Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 20:29:31 (7483)

2002-04-10 20:29:31# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[20:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er erfitt að gefa vinnubrögðunum í kringum þetta mál, eins og reyndar í kringum fleiri mál þessa dagana, háa einkunn, því miður. Hæstv. ráðherra boðaði þetta frv., ef ég man rétt, í fjölmiðlum fyrir einhverjum vikum. Ja, kannski eru það orðnar vikur síðan. En ekki er langur tími síðan ég heyrði fyrst af þessu og mig rak í rogastans að heyra hvernig að þessu ætti að standa. Þaðan af síður hvarflaði það að manni að ætlunin væri að dengja þessu frv. inn, allt of seint og ætlast til að fá það afgreitt í vor. Ég hef ekki enn heyrt hæstv. ráðherra taka af skarið með það, sem er auðvitað eina vitið, að málið sé lagt fram til kynningar og í mesta lagi fari það til nefndar og verði sent þaðan út til umsagna, þannig að menn geti unnið þetta síðan í sumar í ljósi viðbragða úti í þjóðfélaginu og mætt aftur að hausti til að fara yfir málin.

[20:30]

Eins og þetta ber nú að okkur, herra forseti, þá var þessu máli dreift hér ljósrituðu í gær, gærkvöldi ef ég man rétt. Það þurfti auðvitað afbrigði til þess að koma því á dagskrá í dag, og svo er verið að þrælast á þessu á þriðja kvöldfundinum í röð, herra forseti. Hér hefur verið fundað frá átta á morgnana fram um eða fram yfir miðnætti og nú er komið þriðja kvöldið í röð þar sem þingmönnum er ætlað að taka til umræðu ný og ný stórmál nánast án nokkurs fyrirvara eða möguleika til þess að undirbúa sig. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta og forseti má svara því þegar ég fer úr ræðustólnum: Er ekki meiningin að fara að segja þetta gott í kvöld, herra forseti? Ég held að þetta sé orðinn alveg þokkalegur starfsdagur og þessir sem við höfum lagt að baki hérna undanfarna daga. Það er alla vega alveg á hreinu, herra forseti, að ég mótmæli því að hér standi fundir langt fram á kvöldið eða inn í nóttina þriðja daginn í röð. Það er algjör óhæfa þegar menn eiga svo að mæta hér klukkan átta í fyrramálið á nefndarfundi sem munu standa frá morgni til kvölds næstu fjóra daga. Nú er því nóg að gert.

Herra forseti. Það er algerlega fráleitt að afgreiða þetta mál á þessu vori. Það er gjörsamlega ótæk stjórnsýsla. Ég veit ekki hvaðan hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur komið sú speki að stjórnkerfið og starfsmenn hins opinbera, í opinberum stofnunum og ráðuneytum, séu leir sem þeir hafi rétt til að hnoða bara eins og þeim sýnist í höndum sér. Það er verið að henda málefnum þessara starfsmanna og þessara stofnana, og ekki bara það heldur viðfangsefnunum, til með þessum hætti. Þetta er algerlega fráleit stjórnsýsla, herra forseti. Þetta er engin stjórnfesta, eins og það heitir á góðu máli. Ég fer fram á það að menn láti af þessum ósiðum sem þeir eru að temja sér hér. Það er ekki til fagnaðar að ástunda flas af þessu tagi í sambandi við grundvallarskipulag stjórnsýslunnar í landinu, störf starfsmanna og annað í þeim dúr, svo ekki sé nú minnst á atvinnuréttindi þeirra sem eru iðulega fótum troðin í þessum efnum. Og svo er höfuðið bitið af skömminni þegar ráðherrarnir sjálfir eru búnir að skapa óvissuna með látum af því tagi sem ástunduð eru í málefnum Þjóðhagsstofnunar og þessara stofnana hér. Þá koma þeir og segja við þingið: ,,Það verður að afgreiða þetta í hvelli til þess að eyða óvissu.``

Hverjir sköpuðu óvissuna? Ráðherrarnir og ríkisstjórnin sem heldur að það sé einkamál hennar og geðþóttamál hennar að henda þessum hlutum svona til. Það er ekki þannig. Það eru lög í landinu sem marka rammann um stjórnsýsluna og það á að vanda til verka ef menn ætla að breyta þeim lögum og það er Alþingi sem á að halda utan um þá vinnu. Það á að gerast með ítarlegri og vandaðri endurskoðun laganna á Alþingi en ekki með þeim hætti að mönnum sé stillt upp frammi fyrir því sem virðist vera gerður hlutur og ætlaðir nokkrir sólarhringar til að afgreiða þetta yfir færibandið. Þannig ber þetta að okkur, herra forseti.

