Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 20:09:10 (7482)

2002-04-10 20:09:10# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[20:09]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum frv. til laga um Umhverfisstofnun. Það hefur komið fram, og ég vil taka undir þá gagnrýni, að þetta mál er allt of seint fram komið til að menn geti vonast til þess að það klárist núna á þessu þingi. Ég tel hins vegar að það sé hið besta mál að málið komi fram núna í trausti þess að það fái tækifæri í sumar til að skoðast betur og að hægt verði að gera þá á því þær breytingar sem þarf til þess að það komi að sem allra bestu gagni.

Ég ætla ekki fyrir fram að halda því fram að þessi tillaga sé mjög vond og að ekki megi búa til stofnun af þessu tagi. Ég tel hins vegar að í þessari umræðu þurfi að taka afstöðu til fleiri stofnana en hér er talað um. Ég ætla bara að nefna Landgræðsluna í því sambandi. Mér finnst, þegar hæstv. umhvrh. kemur með frv. af þessu tagi og gengur svo langt að tala um það sem nánast allsherjarendurskoðun á starfsemi af þessu tagi undir umhvrn., að þá hefðu menn líka átt að láta þessa endurskoðun ná til allra þeirra stofnana sem hugsanlega kæmi til mála að rugla reytunum saman hjá. Ég er sannfærður um að þar kemur vel til greina að skoða starfsemi Landgræðslunnar.

Það liggur við að manni detti í hug að einhver ósköp liggi á að ráða nýjan forstjóra, því eitt af aðalatriðunum í frv. er að hann megi ráða sem allra fyrst til þess að hann geti komið að því að móta framtíðarfyrirkomulagið hjá þessari nýju stofnun. Ég tel reyndar að pólitísk leiðsögn þeirra sem bera ábyrgð á málunum skipti þarna mestu máli og að menn eigi að huga að því hver eigi að fá embættin þar á eftir en ekki á undan. Mér finnst því ekki alveg rétt röð á því sem menn eru að gera hér. Mér liggur við að segja að það hafi flögrað aðeins að mér að hæstv. ráðherra hafi hlaupið til þess að klára mál í fljótræði sem hún hafi hugsað sér að gefa sér betri tíma til að vinna. Ég vitna til þess sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi áðan, sem var opinber árekstur hæstv. ráðherra og eins af forstöðumönnum þeirra stofnana sem hér á að sameina.

Mig langar til að byrja á því að fara yfir frv. Í 1. gr. þess stendur í upphafi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Umhverfisstofnun. Stofnunin hefur aðsetur í Reykjavík ...``

Ég vil taka undir það sem hér kom fram að ekki er ástæða til þess að festa það algjörlega í lögum að stofnunin eigi að eiga höfuðaðsetur í Reykjavík. Nú er ég ekki að halda því fram að það geti ekki verið ágætt að hún sé í Reykjavík. En ég held að Reykjavík í augum landsmanna þýði að mörgu leyti miklu frekar höfuðborgarsvæðið. Ég tel ekki einu sinni að um höfuðborgarsvæðið þurfi endilega að vera að ræða, en ég geri ráð fyrir því að langlíklegast sé að stofnuninni sé haganlegast fyrir komið á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf ekki að þýða að það þurfi endilega að vera innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, þótt það geti fyllilega komið til greina að mínu mati.

Hvorki meira né minna en 25 lög gilda um þessar stofnanir sem hæstv. ráðherra er að leggja til að verði að einni stofnun. Því er greinilega verulega víðfeðmt hlutverk hér á ferðinni og ástæða er til þess að vanda vel undirbúninginn að því sem hér er verið að gera.

Mig langar til þess að nefna að í ákvæði til bráðabirgða stendur, með leyfi forseta:

,,1. Starfsmenn stofnana sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Umhverfisstofnun samkvæmt lögum þessum skulu eiga forgangsrétt til starfa þar á fyrsta starfsári stofnunarinnar.``

Mér finnst svolítið sérkennilegt að taka svona til orða. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvað sé eiginlega átt við með þessu. Ég sé ekki betur en að einhvern tíma geti tekið að breyta þessari stofnun. Ef þarna verður ráðinn nýr forstjóri þá er hann orðinn yfirmaður yfirmanna þeirra stofnana sem hér um ræðir. Það tekur einhvern tíma, eins og ég sagði áðan, að endurskipuleggja þessa starfsemi alla. Mér finnst ástæða til að þeir sem starfa hjá þessum stofnunum hafi fortakslaust forgangsrétt að störfum sem verða þarna til og þó að breyta þurfi einhverjum starfsheitum þá sé ekki verið að setja þarna fram, eins og mér finnst nánast, að þegar árið er liðið sé hægt að láta alla fara. Mér finnst þetta nánast vera orðað þannig að svo megi skilja það.

