Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:56:35 (7500)

2002-04-10 21:56:35# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að fá að lesa 1. gr. laga um náttúruvernd aðeins til að bregða sjóngleri á þennan málaflokk sem hæstv. umhvrh. þykist vilja bæta við einhverja nýja vídd eða senda inn í einhverja nýja vídd. 1. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.

Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.

Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.``

Herra forseti. Og við stöndum hér dauðþreytt seint að kvöldi og ræðum um form og stjórnsýslu í náttúruverndarmálum.

Herra forseti. Ég vil halda því fram að það sé löngu orðið tímabært að við sjáum hæstv. umhvrh., Siv Friðleifsdóttur, fara að framfylgja 1. gr. laganna um náttúruvernd. Það getur hún gert algerlega án þess að ösla í einhverri stjórnsýslu og formbreytingum. Það þarf hugarfarsbreytingu fyrst og fremst til þess að fara að sinna því hlutverki sem 1. gr. laganna um náttúruvernd segir að sé markmið laganna. Sú hugarfarsbreyting á ekki að endurspeglast í formbreytingum á stjórnsýslu.

Herra forseti. Það er alrangt sem hæstv. umhvrh. hefur verið að halda hér fram, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs séu á móti einhverri Umhverfisstofnun. Það er ekki rétt. En hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa gagnrýnt þetta mál fyrir það hversu seint það er fram komið, fyrir það hversu illa það er unnið og fyrir það að hæstv. umhvrh. skuli ætla að láta umhvn. fjalla um málið á einum eða tveimur fundum rétt fyrir þinglok án þess að tóm eða tækifæri gefist til að senda málið út til umsagnar. Þó að hæstv. ráðherra hafi sagt í ræðu sinni áðan að auðvitað komi umhvn. til með að fjalla um málið á þann hátt sem hún telji eðlilegt þá er hægt að fullyrða, herra forseti, að nefndin telur eðlilegt að senda málið út til umsagnar. En hvaða tíma höfum við til þess? Engan. Og hver sníður okkur þann stakk? Hæstv. umhvrh. Að segja það svo hér að hv. umhvn. geti unnið málið eins og hún telji eðlilegt, er bara argasta öfugmæli. Undir þeim kringumstæðum sem þingmenn eru að vinna hér er ekkert svigrúm til að vanda til verka í þessu máli. Það er það sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa gagnrýnt hér. Úr því að þetta er svona löngu til komið og hugmyndin svona löngu kviknuð í ráðuneytinu þá verðum við, herra forseti, að fá svör við því hvers vegna í ósköpunum þessi seinagangur er á því að málið sé fram komið. Og hvers vegna í ósköpunum var það þá ekki látið bíða til hausts? Hvers vegna í ósköpunum bjó hæstv. umhvrh. til þá óvissu sem nú ríkir meðal stofnananna sem hér um ræðir og heldur því svo hér fram að hún verði að eyða þeirri óvissu hratt og að hún vilji fá tilstyrk Alþingis til þess að gera það? Mér finnst þetta algerlega fáheyrður málflutningur, herra forseti. Hann er ekki til sóma þeim umhvrh. sem ætlar sér að sýna metnað gagnvart þeim málaflokki sem hún á að sinna og standa vörð um.

[22:00]

Herra forseti. Í máli hæstv. umhvrh. áðan kom fram að ég hefði í fyrri ræðu minni spurt hvað í rekstraráætlunum Náttúruverndar ríkisins gerði það að verkum að stofnunin verðskuldaði að vera sameinuð. Það voru ekki mín orð, herra forseti. Ég spurði hvað í rekstraráætlunum Náttúruverndar ríkisins gerði það að verkum að stofnunin virtist verðskulda að vera lögð niður. Eins og hæstv. ráðherra hefur kynnt hugmyndir sínar virðist hún leggja til að forstjórar stofnananna sem nú eru við lýði verði gengisfelldir og stofnanirnar svo gott sem lagðar niður og settar undir silkihúfuna sem ég nefndi svo, forstjóra Umhverfisstofnunar. Ég vil fá að vita hvort það er verið að refsa starfsfólki Náttúruverndar ríkisins og háleitum markmiðum og fyrir að rekstraráætlun stofnunarinnar greini raunþarfir stofnunarinnar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Ég tel, herra forseti, algerlega tímabært að við fáum afhjúpaða fjárþörf stofnunarinnar, ekki bara Náttúruverndar ríkisins heldur ekki síður fjárþörf Hollustuverndar ríkisins fyrir árið 2003. Auðvitað tengjast þessi mál fjárframlagi til stofnananna.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson talaði áðan um að hér væri verið að fjalla um störf og fyrst og fremst fjölgun starfa í Reykjavík. Ég get alveg verið sammála honum um að störfunum í Reykjavík fjölgi en ég held að hér sé annars ekki um fjölgun starfa að ræða. Ég er satt að segja, herra forseti, hrædd um að ef fram heldur sem horfir og þetta nær fram að ganga verði um fækkun starfa hjá þessum stofnunum að ræða. Hvernig ætlar hæstv. umhvrh. að sjá til að þetta verði til hagræðingar í málaflokknum þegar við vitum öll að hagræðing þýðir sparnað. Hvar ætlar hæstv. ráðherra að spara? Hún ætlar ekki að skera niður Landgræðsluna. Hún er búin að gefa okkur það til kynna. Hún hlýtur þá að ætla að fækka starfsmönnum hjá stofnunum. Ég held því fram, herra forseti, að hér sé fremur um fækkun starfa að ræða heldur en fjölgun.

