2002-04-17 10:57:56# 127. lþ. 119.2 fundur 656. mál: #A framlag Íslands til þróunarsamvinnu og niðurstöður Monterrey-ráðstefnunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni var Monterrey-ráðstefnan um fjármögnun þróunaraðstoðar afskaplega vel heppnuð. Þetta var í fyrsta skipti sem alþjóðleg ráðstefna tók beinlínis á fjármögnun þróunaraðstoðar og að því leyti var þessi ráðstefna söguleg og einnig vel heppnuð þó að á henni hafi líka verið hnökrar. Hún var mjög vel sótt. Rúmlega 50 leiðtogar ríkja og yfir 300 ráðherrar, þar af yfir 50 fjármálaráðherrar víðs vegar að úr heiminum, sóttu þessa ráðstefnu. Hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde, sótti hana og í fylgd með honum voru embættismenn, bæði frá utanrrn. og fjmrn. Fyrir fundinum lágu drög að svokölluðum Monterrey-sáttmála. Mikill undirbúningur lá að baki honum og komu þar að fulltrúar þróunarríkja og iðnríkja og einnig fulltrúar alþjóðastofnana, félagasamtaka atvinnulífs og ýmissa opinberra stofnana.

Við Íslendingar tókum virkan þátt í undirbúningi sem fram fór í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Breið þátttaka ólíkra aðila er mikilvæg í þessum málum og þátttakan á ráðstefnunni á sér því ekki hliðstæðu.

Sáttmálinn var samþykktur samhljóða á ráðstefnunni. Þar kemur m.a. fram gagnkvæm ábyrgð þróunar- og iðnríkja í þróunarmálum og baráttunni gegn fátækt. Þetta er nýlunda og í raun mjög merkileg. Þar er kveðið á um mikilvægi ábyrgrar efnahagsstefnu, lýðræðislegra stjórnarhátta, baráttu gegn spillingu o.fl. ef þróunaraðstoð á að skila árangri. Að sama skapi er ábyrgð iðnríkjanna mikil. Í sáttmálanum er lögð áhersla á opin og frjáls viðskipti, bættan markaðsaðgang fyrir vörur þróunarríkja og að mikilvægt sé að auka fjárhagsaðstoð við þau.

[11:00]

Fjöldi ríkja skuldbatt sig til aukinna fjárframlaga til þróunaraðstoðar. Ríki Evrópusambandsins skuldbundu sig til að verja 0,39% af þjóðarframleiðslu sinni til þróunarmála árið 2006, sem gerir rúmlega 20 milljarða bandaríkjadala ef öll ríkin standa við þær skuldbindingar. Að sama skapi hyggjast Bandaríkin hækka framlög sín til þróunarmála verulega, um 50% næstu þrjú árin. Það leiðir til aukningar um 5 milljarða bandaríkjadala á ári fram yfir framlög þeirra í dag.

Niðurstöður ráðstefnunnar eru því að mínu mati jákvæðar og vonandi að þeim pólitíska vilja sem þar kom fram fylgi raunhæfar aðgerðir. Ég hef fulla trú á að svo verði.

Skilaboð Bandaríkjanna á þessari ráðstefnu voru að mínu mati jákvæð. Sú hækkun fjárhæðar sem þarna var tilkynnt er mikil og Bandaríkjamenn kynntu málstað sinn vel. Þeir reifuðu til að mynda hugmyndir sínar um styrki í stað lána til þróunarríkja þar sem þróunarríki mörg hver geta ekki staðið við endurgreiðslu lána. Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og eru til umræðu víða, t.d. í Alþjóðaframfarastofnuninni IDA.

Einnig ræddu Bandaríkjamenn nauðsyn þess að fjárfesta í heilsugæslu og berjast gegn eyðni sem takmarkar mjög möguleika ýmissa ríkja til vaxtar. Bandaríkjamenn lögðu einnig áherslu á mikilvægi frjálsra viðskipta í þessu samhengi og samstöðu ríkja gegn fátækt, sem ég tel afskaplega mikilvæga. Samstaða og samvinna er nauðsynleg til að vinna megi bug á ýmsum þeim vandamálum sem blasa við í þessum fátæku ríkjum. Skilyrði Bandaríkjamanna fyrir fjárhagsaðstoð liggja enn ekki fyrir að fullu en ljóst er að þar verður lögð áhersla á ábyrga efnahagsstefnu, góða stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum og mannréttindum.

Um þriðju spurninguna er það að segja að um það hefur ekki verið tekin ákvörðun í ríkisstjórn. Núverandi fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar um þróunaraðstoð lýkur á árinu 2003. Það hefur gengið vel að vinna eftir þeirri áætlun og þar hefur verið veruleg aukning á framlögum. Hins vegar verður að hafa í huga að þjóðarframleiðsla okkar hefur aukist mjög mikið á þessum árum. Það liggur fyrir að gerð verður úttekt á tvíhliða þróunaraðstoð Íslands. Sú vinna er að hefjast og er niðurstaðna að vænta með haustinu. Gert er ráð fyrir að úttektin nái einnig til marghliða þróunaraðstoðar. Á grundvelli þessara athugana, þegar þær liggja fyrir, mun ríkisstjórnin taka ákvörðun um aukin framlög og marka stefnu í þróunarmálum til næstu ára eins og gert var á sínum tíma með þeirri áætlun sem lýkur 2003.