Framhald þingfundar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:14:35 (7518)

2002-04-10 23:14:35# 127. lþ. 117.92 fundur 501#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það vekur mér undrun sem hér er upplýst, að hæstv. forseti hafi tilkynnt mönnum á stuttum samráðsfundi, nú þegar líður að miðnætti og við erum að funda þriðja kvöldið eða þriðju nóttina í röð með þessu verklagi, að nefndafundir eða störf hefjist klukkan átta að morgni og það er fundað fram að miðnætti eða inn í sjálfa nóttina eins og gert var í gær. Ég furða mig á því að hæstv. forseti skuli undir þeim kringumstæðum boða mönnum þau tíðindi að nú eigi að taka fyrir enn eitt stórmálið, enn eitt deilumálið sem ætla má að verði og enn eitt málið sem dreift er og tekið hér á dagskrá með afbrigðum af því að það er of seint fram komið og of stutt síðan því var útbýtt. Þingmönnum er trekk í trekk ætlað að hefja umræður um stórmál sem þeir hafa sáralítinn tíma haft til að búa sig undir og þetta eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti. Það er algerlega á hreinu.

Herra forseti. Það var aldrei talað um neinn næturfund á þessum degi. Það er augljóst að ef fara á að hefja umræðu um svona stórmál þá endi það inni í nóttinni. Forseti varaði menn í byrjun vikunnar við því að búast mætti við miklum fundahöldum fram á kvöld og í gær hygg ég að menn hafi vitað að fundurinn gæti orðið langur en þegar sú ákvörðun var tekin að í staðinn fyrir nefndastörf á þessum degi yrði fundað, þá var talað um fund á morgun. Menn skildu það auðvitað sem svo að hér yrði fundað lungann úr deginum eða eitthvað í þeim dúr.

Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé í raun ekki sanngjarnt að setja þingmenn í þá stöðu að ræða þetta mál núna inn í nóttina.

Það er líka ljóst, herra forseti, að það er í reynd þrengt að rétti manna til þess að tjá sig um mál þegar svona er að verki staðið. Menn veigra sér auðvitað við því að nýta sér rétt sinn til fulls til þess að tala um svona mál ef það kostar næturfundahöld og vökur manna og starfsfólksins hér þriðja sólarhringinn í röð. Það er bara þannig. Það vill þá fara svo að menn veigri sér við að nýta rétt sinn til þess að tjá sig um mál. Hæstv. forseti hlýtur að viðurkenna, hygg ég, að þetta er alveg á jaðrinum gagnvart því að hægt sé að segja að réttur manna sé virtur með eðlilegum hætti, að ætla mönnum að að tjá sig eftir svo skamman undirbúningstíma um þetta stóra mál inn í nóttina.

Hitt kann svo vel að vera, herra forseti, að betur henti aðstandendum málsins að það sé rætt í myrkri og að næturlagi. Það er allt annað mál. En við skulum halda okkur við formið. Ég held ég hljóti að segja, herra forseti, að ég mótmæli mjög þessari fundarstjórn. Hún er ekki sanngjörn. Hún er ekki skynsamleg og ekki réttmæt að mínu mati.