Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:35:27 (7559)

2002-04-17 10:35:27# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Úr því að ræða forseta Íslands á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði og hnattvæðingu er hér gerð að umtalsefni, sem út af fyrir sig er ekkert nema gott um að segja og velta þá upp þeirri spurningu hvort forsetinn hafi með ræðu sinni og boðskap hennar farið út fyrir eðlileg mörk embættis síns, þá vil ég segja það að í fyrsta lagi fannst mér ræðan góð og vel upp byggð og í raun og veru til fyrirmyndar hvernig forsetinn lagði umræðum um þetta mikilvæga mál lið með því að taka að sér að vera fyrsti málshefjandi á þessari glæsilegu ráðstefnu sem tókst í alla staði vel.

Í öðru lagi tel ég að í ræðu forsetans, efnislega, hafi ekki verið neitt það sem stangast á nokkurn hátt á við þá stefnu sem framfylgt er í þessum málum á Íslandi. Ég veit ekki til þess, ef hv. þm. er að vitna sérstaklega til ummæla forsetans um Evrópumál, að það sé á stefnuskrá á Íslandi, hvorki ríkisstjórnar né nokkurs stjórnmálaflokks, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þó svo að við færum yfir það efnislega hvort þarna hefðu einhver ummæli verið látin falla sem hefðu strítt gegn stefnu stjórnvalda þá fullyrði ég að svo var ekki.

Í þriðja lagi tel ég náttúrlega að menn verði að hafa í huga að þarna tekur forsetinn að sér sem einstaklingur, að sjálfsögðu verandi forseti Íslands, að fjalla um þetta viðfangsefni, þetta málefni á þessum vettvangi sem lið í umræðum á vettvangi Norðurlandaráðs um stöðu lýðræðis á tímum hnattvæðingar. Og auðvitað hlýtur hver einstaklingur, hvaða stöðu sem hann gegnir, að hafa einhvern rétt til þess við slíkar aðstæður að reifa mál út frá persónulegum sjónarmiðum sínum. En það kemur ekki að sök í þessu tilviki vegna þess að ég fullyrði, hafandi lesið ræðuna vel og fylgst með þeim ágætu umræðum og tekið þátt í þeim umræðum sem hún kveikti, að ræðan var ekki á nokkurn hátt í andstöðu við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í málinu né hægt að halda því fram að hún hafi skaðað hagsmuni Íslands eða annað því um líkt, enda væri fráleitt að halda slíku fram.