[20:15]

Eins og ég nefndi áðan virðist liggja afskaplega mikið á að ráða þarna forstjóra. Það kemur fram í 3. lið ákvæða til bráðabirgða að forstjórinn skuli skipaður frá 1. ágúst 2002 og skal hann frá þeim tíma taka þátt í starfshópi skipuðum skv. 2. tölul.

Mér finnst þetta sérkennileg röð á hlutunum, eins og ég sagði áðan, og tel ástæðulítið að hafa þetta svona. Ég vonast til að þetta mál fái lengri tíma til vinnslu. Hæstv. ráðherra hefur næg ráð undir sínum rifjum til að láta vinna þetta mál og setja í það hið besta fólk í sumar. Hún getur lagt frv. að nýju inn í þingið næsta vetur og haft málið vel undirbúið þannig að ekki verði að því fundið, þó að menn geti haft pólitískar meiningar um hvernig málið er sett fram, það er náttúrlega bara hið eðlilegasta.

Í upphafi athugasemda með frv., eins og hæstv. umhvrh. las upp áðan, segir, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hefur verið unnið að því í umhverfisráðuneyti að móta hugmyndir um hvernig mætti sækja fram á sviði umhverfismála.``

Og niðurstaðan virðist vera sú að þessi skipulagsbreyting sé einhvers konar flugtak eða hvað á maður að segja, upphafið að nýju skipulagi. Ég ætla ekkert að tala niðrandi um hugmyndir hæstv. ráðherra eða starfsfólks hans um að lyfta á flug hugmyndum um hvernig sækja megi fram í umhverfismálum. En mér finnst að það hefði átt að hugsa þetta mál í víðara samhengi og horfa yfir allar stofnanir og starfsemi undir umhvrn. sem kæmu til greina. Ég vil endurtaka það hér.

Ég vil einnig gagnrýna að um leið og okkur er ætlað að samþykkja að þessi nýja stofnun verði til eigi að færa starfsemi undir hana frá öðrum stofnunum sem ekki er meiningin að verði með í þessari samkundu. Þá er ég að tala um alþjóðasamstarf sem Náttúrufræðistofnun hefur að verulegu leyti séð um fyrir hönd ráðuneytisins. Ég geri auðvitað ekki ráð fyrir að það muni gerast mjög snarlega, að slík starfsemi verði flutt inn í þessa stofnun og sé í sjálfu sér ekki endilega að það sé nauðsynlegt. Ég hvet til þess að menn skoði málið út frá því sjónarmiði að þeir fari ekki að eyða í tvíverknað, þ.e. kostnað sem ekki þarf að fara í. Ég geri ekki ráð fyrir að neitt reki mjög á að sú starfsemi sem þar hefur verið innt af hendi þurfi að fara strax inn í þessa nýju stofnun sem örugglega tekur einhvern tíma að skipuleggja og fá til að virka eins og best verður á kosið þegar þar að kemur.

Ég átta mig ekki alveg á því hvernig sú starfsemi sem nú er úti á landi en á að færast undir þessa stofnun mun koma til með að virka í þessu samstarfi. Þar eru sjálfstæðir yfirmenn stofnana. Þeir eru allt í einu komnir með yfirmann yfir sig. Ég geri ráð fyrir því að einhver vandamál skapist við að skerða sjálfstæði þessara stofnana eða starfsemina sem þar fer fram. Mig langar til að biðja hæstv. umhvrh. að segja frá því sem hún hefur hugsað sér, t.d. í sambandi við veiðistjóraembættið og aðra starfsemi sem þar á að vera til húsa. Sá þarf allt í einu að sækja ráðin til forstjóra hér í Reykjavík, eins og stendur í frv.

Ég held að það væri nú ráð að hæstv. ráðherra gerði okkur svolítið grein fyrir stöðu starfandi yfirmanna í þessum stofnunum og stöðu þeirra eftir að þessi nýja skipan mála tekur við. Þessi nýi forstjóri á að koma til starfa og verkefni hans til að byrja með er einmitt að ákveða hverjir verði valdir sem forstöðumenn og annað starfsfólk þessarar stofnunar. Ég endurtek að ég tel að það hljóti að þurfa að líta til þess að þeir sem hafa starfað hjá þessum stofnunum hafi til þeirra starfa töluverðan forgang.

Ég undrast, og nefni það í sambandi við 3. gr. frv., hversu mikið hæstv. ráðherra liggur allt í einu á úr því að hún kemur með málið svo seint inn. Hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því að hægt verði að koma málum í höfn, eins og segir í frv., fyrir næstu áramót og að hin nýja stofnun á að hefja störf 1. jan. 2003. Vel má það ganga og ég tel að það sé talsverð bjartsýni fólgin í þessu öllu saman.

