Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:42:01 (7562)

2002-04-17 10:42:01# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Vegna þess að spurningum er beint til mín vildi ég aðeins segja það að hefð er fyrir því að forseti Íslands blandi sér ekki inn í viðkvæm pólitísk deilumál hér innan lands og sú hefð er bæði gömul og rík. Geri forseti annað hlýtur það að kalla á umræðu. Það hlýtur að kalla á umræðu hér innan lands eins og t.d. hér, og í þessu tilviki er ljóst að forseti Íslands hefur blandað sér í slíka umræðu og á því eru ýmsir gallar að mínu mati. Ég tel að mikilvægt sé að forsetaembættið sé hafið yfir pólitískt dægurþras. Ef forseti kýs hins vegar að taka þátt í því liggur alveg ljóst fyrir að það kallar á viðbrögð eins og hér.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál. Að sjálfsögðu hafa allir heimild til þess að hafa skoðun á málum. Ég er hins vegar ósammála mörgu af því sem forseti Íslands sagði við þetta tækifæri um alþjóðavæðingu og markaðsvæðingu og reyndar ýmislegt sem hann sagði um Evrópusambandið, sem kemur ekki beint aðild að Evrópusambandinu við, en ég ætla ekki að tjá mig frekar um það að þessu sinni.