Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:35:58 (7490)

2002-04-10 21:35:58# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:35]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta hafi verið bráðsnjallt sem hv. þm. sagði í lokin, að eðlilegt væri að gera þetta hratt frekar en mjög hægt. Það er skoðun mín. Það er miklu betra að fara í svona mál af festu heldur en ekki. Það er vont fyrir starfsfólkið að búa við óvissu. En maður býr alltaf við óvissu þegar farið er í gegnum slíkar breytingar og það er mannlegt að verða hræddur við þær. Þess vegna finnst mér afar jákvætt hvað þó hefur verið tekið vel á móti þessu máli.

Hér hefur hv. þm. talað um náttúruverndaráætlun. Við erum ekkert að ræða neinar sundurliðanir og ég er ekki með neinar tölur um það, einhverjar sundurliðanir á verkefnum innan Náttúruverndar ríkisins. Ég er ekki með það. En við getum farið í þá umræðu þegar það passar betur.

En varðandi fjármagnið sem fer til Náttúruverndarinnar af því að hér sakaði hv. þm. mig um að hafa ekki reynt að stuðla að auknum fjárveitingum til þessara stofnana, það er bara alrangt. Þær stofnanir hafa fengið hækkanir, önnur 50% hækkun og hin 100% hækkun frá 1999--2002.