Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:32:44 (7488)

2002-04-10 21:32:44# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er búið að stórauka fé til Náttúruverndar ríkisins, um 100% á nokkrum árum. Allt annað tal er rangt.

Varðandi þá framtíðarsýn sem ég sé vegna þessa máls --- ég get endurtekið það þó ég efist um að þingmaðurinn vilji taka það til greina miðað við hvernig hér er talað, þá tel ég að með þessari aðgerð sé verið að gera stjórnsýsluna einfaldari, skilvirkari og faglegri. Ég sé öll rök mæla með þessu. Ég tel líka að mengunarvarnamál, náttúruverndarmál og dýraverndarmál séu að tengjast meir og meir, samþættast meira en verið hefur og ég held að það sjái allir. Það er því eðlilegt að sameina þessar stofnanir í eina öfluga og það sér fjöldi manns, m.a. forstjórar í þeim stofnunum. Þeir sem starfa í þessum málum sjá tækifæri í þessu. Af hverju sjá þeir tækifærin? Ég held að það sé rétt hjá þeim og ég deili því með þeim að mikil tækifæri eru í slíkri aðgerð fyrir umhverfismálin í landinu, þ.e. ein og öflugri stofnun en þær sem við höfum núna. Með því er ekki verið að segja að starfsfólkið standi sig ekki í þeim stofnunum, alls ekki. Ég átta mig ekki á því hvernig hv. þm. getur verið að saka mig um það. Ég vil einmitt fá það starfsfólk sem er sérhæft á sínu sviði og þekkir málaflokkana sína mjög vel, ég vil fá þetta fólk til að starfa saman í öflugri stofnun þannig að það geti aðstoðað hvert annað þvert á þá geira sem það vinnur í núna í einni, nýrri Umhverfisstofnun.