Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 19:48:59 (7481)

2002-04-10 19:48:59# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[19:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur farið yfir það hvílík ómynd þetta frv. til laga um Umhverfisstofnun er, frv. sem við reynum að fjalla um á elleftu stundu. Ég tek undir þau orð hv. þm. sem talaði á undan mér að þetta er algjör hryggðarmynd, satt að segja, herra forseti, og ef hæstv. ráðherra er alvara með því að vilja skapa nýja vídd í umhverfismálum held ég að hún hefði átt að vinna heimavinnuna sína betur en hún gerir hér. Það er auðvitað algjörlega til skammar að ætla að bjóða þingmönnum upp á það á þessum nánast síðustu klukkustundum þingsins að taka til umfjöllunar mál sem er jafnilla reifað í greinargerð og raun ber vitni, jafnilla undirbúið úti á akrinum meðal fólksins sem starfar í þessum geira og raun ber vitni og að ætla umhvn. að fjalla um málið án þess að það verði sent út til umsagnar. Það veit hver maður að umsagnir sem okkur í nefndunum berast eru ekki hristar fram úr erminni á tveimur dögum. Það er eðlilegt að nefndasvið gefi þeim sem fjalla um frv. og þung mál a.m.k. tveggja vikna frest til að skila inn umsögnum. Stundum er sá frestur jafnvel lengri eins og hv. þingmönnum er kunnugt.

Er hæstv. umhvrh. alvara með að ætla að kreista málið í gegnum þingið á þessum síðustu dögum án þess að það fari til umsagnar? Hvers lags óvirðing er fólki sem vinnur þarna úti sýnd, fólki sem á störf sín undir þessu frv.? Ef bæta þarf úr einhverju óöryggi meðal þess spyr ég: Hver hefur búið til það óöryggi? Hver bjó til þetta frv.? Hver boðaði nýja vídd í umhverfismálum með þessu frv. og hristi þar með upp í þeim stofnunum sem hér um ræðir? Það var, herra forseti, hæstv. umhvrh. og engin önnur. Ef hæstv. umhvrh. vill lægja einhverjar óróleikaöldur á hún náttúrlega ekki að láta sig dreyma um að þetta frv. fari lengra en hingað.

Ef hæstv. umhvrh. dreymir hins vegar metnaðarfulla drauma fyrir hönd umhverfisins og náttúruverndar á Íslandi á hún að safna að sér fólki sem starfar í þeim geira og tappa af því þeim góðu hugmyndum sem það hefur. Og ég fullyrði, herra forseti, að þær eru nægar. Síðan á hún að efna til samstarfshópa meðal þess fólks sem þar starfar og þess fólks sem hún hefur á að skipa í ráðuneytinu og hún á að sjá til þess að skapað verði metnaðarfullt umhverfi fyrir umhverfis- og náttúruvernd á Íslandi. Þessi hryggðarmynd í líki frv. gerir það ekki.

Hæstv. umhvrh. fer eins rangt að og hugsast getur. Hún fellur í allar tiltækar gryfjur. Þetta er kennslubókardæmi um hvernig ekki á að vinna málum brautargengi, algjört kennslubókardæmi, verður eflaust skráð í þingsögunni sem slíkt og verður frægt að endemum áður en yfir lýkur.

