Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:39:45 (7561)

2002-04-17 10:39:45# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég sat einmitt þá ráðstefnu sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ræðir hér um, þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um norrænt lýðræði 2020, þar sem fjallað var vítt og breitt um lýðræðið og þær breytingar sem eru að verða á þjóðfélagsmunstri okkar, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum, þar sem talað var um alþjóðavæðinguna og á hvern hátt hún hefði áhrif á lýðræði viðkomandi landa, og forseti Íslands flutti merkilega ræðu. Hann tók að vísu mjög djúpt í árinni og flutti óvenjupólitíska ræðu. Forsetar lýðveldisins flytja venjulega ekki mjög pólitískar ræður en þar sem forseti Íslands er fræðimaður á þessu sviði var hann einmitt fenginn til þess að flytja ræðu á ráðstefnunni. Þetta var auðvitað heilmikið krydd í umræðunni. Það voru mjög margir sem tóku eftir ummælum hans og þarna voru líka fyrirlesarar sem mótmæltu þeim fullyrðingum forsetans að þjóðþingin væru á vissan hátt að afsala sér lýðræðinu með því að ganga í samtök eins og ESB. Einn þeirra manna sem mótmæltu þessu harðlega var fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt. Þetta skapaði því miklar umræður á þessari ágætlega heppnuðu ráðstefnu Norðurlandaráðs. Menn eru alls ekki á eitt sáttir um þessar fullyrðingar og það kom beinlínis í ljós, en umrædd þemaráðstefna var einmitt til þess fallin að skiptast á skoðunum, skiptast á skoðunum um ýmiss konar fullyrðingar og sú varð einmitt raunin, en eins og ég sagði flutti forseti Íslands mjög kjarnyrta ræðu á þemaráðstefnunni.