýsingu í beinni útsendingu fyrir ári. Það sem ég var að leita eftir var hvenær hafin verði samtöl við starfsmennina um starfsöryggi þeirra og hvort þau fái þá sambærileg eða svipuð verkefni og þau hafa haft hingað til. Þau telja það sem stendur í frv. ekki vera í samræmi við það sem við þau var sagt, að þau fengju sambærileg störf, heldur er talað um önnur störf.

Ég var að leita eftir því við hæstv. ráðherra hvort gengið yrði í þessi samtöl meðan við erum að fjalla um málið í þinginu. Ég tel það alls óviðunandi ef starfsmennirnir þurfa að bíða í óvissu í einhverjar vikur enn eftir svörum um starfsöryggi sitt, og sjálfsagt er nauðsynlegt að ræða aðra þætti sem lúta að réttindamálum þeirra við þessa breytingu.

Varðandi Seðlabankann og að hann muni annast alla þjónustu við þingið og þingmenn ber ég það ekki alveg saman við óháða stofnun eins og Þjóðhagsstofnun sem hægt sé að leita til í þessu efni. Seðlabankinn er hagstjórnaraðili sem hefur áhrif á vextina og verðbólguna í vinnu sinni eins og menn þekkja en er ekki óháður greiningaraðili. Hann er því ekki óháður aðili og ekki hægt að leita til hans með sama hætti og þingmenn og þingflokkar hafa getað leitað til Þjóðhagsstofnunar. Auðvitað þarf að skoða hvaða fyrirvari er settur í grg. með frv. þar sem verið er að tala um að hann muni sinna þeirri þjónustu sem um semst hvað sem það svo þýðir.