Herra forseti. Eftir að hafa hellt örlítið úr skálum reiði minnar --- ég verð að viðurkenna að ég er reið --- mér finnst móðgandi að leggja fram svona frv. og beita afbrigðum í þinginu til að fá það á dagskrá. Það er ekki búið að liggja hér í tvær nætur og var lagt fram löngu eftir að frestur til að skila inn nýjum þingmálum var runninn út þannig að það er eðlilegt að þingmenn séu móðgaðir, herra forseti, og tali þá í þeim tóni --- hef ég satt að segja nokkrar spurningar sem ég verð að bera upp við hæstv. umhvrh. sem ég treysti síðan að við fáum svör við síðar í umræðunni.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma, sennilega 11. mars, lagði hv. þm. Jóhann Ársælsson fyrir hæstv. umhvrh. spurningu varðandi fyrirhugaðan samdrátt í landvörslu. Því er skemmst frá að segja, herra forseti, að hæstv. umhvrh. fór í pontu og svaraði hv. þm. fullum hálsi. Hún sagði að það samrýmdist alls ekki hugmyndum hennar um náttúruvernd og öflugt starf Náttúruverndar ríkisins að skera niður landvörsluna. Hæstv. umhvrh. þrástagaðist á því í stuttu máli sínu að það væri alveg ljóst að hún mundi aldrei samþykkja að landvarslan yrði skorin niður. Hún sagði raunar að hún vildi heldur auka hana en hitt. Hv. þm. spurði þá hvernig á því stæði að þessar fréttir kæmu upp. Jú, rekstraráætlun Náttúruverndar ríkisins hafði borist hæstv. ráðherra skömmu áður og þar hafði hæstv. ráðherra orðið þess áskynja að uppi hjá stofnuninni væru einhverjar hræðilegar hugmyndir um að skera niður landvörsluna en það gengi algjörlega þvert gegn vilja hennar.

Nú vil ég fá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er svo skelfilegt í rekstraráætlunum Náttúruverndar ríkisins að hún verðskuldi að vera skömmu síðar, sama dag liggur mér við að segja, herra forseti, nánast lögð niður? Hvað er það í rekstraráætlunum, plönum og framtíðarsýn Náttúruverndar ríkisins sem gerir það að verkum að hæstv. umhvrh. nánast kippir fótunum undan starfi stofnunarinnar? Eitthvað gífurlegt hlýtur að vera að þessum rekstraráætlunum. Eru starfsmenn Náttúruverndar ríkisins kannski að fara fram á aukið fjármagn í málaflokkinn? Ja, guð hjálpi okkur. Það væri náttúrlega alveg skelfilegt. Fólk sem búið er að bruðla í flutningunum, leyfir sér meira að segja að kaupa húsgögn, stóla undir rassinn á sér og skrifborð til að sitja við. Herra forseti. Það var líka til skammar hvernig hæstv. umhvrh. talaði niður til Náttúruverndar ríkisins fyrir það að þau skyldu hafa flutt og eytt fjármunum í nýtt innbú á nýjar skrifstofur Náttúruverndar ríkisins.

Mig langar til að fá að vitna í svar hæstv. umhvrh. sem hún lét falla úr þessum stóli þegar hún svaraði hv. þm. Jóhanni Ársælssyni í fyrrgreindum umræðum en þetta sagði hún um flutning stofnunarinnar:

,,Stofnunin flutti nýlega og þeir flutningar kostuðu mun meira en áætlað var. Menn tóku t.d. ákvarðanir um að fjárfesta í húsgögnum sem hlupu á mörgum milljónum. En það er alveg ljóst að stefnumörkun okkar og vilji minn í umhverfismálum miða ekki að því að skerða landvörsluna. Menn verða að finna aðrar leiðir til að hagræða.``

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi munað eftir að biðja um leyfi fyrir þessari tilvitnum. Þetta var sem sagt tilvitnun í svar hæstv. umhvrh. í umræðunum 11. mars hér í þinginu. Ég vildi vitna í þetta svar, herra forseti, til að koma því að að samkvæmt mínum heimildum var talsvert mikil ráðdeild sýnd í flutningi Náttúruverndar ríkisins úr þröngu og nánast óviðunandi húsnæði við Hlemm í nokkuð góðar og bjartar og boðlegar skrifstofur við Skúlagötu. Ég hef þær heimildir, herra forseti, að Framkvæmdasýslu ríkisins hafi bara þótt takast nokkuð vel til. Ég hef meira að segja heyrt að flutningur Náttúruverndar ríkisins sé gjarnan nefndur hjá Framkvæmdasýslunni sem dæmi um fyrirmyndarflutning.

