Orð forseta Íslands um Evrópusambandið

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 10:51:02 (7567)

2002-04-17 10:51:02# 127. lþ. 119.91 fundur 504#B orð forseta Íslands um Evrópusambandið# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég held að það sé öllum vitanlegt að forsetar lýðveldisins hafa forðast, allir utan sá sem nú gegnir þeirri stöðu, að blanda sér í pólitísk deiluefni. Eitt dæmi var um það þegar Vigdís Finnbogadóttir hafði uppi tilburði með að skipta sér af framkvæmd bráðabirgðalaga sem sett voru. Þá varð mikill undirgangur og hún beygði af í afstöðu sinni.

En það er ekki nýtt að herra forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, brjóti þessa hefð. Þetta er a.m.k. í þriðja skiptið. Honum er það sjálfrátt. Hann er að breyta með því eðli embættisins og enginn hefur neitt um það að segja. Það kann að leiða til þess að á næstu árum kjósi menn forseta hápólitískri kosningu. Hið háa Alþingi segir forsetanum ekki til um þetta og á ekki að gera. Þetta er staðreynd sem við blasir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.