Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:39:15 (7492)

2002-04-10 21:39:15# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingið geti klárað málið á þeim tíma sem eftir er. Ég tel málið ekki vera það flókið að menn geti það ekki. Þetta er ekki tæknilega flókið, þetta er mjög einfalt. Þetta er spurning um hvort menn deili slíkri sýn eða ekki. Ég veit að það er pólitískt afl hér inni sem er algerlega á móti þessu og við því er ekkert að gera. Menn eru ekkert sammála um þetta. En ég skal ekki segja um Samfylkinguna. Mér finnst það kannski aðeins óljósara hvaða skilaboð hún er að gefa af því að hún talar ekki afar skýrt í þessu máli, vill fá meiri tíma til að sjá málið, fresta því til að átta sig betur á því, en kannski er málið samt gott o.s.frv. En ég tel að menn geti klárað þetta á þessum tíma og ég tel æskilegt að menn geri það.

Ég hef mjög mikla sannfæringu fyrir því að rétt sé að taka þetta skref og þess vegna tel ég æskilegt að það sé klárað á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu, ég tel að hann nægi. Auðvitað verður umhvn. að kalla til sín fólk og vinna eftir því sem hún telur eðlilegt. Ég tel að það sé hægt.

Varðandi Landgræðsluna, þá vorum við að skoða þær stofnanir og þá málaflokka sem heyra undir umhvrn. Við litum ekki til Landgræðslunnar, við litum ekki til Skógræktarinnar, við litum ekki til atriða sem stundum hafa verið í umræðunni í sambandi við umhvrn., hvers vegna hitt og þetta heyri ekki undir umhvrn, við gerðum það ekki. Ég tel að uppstokkun ráðuneyta og stærri málaflokka geti verið það flókin að auðveldara sé að gera það í kringum t.d. ríkisstjórnarskipti. Við tókum það því ekki inn í þessari endurskoðun okkar. Við tókum einungis þær stofnanir sem heyra undir okkur og vinna á hinu hefðbundna unhverfissviði.