Nú held ég að hæstv. umhvrh. skuldi hv. þingmönnum það að hún leggi fram í þessari umræðu kostnaðaráætlun vegna flutninga Náttúruverndar ríkisins og standi þá þannig fyrir máli sínu að hún sýni okkur hvernig sá flutningur fór úr böndunum fjárhagslega. Ég hef ástæðu til að ætla að hann hafi ekki farið úr böndum. Ef hæstv. umhvrh. hefur hins vegar aðrar upplýsingar þar um legg ég til að hún sýni okkur þær í þessari umræðu.

Herra forseti. Í 2. gr. þessa frv. sem við ræðum er getið um að við stofnunina skuli starfa forstjóri sem skipaður eigi að vera af umhvrh. til fimm ára og hann skuli hafa háskólamenntun. Ekkert er getið um hvernig háskólamenntun. Hann skal hafa þekkingu á verksviði stofnunarinnar, þ.e. náttúruverndar, hollustuverndar, dýraverndar eða þessara málaflokka, og reynslu af stjórnun.

Herra forseti. Með því að setja þennan forstjóra sem virðist einungis eiga að vera skrauthúfa yfir þeim forstjórum sem nú þegar starfa hjá Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins --- ég veit ekki hvort hægt er að kalla veiðimálastjóra forstjóra, ég held að ekki séu nema tveir menn sem starfa undir embætti hans norður á Akureyri, en í öllu falli eru þrír yfirmenn málaflokka sinna í dag --- verða núverandi yfirmenn gengisfelldir með því að setja yfir þá silkihúfu sem er forstjóri með háskólamenntun.

Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvernig í ósköpunum mundi skipulagsbreyting sem ber í sér skrautflúraða silkihúfu yfir þrjá gjaldfallna forstjóra í sér nýja sýn til framtíðar í umhverfismálum eða hvernig auðveldar þessi aðgerð okkur að sækja fram í umhverfismálum? Hvernig auðveldar þessi eini forstjóri, sem settur verður þarna yfir, okkur að sækja fram í umhverfismálum? Það væri ekki verra að fá svör við því, herra forseti, því ekki er gerð tilraun til að mála upp þessa sýn í grg. sem fylgir frv. Ekki veikburða tilraun, og enginn rökstuðningur.

[20:00]

Herra forseti. Stofnanir þær sem setja á undir þessa silkihúfu eru allt öflugar stofnanir hver á sínu sviði. Hollustuverndin er kannski ekki stór stofnun en hún er í eðli sínu mjög viðamikil og sinnir mjög viðamiklu hlutverki. Hæstv. umhvrh. hefur sjálf sagt hér oftar en einu sinni í ræðum að þungt hlutverk hvíli á herðum Hollustuverndar ríkisins þar sem þar er höfð yfirumsjón með þýðingum og framfylgni mikils meiri hluta, að ég held, EES-tilskipananna eða reglugerðanna sem við erum að innleiða.

Ég þekki það af eigin raun, hafandi sem nefndarmaður í umhvn. heimsótt Hollustuvernd, að hún býr við afar slæm skilyrði og svo hefur verið í fjöldamörg ár. Þær eru ekki ófáar ræðurnar sem haldnar hafa verið á Alþingi í tíð þess hæstv. umhvrh. sem nú situr, Sivjar Friðleifsdóttur, og þeirra sem á undan henni hafa setið, þar sem alþingismenn hafa gert athugasemdir við fjármuni þá sem Hollustuvernd verður að láta sér nægja til þess að sinna sínum veigamiklu hlutverkum. Það sama gildir raunar um hina stofnunina, Náttúruvernd ríkisins. Hún hefur að mati þingmanna í gegnum árin sömuleiðis verið fjársvelt.

