Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:39:59 (7508)

2002-04-10 22:39:59# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þó að það sé vel þekkt hugsun og hefur oft verið uppi að stofna hér atvinnuvegaráðuneyti, þá finnst mér að við eigum ekki að orða það þannig að í því felist að við ætlum að leggja landbrn. niður og síðan að búa til atvinnuvegaráðuneyti og sameina sjútvrn. og hluta af iðnrn. o.s.frv. Atvinnuvegaráðuneyti kemur vissulega vel til greina, en auðvitað eru ákveðin rök fyrir því að við höfum t.d. eitt fárra ríkja haft sjálfstætt sjútvrn. o.s.frv. á sama tíma og hjá mörgum öðrum þjóðum er það lítil aumkunarverð deild í landbúnaðarráðuneyti.

Ég var þeirrar skoðunar á sínum tíma að það orkaði mjög tvímælis að slá saman iðnrn. annars vegar og viðskrn. hins vegar og hefði viljað fara allt aðra leið í þeim efnum.

Ég er sammála hv. þm. um að umhvrn. og verkefni þess eru mjög mikilvæg og þau hafa ekki fengið nægan stuðning eða skilning í stjórnkerfinu.

Ég nefni þar til þriðja þáttinn sem hv. þm. nefndi ekki sérstaklega og það er þetta gríðarlega hlutverk sem hann hins vegar gerði að umtalsefni, þ.e. vernd, varsla og gæsla landsins sem er auðvitað ekkert smáræði sem umhvrn. hefur þar verið falið, enda ef það stæði vel í stykkinu í þeim efnum væri það náttúrunnar megin í átökum líðandi stundar í þeim efnum.

Ég er hins vegar dálítið ósammála hv. þm. um að umhvrn. hafi verð stofnað af sérstökum vanefnum. Ég minni á að það var umdeilt, það þurfti að berjast mjög harðri baráttu fyrir því að koma umhvrn. á koppinn. Og hverjir stóðu gegn því eins og grenjandi ljón? Það voru sjálfstæðismenn og töluðu hér sólarhringunum saman, sem þeir höfðu auðvitað fullan rétt til að gera, gegn því og lásu upp úr bókum í hinni efri deild sálugu o.s.frv. En það var þó stofnað, það varð til, fékk ýmsar stofnanir og þar á meðal kom það ekki síst í hlut undirritaðs sem þá var bæði landbrh. og samgrh. að láta til þess stofnanir eins og veiðistjóraembættið, Veðurstofuna, mengunarvarnadeild, Siglingamálastofnun og sjálfsagt einhverjar fleiri sem ég er búinn að gleyma.