Og hverju er verið að breyta hérna? Lögum sem er nýbúið að setja og sem þingnefndir Alþingis, umhvn. hefur legið yfir heila vetur núna undanfarna vetur. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég tel það stórlega ámælisvert --- og það er ágætt að embættismenn umhvrn. eru hérna nærstaddir --- að setja hlutina fram eins og gert er í greinargerð með frv., því að það læðist að mér sá grunur að hæstv. umhvrh. hafi ekki samið þetta allt sjálf þó að hún beri auðvitað pólitíska ábyrgð á því. Það kann a.m.k. að vera að þeir hafi prófarkalesið það, embættismennirnir í ráðuneytinu hjá henni.

Því er haldið fram hér, herra forseti, á bls. 3 í greinargerðinni að:

,,Stofnanaskipting ráðuneytisins byggist að verulegu leyti á gömlum grunni frá því áður en umhverfisráðuneytið var stofnað en fram að stofnun þess heyrðu þessar stofnanir undir mismunandi ráðuneyti. Tímabært og eðlilegt er að endurskipuleggja stofnanaskiptingu ráðuneytisins nú þegar það hefur starfað í rúman áratug.``

En hver er svo staðan, herra forseti? Elstu lögin sem við erum hér að starfa eftir eru væntanlega lögin um Hollustuvernd ríkisins frá 1998, a.m.k. sem svona heildarlög. Lögin um Náttúruvernd ríkisins sem og sú stofnun eru enn yngri. Það eru lög nr. 44/1999. Náttúruvernd ríkisins er glæný stofnun. Hún varð til þegar Náttúruverndarráð og verndarhlutverkið var aðskilið. Þar á ofan er stofnunin nýflutt í glæsilegt húsnæði. Veiðistjóraembættið er nýkomið norður á Akureyri, fyrir fáeinum árum, og starfar eftir nokkurra ára gömlum lögum. Þau kunna að vísu að vera frá því á fyrri hluta tíunda áratugarins þannig að ekki er rétt að lögin um Hollustuverndina séu elst. Það eru hins vegar lögin um veiðistjóraembættið og hreindýraráð, sem eru bæði frá því um miðjan tíunda áratuginn. Öll lögin sem gilda um þessa starfsemi eru því nokkrum árum yngri en umhvrn. Samt segja höfundar greinargerðarinnar að þetta sé allt saman arfur frá því fyrir daga ráðuneytisins. Það er a.m.k. gefið í skyn með þessum texta. Herra forseti. Þetta er ósköp einfaldlega ekki fagleg framsetning mála.

Það er þannig að í raun er það kannski Hollustuverndin ein sem er rekin með tiltölulega svipuðu sniði í dag og hún var þegar umhvrn. var stofnað. Náttúruvernd ríkisins er ný stofnun, starfar samkvæmt glænýjum lögum og er í nýju húsnæði með að verulegu leyti nýjum starfsmönnum. Veiðstjóraembættið er nýkomið norður á Akureyri og hreindýraráð hefur verið eflt með starfsmanni á Austurlandi og hefur nýlega gengið í gegnum mikla endurskipulagningu.

Hvað á þetta að þýða, herra forseti? Menn skulu bara koma með þau rök sem raunverulega eru hér að baki en ekki smíða sér timburkastala af þessum toga. Þau verða ekki sótt í það að hér sé um svo gamalt skipulag að ræða að ástæða sé til að ætla að allir, og þar með talið Alþingi, sjái ástæðu til að breyta því. Alþingi er nýbúið að endurskoða þessi lög og festa þessar stofnanir niður með sín hlutverk á grundvelli nýrra laga. Ég blæs því á þessar röksemdir. Þær eru út í loftið. Umhvn. þingsins og Alþingi lágu yfir þessum málum og eyddi, ef ég man rétt, t.d. í náttúruverndarlögin og það skipulag allt gríðarlegum tíma. Þetta eru því óframbærilegar röksemdir, herra forseti. Eitthvað annað liggur þarna á bak við.

