Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:37:51 (7560)

2002-04-17 10:37:51# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst dálítið sérkennilegt að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson skuli gera athugasemd við það að forseti Íslands, sem kemur fram á ráðstefnu Norðurlandaráðs ekki sem þjóðhöfðingi heldur sem fræðimaður, skuli hafa skoðanir á því hvort Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Mér finnst persónulega mjög eðlilegt að allir Íslendingar hafi skoðanir á því og ekkert síður Ólafur Ragnar Grímsson sem er forseti þessa stundina. Ég verð að viðurkenna að það sem kom fram á ráðstefnunni er í takt við það sem mér finnst um málið og í sjálfu sér ekkert í andstöðu við það sem ég þekki best um málið, þ.e. að fyrir Íslendinga er í rauninni alveg óraunhæfur kostur í nánustu framtíð að geta gengið í Evrópusambandið. Það er ekkert sem bendir til þess að þar hafi eitthvað breyst sem máli skiptir varðandi sjávarútvegsstefnu sambandsins og þar af leiðandi held ég að þau orð sem Ólafur Ragnar Grímsson lét falla hafi verið orð í tíma töluð og í rauninni í takt við það sem margir aðrir hafa sagt. Ég fagnaði því yfirlýsingu forsetans og vona að menn taki henni sem slíkri en ekki sem einhverri árás á aðra aðila, og mér finnst þetta upphlaup dálítið sérkennilegt af hálfu Samfylkingarinnar svo ekki sé meira sagt.