Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:49:40 (7499)

2002-04-10 21:49:40# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við höfum rætt málin hér síðan klukkan tvö í dag, fyrst um Þjóðhagsstofnun, núna um Umhverfisstofnun og síðan eigum við eftir að ræða nýja stofnun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. (Gripið fram í.) Ja, mér var tjáð, hv. þm., af forseta þingsins að þannig mundi þessi umræða verða. Mig langar til að taka aðeins annan vinkil á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag.

Um hvað höfum við í raun verið að ræða? Atvinnumál í Reykjavík í víðum skilningi þess orðs. Við vorum að ræða um starfsemi Þjóðhagsstofnunar og þingmenn hafa rætt hana vítt og breitt í dag. Að mörgu leyti get ég tekið undir áhyggjur manna yfir því að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Ég tel að það sé misráðið og að réttara hefði verið að skoða þann málatilbúnað sem Vinstri grænir lögðu til í því efni, þ.e. að fara í rólegheitum yfir það mál. En hvað um það. Í þeirri umræðu er eingöngu verið að tala um að færa til störf eins og segir í greinargerð með því máli.

,,Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til skyldra sviða í fjármálaráðuneyti og Hagstofu Íslands og styrkja þau, ...``

Svo á að færa einhverjum öðrum störfin. Verið er að tala um að tryggja áfram störf í Reykjavík. Allt er gott um það að segja.

Nú er verið að ræða um Umhverfisstofnun. Ekki veit ég hvað menn eru að tala um mörg störf þar en alla vega er stór hluti af þeim störfum einnig í Reykjavík.

Næsta mál á dagskrá er ábyrgð sem ríkið ætlar sér að veita við stofnun nýs fyrirtækis sem á að skapa 250--300 störf. Ég held að þetta sé einhver lengsti atvinnumálafundur sem ég hef setið, alla vega um störf í Reykjavík. Verið er að ræða vítt og breitt um hin ýmsu svið en í raun snúast málin öll um það að hafa skipulag á störfum sem að langstærstum hluta eru unnin á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Miðað við stefnumótunina í þessum þremur málum þá verður svo áfram. Ég get t.d. ekki séð að í því máli sem við ræðum núna, þ.e. Umhverfisstofnun, sé nein sérstök stefnumörkun hjá hæstv. umhvrh. um að færa störf út á land. Það kom heldur ekki fram í umræðunni þegar við vorum að ræða um Þjóðhagsstofnun að til stæði að færa eitthvað af þeim störfum út á land. Eru þau störf þó talin upp á bls. 3. Störf Þjóðhagsstofnunar sem hugsanlegt er að halda áfram að vinna í Reykjavík eru, með leyfi forseta, að:

,,1. Færa þjóðhagsreikninga.

2. Semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Semja og birta opinberlega yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum.

4. Annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir ...``

Við bætist að vinna fyrir Alþingi og aðila vinnumarkaðarins. Vafalaust mætti vinna stóran hluta af þessum störfum úti á landi. En ekki er talað um það. Síðan eigum við að ræða næst á dagskránni mál um að að stofna til 250--300 nýrra starfa í Vesturbænum með sértækum aðgerðum ríkisins. Það er hin nýja Vesturbæjaraðstoð. Þetta er í raun það sem við höfum rætt í allan dag, þ.e. atvinnumál í Reykjavík, og hvernig þeim verði fyrir komið.

Ef við hefðum verið að ræða þetta undir þeim formerkjum að setja þessi störf út á land þá hefði vafalaust spunnist mikil umræða um hvernig það mætti vera að það ætti að fara að setja alla þá fjármuni sem hér er verið að tala um út á landsbyggðina. Það má ekki. Atvinnumál á landsbyggðinni mega halda áfram að þróast á þann hátt að þar fækki störfum og þar verði tilflutningur.

Ég vildi koma inn í þessa umræðu og draga þetta saman um þau þrjú mál sem við höfum aðallega verið að ræða í dag, þ.e. um Þjóðhagsstofnun, Umhverfisstofnun núna, og síðan málið sem við eigum eftir að ræða, um ábyrgð ríkisins í sértækum aðgerðum til þess að stofna til nýrra starfa í Reykjavík eða á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Oft þegar við ræðum atvinnumál og þau snúa að landsbyggðinni þá þykir það voðalega neikvætt. Ég man eftir umræðum um það þegar veitt var svokölluð Vestfjarðaaðstoð fyrir nokkrum árum. Þó margt mætti um hana segja og sumt í henni væri mjög misráðið, þá þótti það afar neikvætt. En það þykir aldrei neitt neikvætt að ræða fjármuni sem er ráðstafað til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Út af fyrir sig er ég ekkert að mótmæla því að störf skuli unnin á höfuðborgarsvæðinu. En ég sakna þess í svona víðtækri umræðu um störf og starfstilflutning og nýjar stofnanir þar sem kannski er um að tefla 400--500 manna vinnustaði þegar allt er lagt saman, að menn víki ekki að því í neinum mæli hvernig þessar breytingar mættu hugsanlega gagnast landsbyggðinni, þ.e. ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að gera allt sem hún er hér að boða. Ég sakna þess að slík umræða skuli alls ekki hafa komið inn í þetta mál og vonast til að þessi ábending mín geti hugsanlega orðið til þess að hugað verði í alvöru að því þegar verið er að breyta skipulagi að það er líka hægt að vinna stóran hluta þessara starfa úti á landi. Það er ekki lögmál að þessi störf séu í Reykjavík.