Herra forseti. Svo leyfi ég mér að hreyfa efnislegum efasemdum um að þetta sé skynsamlegt. Er þetta til bóta? Hvað á veiðistjóraembættið norður á Akureyri sem hefur með höndum mjög afmarkað og sérstakt verkefni, þ.e. að fylgjast með hinum villtu dýrategundum, veiðum á þeim o.s.frv., skylt við starfsemi Hollustuverndarinnar í Reykjavík? Er veiðistjóranum norður á Akureyri betur borgið sem útibúi, svo lengi sem hann fær þá að vera fyrir norðan, en sem sjálfstæðri lítilli stofnun í góðu sambýli við aðrar norður á Akureyri? Ég segi nei. Útibúakontórastefnan hefur ekki gefist vel. Það vill þorna upp og það vill renna undir höfuðbólin sem er reynt að gera í formi verkefna og valddreifingar úti á land þannig. Ég segi því fyrir mitt leyti, a.m.k. hvað veiðistjóraembættið snertir og sama gildir um hreindýraráð sem mín vegna mætti vera í heild sinni stofnun á Austurlandi, að ég hef grundvallarefasemdir um að því sé endilega betur fyrir komið í einu miðstýrðu bákni í Reykjavík. Ég hef það, herra forseti.

Síðan er ég ekkert viss um að þessi verkefni, annars vegar Náttúruverndarinnar og hins vegar Hollustuverndarinnar, eigi að öllu leyti vel saman. Það er bara ekkert rökstutt í frv. Ekki er gerð tilraun til þess að sannfæra okkur um það. Settir eru í textann hins vegar brandarar eða aulafyndni af því tagi sem er í annarri línu greinargerðarinnar, þ.e. að þetta sé liður í því ,,að móta hugmyndir um hvernig mætti sækja fram á sviði umhverfismála``. Já, nú á að sækja fram á sviði umhverfismála. Með því að vernda miðhálendið? Nei, nei, nei. Það á að sökkva því. En það á að breyta stofnunum, ha! Það á að sækja fram á sviði umhverfismála í forminu, rútta til stofnunum og svona. Það er mikil umhverfisvernd. En svo malbikum við yfir og sökkvum miðhálendinu. Það er allt annað mál. En þegar stofnanirnar eru endurskipulagðar, þá eru menn nú heldur betur að sækja fram í þágu umhverfismála. Það er bragur á þessu, herra forseti.

Nei, það læðist að manni sá grunur --- og ég er greinilega ekki sá eini sem hef fengið þá tilfinningu --- að hér liggi fiskur undir steini, herra forseti, eins og er viðeigandi að segja í þessu tilviki --- það er verst að Veiðimálastofnun skuli ekki vera með í þessu líka því að þá ætti það enn betur við. --- að það sé eitthvað annað sem liggi svona á en þetta. Þá vekur auðvitað alveg sérstaka athygli þetta merkilega bráðabirgðaákvæði um að það eigi að ráða forstjórann strax, helst í gær. Og hann á að vera í starfi næstum í hálft ár áður en stofnunin verður til, bara svona til að undirbúa sig, máta föt, naga blýanta og svona pússa sig við embættið, ha!

Bíddu, hvað er að gerast hér? Er kannski megintilgangur þessa máls að búa til embætti? Þarf Framsókn að hrókera svolítið hjá sér? Eru einhver innanbúðarmál sem þarf að leysa þannig að það þurfi að drífa upp mátulega vigtað forstjóraembætti 1. ágúst nk., svona vel fyrir þing næsta haust? Ja, spyr sá sem ekki veit. Alla vega er þetta afar óvenjuleg tilhögun, herra forseti, og vekur sérstaka athygli að Alþingi er ætlað að samþykkja að ráðinn verði forstjóri að stofnun sem á þó ekki að verða til fyrr en um næstu áramót, strax að afliðnu sumri. Þarna er, herra forseti, ákaflega sérkennilega að verki staðið.

Það vekur líka athygli hvernig búið er um menntunarkröfur eða hinar faglegu kröfur sem gera á til þessa forstjóra. Þar er talað um að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar, ekki menntun á verksviði stofnunarinnar, nei, þekkingu á verksviði stofnunarinnar og reynslu af stjórnun.

