Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 23:26:47 (7520)

2002-04-10 23:26:47# 127. lþ. 117.7 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[23:26]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég mun hafa skammar signingar yfir þessu máli núna. Málið er að vísu stórmál en í sjálfu sér ekki flókið í sniðum. Ég mun e.t.v. lengja mál mitt þegar fyrir liggur umsögn hv. efh.- og viðskn. Sér í lagi vil ég sjá hvernig hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tekur málinu. Væntanlega eru verslunarráðsmenn miklir áhugamenn um að þetta mál nái fram að ganga til að geta notað sér fordæmið. Allt tal um að þetta sé ekki fordæmismyndandi eru orð út í hött sem merkja enga guðs grein.

Ég vil taka fram, til að forðast allan misskilning, að ég er og hef verið mikill áhugamaður um þá starfsemi sem Íslensk erfðagreining hefur með höndum. Ég átti þess raunar kost á frumdögum þess fyrirtækis að greiða fyrir því án þess að ég kæri mig um að hafa fleiri orð þar um.

En málið sem hér liggur fyrir er aftur á móti ótrúlegt og ég verð að játa að ég ætlaði ekki að trúa eigin augum og eyrum þegar það kom á daginn í morgun að að þessu mundi hæstv. ríkisstjórn stefna. Það er út af fyrir sig hennar mál að taka U-beygju í ríkisábyrgðarmálum en það gerir hún í þessu falli. Allt önnur stefna hefur verið uppi, að mínum dómi rétt stefna, að koma sér frá því að ríkið gangi í ábyrgð, ég tala nú ekki um fyrir einkarekstri.

Hér er sem sé lagt til að ríkið gangi í ábyrgð fyrir 20 þús. millj. kr. fyrir fyrirtækið deCODE. Þetta er að vísu sérstætt mál eins og hæstv. fjmrh. sagði, mjög sérstakt mál. Þetta mál hefur afar mikla sérstöðu. Mér hefði aldrei boðið í grun að forsvarsmenn íslenska ríkisins mundu leggja til að gengið yrði í ábyrgð fyrir fyrirtæki, eins og það virðist í laginu --- þetta fyrirtæki.

Hver er staða þess? Það kemur ekki bókstaflega fram hér. Þess er að vísu getið hver eiginfjárstaða þess er, en með leyfi: Hver var talin eiginfjárstaða Enrons rétt áður en það fór á hliðina?

[23:30]

Þegar þetta fyrirtæki nam hér land voru uppi stórkostlegar fréttir um að þetta efnahagslega eldsterka félag væri komið til að beita vopnum sínum. Ég man áreiðanlega rétt að fjármálastofnanir eins og Landsbanki Íslands fjárfestu í því. Ég tek það fram að það var eftir minn dag þar þannig að ég er ekki að segja frá neinu leyndarmáli sem ég hafði með höndum. Þeir seldu ýmsum viðskiptavinum sínum hluti á genginu allt yfir 60. Hvert er gengið nú? Er það rétt hjá mér að það sé 5,5? Er það rétt munað hjá mér að það sé löngu komið niður fyrir 10 og þyki fréttir nú ef það skrönglast upp fyrir 6 og 7? Hver er staða þessa fyrirtækis? Um það þurfum við að fá miklu nákvæmari og nánari upplýsingar en gefast í greinargerð og upplýsingum sem þessu frv. fylgja.