Herra forseti. Eitt mál hefur ekki verið nefnt í umræðunni, þ.e. mögulegir hagsmunaárekstrar milli Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins. Nú er það svo í starfsuppleggi þessara stofnana að starfsleyfistillögur hafa hingað til verið umsagnarskyldar hjá Náttúruvernd ríkisins en Hollustuvernd ríkisins veitir formlega starfsleyfi. Nú vil ég spyrja hæstv. umhvrh.: Er ekki hætt við, þegar þetta er komið undir einn og sama hatt og orðin ein stofnun þá muni hún hafa eftirlit með sjálfri sér? Hingað til hefur Náttúruvernd ríkisins verið gagnrýnin á starfsleyfisveitingar Hollustuverndarinnar en hvernig á Umhverfisstofnun að geta verið gagnrýnin á starfsleyfisveitingar Umhverfisstofnunar? Er þetta góð stjórnsýsla? Ekki eftir mínum kokkabókum, herra forseti. En það kann vel að vera, að hæstv. umhvrh. viti betur eða kunni betur. Ég vil þá gefa henni tækifæri til þess að svara þessu hér.

Herra forseti. Við vorum að ræða um fjármál Náttúruverndar ríkisins. Ég vil fá að spyrja um kostnaðinn við flutning Náttúruverndar ríkisins. Er það rétt að kostnaður við flutninginn hafi verið tekinn af rekstrarfé stofnunarinnar? Ég held að alþingismenn þurfi að fá að vita það. Við verðum að fá hæstv. umhvrh. til að standa við stóru orðin, að hún hafi stóraukið fé til Náttúruverndar ríkisins.

Mörg atriði væri virkileg þörf á að ræða í þessu sambandi. Ég get nefnt það sem ekki hefur verið fjallað um í þessari umræðu, sem hefur verið stutt fram að þessu, þ.e. þætti eins og gróðurvernd almennt. Við höfum ekki fjallað um hana. Við höfum ekki rætt um jarðvegsvernd heldur. Þetta eru tveir þættir sem hafa komið til umfjöllunar í umhvn. þegar landgræðslufrumvörpin hafa verið inni í nefndinni, þættir sem umhvn. hefur látið í ljós fullan vilja til að kafa frekar ofan í, jafnvel möguleikana á að skilja þessa þætti frá Landgræðslunni, frá stofnun sem heyrir undir landbrn. og setja formlega undir umhvrn., undir Náttúruvernd ríkisins til að efla hana og starf hennar og styrkja lögbundið hlutverk hennar.

Hvað með vernd hafsins? Má ekki hugsa sér að vernd hafsins verði tekin formlega úr sjútvrn. og skorið á þau tengsl sem þarna virðast vera á milli? Þarna skarast alltaf milli sjútvrn. og umhvrn. Yrði þessum málaflokki ekki vel fyrir komið, vernd hafsins, hjá Náttúruvernd ríkisins? Og hvað með vatnsvernd? Hvað með vatnstilskipun ESB? Mér skilst að við eigum að fara að lögleiða vatnstilskipun ESB á næsta eða þar næsta ári. Ég gæti ímyndað mér að kosti sitt. Það er rétt að hæstv. umhvrh. fræði okkur um þetta.

Í lok máls míns vil ég segja að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er fyllilega reiðubúin til að ræða alla þætti þessa málaflokks. Hún vill efla hann í hvívetna en það gerum við ekki á elleftu stundu með allt niður um okkur í lok þings.