Herra forseti. Venjan er nú sú að skilgreina annaðhvort faglegar menntunarkröfur eða sleppa því í svona tilvikum. Við ræddum hér fyrir nokkru síðan mjög þröngar faglegar menntunarkröfur sem átti að gera til embættismanns. Hann átti að vera landgræðslusérfræðingur eða eitthvað svoleiðis. Það var svo nákvæmlega afmarkað. Ég spurði einmitt hvort ekki mætti nú víkka þetta út í búvísinda- og náttúrufræðimenntun á háskólastigi. Nei, hann átti að vera sko bara alveg nákvæmlega landgræðslufræðingur. En hér þarf ekkert slíkt.

Ég verð nú að segja fyrir hönd minnar stéttar og kollega að ég hefði viljað sjá að þarna væri einhver skírskotun til náttúruvísinda og umhverfisfræða ef menn eru að skilgreina einhverjar faglegar menntunarkröfur á annað borð. En kannski má það ekki af því að það henti ekki manninum sem búið er að ákveða að fari í djobbið. Hefur hann þá menntun sem ekki mundi falla inn í slíka faglega skilgreiningu þannig að það verði að hafa þetta opnara? En hann hefur háskólapróf. Það vitum við. Það verður fróðlegt að sjá hvað út úr þessu kemur, herra forseti.

Allt er þetta afar sérkennilegt og ég leyfi mér að spyrja: Ætlar þingið að láta þetta svona frá sér fara? Ég spyr hæstv. ráðherra að þessu: Af hverju er þetta orðað nákvæmlega svona?

Í öðru lagi spyr ég: Hvaða breytingar yrðu á lögunum um verndun Laxár og Mývatns, af því að þau eru nefnd hér undir liðnum um starfsemi Náttúruverndar ríkisins? Hvað með rannsóknarstöðina við Mývatn? Eru menn með hana þarna í huga að einhverju leyti eða hvaða aðrar breytingar yrðu þarna á?

Herra forseti. Ákvæðin um starfsmenn í bráðabirgðaákvæðinu eru mjög sérkennileg. Ég þykist nú hafa fylgst sæmilega með öllu bröltinu hjá einkavæðingarliðinu undanfarin ár þegar menn hafa verið að einkavæða fyrirtæki og aftur og aftur brotið rétt á starfsmönnum, verið dæmdir vegna þess að þeir hafa ekki virt biðlaunarétt, forgangsrétt til starfa o.s.frv. Af hverju er þetta orðað svona, þ.e. ,,... skulu eiga forgangsrétt til starfa þar á fyrsta starfsári stofnunarinnar.``? Af hverju er ekki starfsmönnunum tryggður réttur? Af hverju eru þeim bara ekki tryggð sambærileg störf og þeir hafa með höndum í dag í hinni nýju stofnun? Hver er ástæðan fyrir því, herra forseti, að það er ekki gert? Það er þó að verða nokkurn veginn venjan að það er ósköp einfaldlega sagt að við breytingar af þessu tagi sem ekki er ætlunin að hafi áhrif á eða raski starfi stofnananna, að starfsmönnum verði tryggð festa í starfi og að þeir skuli fá sambærileg störf í hinni nýju stofnun og þeir hafa með höndum í eldra fyrirkomulagi. Það er ekki gert hér, heldur er mjög sérkennilega um þetta búið og þar á ofan er sagt að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1976, laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, gildi ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið. Samt eru starfsmönnunum ekki tryggð sambærileg störf samkvæmt orðanna hljóðan. Því spyr ég: Af hverju er þá 7. gr. tekin úr sambandi? Er þá ekki verið að brjóta rétt á mönnum? Ég mundi ætla það. Ég held að yfir þetta þurfi að fara lögfræðilega mjög vandlega því að ríkisvaldið og Alþingi reyndar líka er búið að verða sér nógu oft til skammar með því að hafa kastað til höndunum hvað varðar réttindamál starfsmanna og lögvarinn rétt þeirra og tapað slíkum málum aftur og aftur fyrir dómstólum. Það er ekki til eftirbreytni og menn ættu að reyna að venja sig af slíku.

