Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:47:48 (7565)

2002-04-17 10:47:48# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ráðstefna Norðurlandaráðs var mjög vel heppnuð og þar kom mjög margt forvitnilegt og áhugavert fram.

Það er alveg ljóst að forseti Íslands var fenginn til að vera ræðumaður á ráðstefnunni sem forseti Íslands. Hann er fenginn til að koma þarna fram í raun og veru í krafti embættis síns og hann getur ekki kastað af sér forsetakápunni og farið í fræðimannskápuna á slíkri ráðstefnu. Það er auðvitað algjörlega ljóst.

Forseti Íslands er sameiningartákn þjóðarinnar og við hljótum að hlusta á það sem hann segir á kannski svolítið annan veg en það sem aðrir segja. Það leggur honum líka mjög ríkar skyldur á herðar.

Ég vil að það komi fram af minni hálfu að margir erlendir gestir sem voru á ráðstefnunni voru nokkuð undrandi á umfjöllun hans og spurðu okkur Íslendingana hvort það væri vanalegt á Íslandi að forseti lýðveldisins tæki afstöðu í málum sem væru kannski deilur um. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en þannig upplifði ég þessa umræðu.