Jarðalög

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:53:23 (7592)

2002-04-17 11:53:23# 127. lþ. 119.7 fundur 429. mál: #A jarðalög# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hæstv. ráðherra fyrir neðan allar hellur og sýna að hann er greinilega í vondum málum. A.m.k. virðist hann hafa eitthvað að fela þegar hann bregst svona illa við kurteislegri fyrirspurn frá mér þar sem ég bar saman tvö dæmi. Ég get tilgreint jörðina sem ég nefndi til samanburðar þar sem bónda í Gufudal og Reykjakoti í Ölfusi var synjað um að kaupa ríkisjörð og var hann nánast flæmdur af jörðinni sem átti fullvirðisrétt upp á 3 millj. en sem hann eignaðist ekki vegna þess að hann fékk ekki að kaupa jörðina. Það er ekkert mál að nefna það, enda hefur þetta dæmi komið fram í blöðum og víða.

Þarna er verið að mismuna bændum. Annars vegar er bóndinn á Kaldbak sem fær að kaupa jörðina og eignast fullvirðisréttinn sem var hærri en 5 millj. Hins vegar er það bóndinn í Gufudal, fyrst hæstv. ráðherra vill að ég nefni hér dæmin, sem fær ekki að kaupa jörðina og tapar þar með fullvirðisréttinum, yfir 3 millj. Ég er að nefna það hér hvort ekki sé full ástæða til þess að skoða lögin með tilliti til jafnræðis með þeim bændum sem öðlast hafa fullvirðisrétt á ríkisjörðum og standa síðan uppi annars vegar með hagnað af fullvirðisrétti sínum en fá hins vegar ekki neitt. Ég tel fulla ástæðu til þess að það verði skoðað. Hæstv. ráðherra segir að verið sé að endurskoða jarðalögin. Ríkisendurskoðandi gaf hæstv. ráðherra ekki algjört heilbrigðisvottorð. Hann var með ábendingar í áliti sínu frá 14. desember um að það þyrfti að skoða hvernig jarðirnar yrðu nytjaðar. Ég tel fulla ástæðu til þess að halda hæstv. ráðherra við efnið. Það er ástæðulaust fyrir hann að bregðast illa við þó hann sé spurður. Hann á auðvitað að svara kurteislega eins og vel upp alið fólk. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri það. En annað virðist vera að koma í ljós, herra forseti. (Gripið fram í.)