Ég veit ekki hvort ég á að teygja mikið lopann hér í kvöld við þessa umræðu. Ég tel að í nefndinni þurfi menn að kalla til starfsmenn og fá umsagnir, bæði frá þeim og öðrum sem eiga viðskipti við þessar stofnanir og fleiri sem ástæða er til að ræða þessi mál við. Ég vonast sannarlega til að nefndin taki sér til þess þann tíma sem þarf. En eigi að vinna þetta mál eðlilega þá þarf að senda það út til umsagnar. Menn þurfa að fá skriflegar umsagnir og tækifæri til að ræða við helstu aðila sem þarna eiga hlut að máli.

Ég tók eftir því að hæstv. umhvrh. sagði að það lægi sérstaklega á vegna þess að það þyrfti að eyða óvissu hjá starfsfólki. Hvers vegna er þessi óvissa hjá starfsfólkinu? Hún er einfaldlega komin til vegna þess að hæstv. umhvrh. skellir þessu frv. fram. Ekki nóg með að hún skelli því fram heldur er frv. þannig úr garði gert og yfirlýsingar hæstv. ráðherra þannig að málið eigi að ganga hér í gegn þingið á augabragði. Þar með er auðvitað allt í uppnámi og óvissu í þessum stofnunum þangað til menn vita hvort þetta muni ganga fyrir sig eins og hæstv. ráðherra ætlast til.

Ég held að það væri hið besta mál að hæstv. ráðherra sæi villu síns vegar. Villan er talsverð. Mér þætti eðlilegast að hún lýsti því yfir að hún sætti sig við að málið taki þann tíma sem þarf, að menn fái tækifæri í sumar til að fara yfir þessi mál og hæstv. ráðherra komi með málið inn í þingið næsta vetur. Þá væri þessi óvissa ekki lengur til staðar. Starfsmenn gætu þar með séð fram á að fá tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.

Annað fannst mér líka dálítið skondið í þessu sambandi. Eitt af því sem um hefur verið rætt er kostnaðurinn. Ein af þeim stofnunum sem á að sameina öðrum var fyrir skömmu að flytja í nýtt húsnæði. Hæstv. ráðherra kemur hér með frv. strax eftir að flutningurinn hefur verið gagnrýndur og nýju húsgögnin og segir: Ja, nú þurfum við annað húsnæði. Við þurfum nýtt húsnæði fyrir þetta því að þessi stofnun þarf stærra húsnæði heldur en þetta nýja hús sem ein af stofnununum var að flytja inn í.

Það húsnæði er náttúrlega ekki fundið. Spurningin er auðvitað hvort mönnum tekst að leysa það fyrir næstu áramót. Ég geri ekki ráð fyrir að það standi í kokinu á mönnum að stofna stofnunina á pappírnum áður en hún getur flutt inn í nýtt húsnæði og sameinað starfsemi sína í því.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst ekki til fyrirmyndar að koma með mál til afgreiðslu hér í þingið með þessum hætti. Slíkt veldur því að þingmenn eru síður jákvæðir í garð málanna en ella væri. Þingmenn sem starfa í viðkomandi nefndum sjá fram á að ef hæstv. ráðherra, í þessu tilfelli, fær sitt fram þá geti þeir ekki starfað að málinu með eðlilegum hætti og ekki gert sér góða grein fyrir því hvort skynsamlega sé að tillögunum staðið og hvort framtíðarsýnin í þessum verkefnum er skynsamleg. Mér finnst niðurstaðan satt að segja dapurleg þegar hæstv. umhvrh. fer í heildarendurskoðun á ráðuneyti. Hún rökstyður þetta með því að þó að þetta unga ráðuneyti hafi starfað hér rúman áratug þurfi engu að síður að fara yfir --- sem enginn mótmælir --- stofnanasamsetninguna í ráðuneytinu. Mér finnst dapurlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki gefa sér betri tíma en þetta og mæti til leiks á síðustu dögum þings með frv. sem augljóslega hefði mátt vinna ítarlegar og gera betur úr garði en frv. sem við höfum hér undir höndum. Þetta mun auðvitað valda því að hæstv. ráðherra lendir í vandræðum með að koma málinu gegnum þingið á þessu ári.

Ég verð að segja að ég tel ekki þurfa að beita neinum sérstökum ráðum til að tefja þetta mál, dytti einhverjum í hug að nefna tafir í þessu sambandi. Mál sem ætlað er að fari í gegnum þingið með svo skömmum fyrirvara sem hér er lagt upp með ættu aðeins að vera mál sem allir eru sammála um. Það þyrfti að vera mjög stór og breið samstaða um slík mál. Í þessu tilfelli er ekki búið að tryggja þá samstöðu. Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði nú þurft að huga að því fyrr.