Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 18:42:42 (7476)

2002-04-10 18:42:42# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel enga ástæðu til að vantreysta Seðlabankanum í þessu efni, og þeim hagfræðingum sem þar vinna. Þeir munu að sjálfsögðu vinna á faglegum grundvelli að málum sem leitað verður til þeirra með. Með ,,eftir því sem um semst`` er gengið út frá því að þeir geti í langflestum tilvikum tekið að sér slík verkefni. Það er þó ekki hægt að útiloka að það gangi ekki upp, með sama hætti og ég býst við að það hafi ekki verið alveg sama með hvað þingmenn hafa þurft að leita til Þjóðhagsstofnunar. Þjóðhagsstofnun hefur ekki getað leyst úr öllum málum. Fyrst og fremst er verið að leggja áherslu á það í þessum orðum að Alþingi og alþingismönnum verði þjónað með nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð í sambandi við mat á hagfræðilegum málefnum. Ég tel mjög þýðingarmikið að svo verði áfram.

Að því er varðar starfsmennina er það hagsmunamál þeirra stofnana og ríkisins að starfsemin geti haldið áfram án teljandi truflana. Þess vegna er mjög mikilvægt að ná samningum við starfsmenn sem allra fyrst. Þarna hefur verið mikil óvissa, það er rétt, og það er nauðsynlegt að eyða henni. Margir starfsmenn hafa þegar sagt upp störfum, m.a. forstjóri stofnunarinnar, þannig að það er allt sem mælir með því að reyna að taka á því sem allra fyrst. Eins og ég sagði eru starfsmönnum boðin önnur störf og leitast verður við að þeir geti sinnt svipuðum verkefnum og þeir hafa gert. Þær stofnanir sem taka við þessum verkefnum þurfa á þeim að halda vegna þess að það þarf að reka þessi módel áfram og alla þá starfsemi sem þarna hefur verið.