[20:45]

Herra forseti. Ég veit svo sem ekki hvað á að segja mikið meira um þetta nema að hnykkja á því sem ég áður sagði, að það er alveg ljóst að þessi stofnun á að hafa aðsetur í Reykjavík. Að sjálfsögðu kemst ekkert annað að hjá hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna óttast maður, þegar til stendur að slá þessu saman í eina stóra miðstýrða stofnun, að þetta verði afturför en ekki framför í því tilliti að dreifa verkefnum út um landið. Mjög stór hluti af þessum verkefnum fellur til á landsbyggðinni. Það gerir auðvitað náttúruverndin, landvarslan og eftirlitið af því tagi. Í raun og veru er þetta stofnun sem færi prýðilega á að væri beinlínis staðsett úti á landi. Væri ekki glæsilegt að Umhverfisstofnunin, eða þessar stofnanir, væri t.d. sett upp á Akureyri, Hólum, Hvanneyri, Egilsstöðum, eða verkefnum þeirra dreift til að styðja þá uppbyggingu sem þar á sér stað, við landbúnaðarháskólana, skógræktargeirann á Héraði eða Háskólann á Akureyri? Engin slík hugsun er hér í gangi, engin, heldur lyktar þetta auðvitað allt af miðstýringu. Maður óttast að frekar muni draga úr og fjara undan þeim vísum að starfsemi sem í þessum geira hafa verið settir upp úti á landi. Og menn hafa lengi kvartað undan því að of lítið af verkefnum sem þessu tengjast féllu til á landsbyggðinni sjálfri þar sem þó er verið að sinna hlutunum. Ég hlýt að gagnrýna þetta, herra forseti.

Síðan vil ég segja að ég átta mig ekki alveg á hvort hæstv. umhvrh. heldur að með þessari Umhverfisstofnun, ef hún kemst á laggirnar, muni hún reisa sér minnisvarða, þetta verði bautasteinn undir lokin á glæstum ferli hæstv. ráðherra. Reyndar má deila um hversu glæstur hann hefur verið að þessu leyti. Ég held að þessi aðgerð dugi ekki til. Ég held að eitthvert brölt í þessum stofnunum muni ekki, þegar tímar líða, verða talið til tímamóta eða sérstaklega framsækinnar stefnu í umhverfismálum. Skipulagið og formið hefur ekki staðið mönnum fyrir þrifum í þessum efnum. Það sem hefur háð þessum stofnunum er að illa hefur verið að þeim búið. Þær hafa verið í fjársvelti, eins og við vorum rækilega minnt á hér þegar Náttúruvernd ríkisins var í þrengingum sínum að reyna að sjá hvernig hún gæti lifað árið af, m.a. með því að skera niður landvörslu. Þá rauk hæstv. ráðherra upp í bakið á stofnuninni í staðinn fyrir að auðvitað hefði hæstv. ráðherra átt að standa í stykkinu og reyna að tryggja þessum stofnunum sæmileg starfsskilyrði. Það færist ekki teknamegin á reikning hæstv. ráðherra að ætla svo að fara að rútta þessum stofnunum til sem miklu nær hefði verið að búa almennilega að og skapa viðunandi starfsskilyrði.

Herra forseti. Ferill hæstv. ráðherra byrjaði ekki allt of vel þegar hún missti það út úr sér að henni þætti ekki mikið til Eyjabakka koma. Ekki tók betra við þegar ráðherra sneri úrskurði Skipulagsstofnunar við með pólitísku valdi í einu stærsta máli á sviði umhverfismála sem hér hefur um áratuga skeið verið uppi. Og ekki, herra forseti, held ég að það muni auka á frægð hæstv. umhvrh. að hafa lagt Náttúruverndarráð niður með þeim hætti sem ráðherra gerði í kjölfar þess að hafa lent í deilum við það. Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það. Hæstv. forsrh. hefur auðvitað gefið tóninn, stofnanir með óþægð eru lagðar niður. Þau urðu örlög Náttúruverndarráðs og nú á það sama að bíða Þjóðhagsstofnunar, eins og kunnugt er, og guð má vita hvað er bak við þetta stofnanabrölt hjá hæstv. umhvrh. Eitt er víst og það er, herra forseti, að það er algerlega ótækt að hroða þessu svona í gegnum þingið. Það eru vinnubrögð sem við getum ekki látið bjóða okkur í hverju málinu á fætur öðru.