Jarðalög

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 11:55:31 (7593)

2002-04-17 11:55:31# 127. lþ. 119.7 fundur 429. mál: #A jarðalög# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[11:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Enn þá heldur málið áfram. Hv. þm. er með dylgjur án þess að þekkja málið. Nú rifjar hún upp Reykjakot og Gufudal þar sem ábúanda var kippt í burtu af forvera mínum og landbrn. til að skapa frið um útivistarsvæði Hvergerðinga og Ölfusinga, þekktan golfvöll. Sá ábúandi sem þar sat gekk að samningi við landbrn. og fyrirrennara minn og jörðin var keypt þar á miklu yfirverði til þess að skapa frið um svæðið. Þetta þekki ég úr mínu kjördæmi.

Ég veit líka að sá ábúandi sem fékk þá miklu peninga vildi einnig kaupa jörðina á nýjan leik þannig að ég þekki þetta mál allt saman þegar hv. þm. nefnir nafnið. (Gripið fram í.)

Ég var fyrst og fremst, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, að ræða um það áðan að hér hafa fyrr komið fram dylgjur um Kaldbak sem hafa sært viðkomandi fjölskyldu. Þess vegna finnst mér ástæðulaust að það komi aftur upp í dylgjustíl af hendi hv. þm. þegar ég er þegar búinn að leiðrétta það einu sinni í þinginu og fara yfir sögu þess máls. Þetta sýnir að hlustunin (Gripið fram í.) er ekki alltaf fyrir hendi. Síðan geta þingmenn auðvitað sagt allt staðreyndir. Ég hef boðið þessum hv. þingmanni upp í ráðuneyti til þess að fara yfir þessi mál. Hún er ekki farin að eiga við mig það stefnumót enn þá (ÁRJ: Getur þú svarað ...) Það bíður auðvitað og stendur opið að taka á móti henni þar og fara yfir þessi mál og fyrst formaður Samfylkingarinnar er hér væri full ástæða til að biðja hann um að koma því í kring að af þessu stefnumóti geti orðið svo ég geti veitt hv. þm. þessar upplýsingar. (ÁRJ: ... hafa milligöngu ...) Ég held að það þurfi að halda sérstakan fund með þessum hluta Samfylkingarinnar. Ég veit að margir hv. þm. hennar eru vel upplýstir um þessi mál. (ÖS: Ég bendi á ...)

Hæstv. forseti. Tíma mínum er lokið. Ég vil vera kurteis í fyrirspurnum. Fyrirspurnin var kurteislega orðuð en það sem kom fram í máli hv. þm. var með þeim hætti að erfitt er að sætta sig við það. (Gripið fram í.)