Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:40:04 (7586)

2002-04-17 11:40:04# 127. lþ. 119.5 fundur 610. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er svo sem von, og hv. þm. er vorkunn, að hann lesi upp greinargerð með þeirri tillögu sem þingið samþykkti ekki og meira að segja hafnaði í tvígang. Í fyrsta lagi með því að afgreiða hana ekki og síðar með því að gera brtt. sem er algerlega óskiljanleg. Við gátum ekki elt einhverjar vísbendingar í greinargerð með tillögu sem þingið hafnar. Þingið hafnaði í rauninni þeirri tillögu þar sem þessi greinargerð var lögð fram og kom með þennan samsetning. Og það verður að gera þá kröfu til þingsins og ég á minn hlut í þeirri ábyrgð því að það kemur á daginn við athugun að ég hef greitt þessu atkvæði. (ÖJ: Þetta er fullkomlega skiljanlegt.) Þá eru skilningarvit hv. þm. óskaplega góð. (ÖJ: Já, ég ...) Hvernig ætlar hann að gera samanburð á þróun annars vegar og reynslu hins vegar? Er þetta ekki sami hluturinn? (ÖJ: Gæti verið að menn séu komnir ...?) Nei, nei. Hvernig á ég að gefa mönnum fyrirmæli um það að gefa ...? Það er bara beðið um einn hlut: Að gera samanburð annars vegar á þróun og hins vegar reynslu. (ÖJ: Nei, ...) Að gera samanburð ...

(Forseti (GÁS): Hæstv. forsrh. hefur orðið.)

Verkefnið er þetta: Að gera samanburð á þróun og reynslu í tengslum við einkavæðingu. Þetta stendur í textanum og hann er óskiljanlegur. Það er ekki hægt að ætlast til þess að framkvæmdarvaldið fari að geta í einhverjar eyður í þessum efnum. Þessi tillaga hefur bersýnilega verið krulluð saman á hlaupum og ekki unnið betur að henni en þetta. (Gripið fram í.)

En af því að hv. þm. talar um að liðin séu tvö ár, þá var þessi tillaga samþykkt í lok þinghalds að vori og við fórum að athuga hana strax að hausti eins og jafnan er gert og létum þingið vita um afstöðu okkar. (Gripið fram í.) Það er ekki mitt. Við skrifuðum réttum aðilum í þinginu og ég tel að þingnefndin hefði átt að fara yfir málið og koma því skýrt og gott horf eða þá að setja ofan í við ríkisstjórnina og mig sérstaklega fyrir að vera svona skilningsvana að geta ekki lesið í þennan texta en það er mér alveg fyrirmunað.