Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:22:06 (7505)

2002-04-10 22:22:06# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi tímann og kveldin. Þvert á móti því sem hv. þm. hélt fram er ég þeirrar skoðunar að ég sé yfirleitt hvað spakastur og rólegastur á kvöldin og sérstaklega um lágnættið. Við sem erum fædd og uppalin við hið nyrsta haf erum alltaf undir sérstökum áhrifum þegar vorar, um lágnættið. Það er af því að þá er miðnætursólin auðvitað fegurst við heimskautsbaug, og það er jafnan helgistund í okkar huga. Og þó að við séum stödd á þessum stað og sjáum ekki beint til sólar í augnablikinu getum við alveg dregið hana upp fyrir hugskoti okkar og orðið undir áhrifum, ég segi þó ekki ölvuð, af þeirri tilhugsun.

Ég held að það sé alveg hárrétt að ef menn ætla að fara í endurskipulagningu þessara mála af einhverri alvöru --- loksins, þótt seint sé, alveg í blálokin á umræðunni fara menn að ræða þetta almennilega og hafa allt undir --- á auðvitað að byrja á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Þá á að byrja á því að svara: Hvernig er skipulagið hvað varðar atvinnuvegaráðuneytin, hina faglegu skiptingu? Hvar eru rannsóknir? Eru þær allar hjá menntmrn. eða eru þær faggreindar, og þá jafnvel t.d. þannig að allar sem heyra undir umhvrn. séu þar? Það er auðvitað eitt mögulegt fyrirkomulag. Síðan halda menn þá áfram niður á við út frá því, þegar menn eru búnir að komast að niðurstöðu um þessi stóru atriði, og endurskipuleggja hlutina og draga upp landamæri milli stofnana í ljósi verkaskiptingar innan Stjórnarráðsins o.s.frv. Um þetta erum við sammála. Og mér fannst eiginlega óþarfafyrirvarasemi af hálfu hv. þingmanns að vera með þetta ,,ef`` um ríkisstjórnina sem ætlar að fara í það verk að endurskipuleggja þetta. Eigum við ekki bara að slá því föstu að það sé ekkert ef í því, þetta verði gert?