Herra forseti. Hér eru tvær fjársveltar stofnanir sem hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að sinna lögbundnum hlutverkum sínum með mjög rýra fjármuni. Hæstv. umhvrh. hefur ekki sinnt því neyðarkalli sem komið hefur frá þessum stofnunum um aukna fjármuni. Hún hefur ekki talað máli þeirra við fjárlagavaldið. Hún hefur ekki náð þeim árangri sem hún hefði þurft að ná til þess að hin metnaðarfullu hlutverk gætu náðst. Þá er ég t.d. að tala um náttúruverndaráætlun sem enn hefur alls ekki náð svo langt að hægt sé að segja að það sjái fyrir endann á henni. Jafnvel þó að hæstv. umhvrh. hafi sett einhverjar 10 eða 15 milljónir í náttúruverndaráætlunina þá er það ekkert sem skagar upp í þá upphæð sem upphafleg kostnaðaráætlun náttúruverndaráætlunar gerði ráð fyrir að hún mundi á endanum kosta. Náttúruverndaráætlun sú sem er í smíðum hjá Náttúruvernd ríkisins á því að verða til fyrir örlítið brot af þeim fjármunum sem viðurkennt var í upphafi að mundi kosta að búa til náttúruverndaráætlun á þeim nótum sem lög gera ráð fyrir.

Þess vegna ítreka ég þessa spurningu: Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að það muni auka veg málaflokksins og auðvelda okkur að sækja fram ef tvær fjárvana stofnanir verða sameinaðar undir silkihúfu án þess að til komi nokkrir nýir fjármunir, nokkur ný loforð, að það komi yfir höfuð fram á sjónarsviðið ný framtíðarsýn?

Herra forseti. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að við fáum hæstv. umhvrh. til að svara okkur því hvernig unnið hefur verið að undirbúningi þessa máls. Í athugasemdunum við frv. segir, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hefur verið unnið að því í umhverfisráðuneyti að móta hugmyndir um hvernig mætti sækja fram á sviði umhverfismála með því að einfalda uppbyggingu stofnana ráðuneytisins þannig að reknir yrðu á vegum einnar stofnunar þeir stjórnsýsluþættir umhverfismála sem undir ráðuneytið falla.``

Ég spyr, herra forseti: Hvernig hefur verið unnið að því að móta þessar hugmyndir? Hvenær var hafist handa við að móta þessar hugmyndir? Hverjir hafa tekið þátt í þessum undirbúningi? Og þá ekki hvað síst: Hverjir á sviði þeirra stofnana sem hér um ræðir og hverjir á sviði náttúruverndarsamtaka eða umhverfisverndarsamtaka sem búa við samstarfsyfirlýsingu hæstv. ráðherra, þ.e. hafa þessi félög t.d. fengið að koma að því að móta þessar hugmyndir um það hvernig sækja mætti fram á sviði umhverfismála?

Ef svo er ekki þá lýsi ég bara frati á þær hugmyndir sem við höfum ekki enn þá fengið að sjá, því að hæstv. umhvrh. veit náttúrlega mætavel að hún er skuldbundin samkvæmt yfirlýsingum sínum um að hún vilji lögleiða Árósasamkomulagið til að leita eftir hugmyndum frjálsra félagasamtaka í landinu hvað varðar hugmyndir um að sækja fram á sviði umhverfismála. Ég vil fá að vita, herra forseti, hvort hún hafi gert það og ef svo er ekki þá hvers vegna.

Herra forseti. Síðar í athugasemdunum við lagafrv. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Tímabært og eðlilegt er að endurskipuleggja stofnanaskiptingu ráðuneytisins nú þegar það hefur starfað í rúman áratug. Markmið endurskipulagningarinnar er að styrkja og efla stjórnsýslu umhverfismála með sameiningu stofnana.``

Ég spyr, herra forseti: Hver eru rökin fyrir nákvæmlega þessari setningu og þessu orðavali? Hver eru rökin fyrir því að tímabært sé og eðlilegt að endurskipuleggja stofnanaskiptingu ráðuneytisins þegar ráðuneytið hefur einungis starfað í rétt yfir einn áratug?