Satt að segja, svo að ég skjóti því hér inn í, hafa öll umsvif þessa fyrirtækis minnt að sínu leyti á fjárglæfra, stórt orð en þannig er a.m.k. minn smekkur á þessum umsvifum. Því er haldið fram að við eigum að grípa þessa gæs og fullyrt er að ódýrara sé að koma þessu fyrirtæki á fót í Bandaríkjunum. Það er nýtt ef stórfyrirtæki heims gera einhver gustukaverk á öðrum þjóðum. Ef þetta 35 milljarða fyrirtæki væri ódýrara í uppbyggingu í Bandaríkjunum kæmi ekkert annað til mála en að stjórnendur fyrirtækisins mundu ákveða bygginguna þar. Af hverju er þá verið með þessar vífilengjur? Af því að deCODE er þannig statt að það nær ekki í lánsfé til að byggja þetta fyrirtæki, hefur ekki mátt á því, nema með aðstoð hinnar hæstv. íslensku ríkisstjórnar. Þannig er þetta mál alveg augljóslega vaxið. Þetta fyrirtæki hefur ekki mátt á að framkvæma þessi áform sín. Það er þannig álit á því á bandarískum fjármálamarkaði að það nær ekki vopnum sínum þar. Þess vegna á íslenska ríkisstjórnin hæstv. að hlaupa undir bagga, og ætlar sér það.

Hér er talað um einfalda ábyrgð og við vitum hvað það þýðir. Þá þurfa kröfuhafar að ganga að öllum eigum fyrirtækis áður en skuldin fellur á ábyrgðaraðilann. Mér virðist og sýnist á þessu að ríkisábyrgðargjald sé fellt niður. Það nemur sjálfsagt hundruðum millj. kr. Talið er að ávinningur deCODE af þessari ábyrgð kunni að nema 600--800 millj. kr. þannig að hér er eftir nokkru að slægjast svo ekki sé meira sagt.

Menn vísa því frá sér að hér kunni að verða um fordæmi að tefla. Auðvitað er slíkt tal út í hött. Auðvitað merkir það ekki neitt að hafa slíkar fullyrðingar í frammi, og stenst auðvitað ekki neitt ef menn hugsa til þeirrar jafnræðisreglu sem menn hljóta nú að fara eftir samkvæmt þeim alþjóðaskuldbindingum sem við erum bundin við. Þess er ekki dulið að þessi atvinnurekstur er talinn þrefalt áhættusamari en meðaltal annars stóratvinnureksturs. Ég spyr, og bið um svar: Hafa menn gert sér grein fyrir þeirri stöðu sem upp kemur ef gengið verður að þessari ábyrgð? Ég leyfi mér að efast um það. Ég held að menn hljóti að hafa sannfært sjálfa sig um að til þess komi aldrei því að sú staða væri engu lík. Með því að ganga í þessa ábyrgð er hæstv. ríkisstjórn að hætta lífi sínu, a.m.k. stjórnmálalífinu.

Nei. Það er skemmst frá því að segja að hvernig sem á þetta mál er litið er það hin mesta ófæra. Auðvitað er þetta mikilvæg starfsemi --- hverjum dettur annað í hug? --- og stórgott að fá reksturinn hingað til Íslands. En annað er að vilja og hitt að geta, og með þessum aðferðum getur það alls ekki gengið.

Ég spyr: Hvað liggur að baki því að hæstv. ríkisstjórn skuli taka þetta upp á arma sína? Hvað í ósköpunum getur legið að baki því að menn bregða á þetta ráð, þetta ótrúlega óráð? Hæstv. ríkisstjórn vekur á sér grunsemdir um að hér sé ekki allt með felldu án þess að ég ætli að hafa uppi ávirðingar þess efnis. Ég held að komið hafi fram í fjölmiðlum á þessu kvöldi, eða í dag, að hér væri eftirspurn mjög stríð eftir því vinnuafli sem sóst yrði eftir hjá þessu nýja fyrirtæki, eftirspurnin sé svo mikil hjá þeim sem nú þegar starfa í landinu að hvergi nærri verði fullnægt, og að því leyti erum við enn vel sett um atvinnu fyrir slíkt fólk.

Það kann að vera að ég sé viðkvæmari en aðrir menn en þetta mál vekur mér hroll. Þótt ég sé allur af vilja gerður að reyna að líta á það með jákvæðu hugarfari er alveg fjarri því að ég fái fest hendur á nein þau rök sem að neinu leyti geta mælt með því að þessi leið verði farin. Þetta deCODE-mál er einhver nýr Don Kíkóti lukkuriddari í íslensku fjármálalífi.