Herra forseti. Ég vil í þessu sambandi fá að vitna í svar hæstv. umhvrh. sem hún gaf fréttamanni Ríkisútvarpsins þann 22. mars, sem var dagurinn sem fréttatilkynning ráðuneytisins um Umhverfisstofnun var send út. Þá sagði hæstv. umhvrh. við Hermann Sveinbjörnsson sem hafði þá spurt hana um þessar hugmyndir hennar um að sækja fram og hvort umhverfismálin hafi eitthvað setið á hakanum. Og hæstv. ráðherra svarar, með leyfi forseta:

,,Umhverfismálin eru mjög ný mál. Umhverfisráðuneytið er yngsta ráðuneytið og ég finn að almenningur og stjórnvöld eru að vakna mjög mikið til vitundar um umhverfismálin. Þannig að það er ástæða til að sækja fram um þessar mundir þegar fólk er að átta sig betur og betur á því að það er afar mikilvægt að standa sig vel í umhverfismálunum og þetta hefur átt sér stað um allan heim, þannig að umhverfisráðuneytin eru að verða með öflugustu ráðuneytum í hinum vestræna heimi ...``

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að umhverfismálin væru mjög ný mál og að umhvrn. væri yngsta ráðuneytið. Í því sambandi má spyrja: Er þá ekki hægt að gera einhvers konar stöðumat eftir þennan áratug sem umhvrn. hefur starfað, bjóða fólki þar að borði til að ræða stöðuna og athuga hvernig fólki finnst að betur megi fara í málaflokknum, en ekki að koma með einhvers konar gerræðislegar yfirlýsingar um að nú skuli sem aldrei fyrr taka til hendinni, sameina stofnanir og hagræða? Og hvað þýðir hagræða á mannamáli, herra forseti? Það þýðir að spara. Og ef tvær fjársveltar stofnanir eiga að vera eitthvað betur settar sem ein stór fjársvelt stofnun hvernig á það þá að auðvelda okkur að sækja fram í málaflokknum? Hvað er hæstv. umhvrh. að hugsa?

Já, umhverfismálin eru mjög ný mál, sagði hæstv. umhvrh. í viðtalinu við Hermann Sveinbjörnsson. Herra forseti. Ég gat ekki varist þeirri hugsun þegar ég var að lesa þetta en að það mætti halda að þetta viðtal hafi verið tekið upp úr Stokkhólmsráðstefnunni 1972 eða kannski 1962 þegar Rachel Carson gaf út bókina sína Raddir vorsins þagna.

Herra forseti. Það hefur verið talað á öflugan hátt um umhverfismál í hálfa öld í heiminum. En hæstv. umhvrh. á Íslandi leyfir sér að koma hér í fréttir og segja að umhverfismálin séu mjög ný mál. Herra forseti. Það er ekki hægt að halda sér rólegum yfir þessu. Það er heldur ekki hægt að halda sér alveg rólegum eftir yfirlýsingar hæstv. umhvrh. um Matvælastofnun, sem er ný stofnun. Enginn veit meir. Það á bara að vera voða fínt að stofna Matvælastofnun. Ætli það auðveldi ekki okkur að sækja fram í matvælamálum?

Herra forseti. Það er ekki boðlegt að láta okkur hafa þetta mál hér svo illa undirbúið sem raun ber vitni og með svo skömmum fyrirvara, og ætla svo að segja: ,,Og svo vil ég að þið afgreiðið þetta strax.`` Það er ekki boðlegt fyrir okkur.

Herra forseti. Í lokin á þessari fyrri ræðu minni ítreka ég bara eina af þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra í máli mínu: Hver er, hæstv. umhvrh., hin nýja vídd í umhverfismálunum?