Endurskoðun jarðalaga

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:03:33 (7597)

2002-04-17 12:03:33# 127. lþ. 119.8 fundur 561. mál: #A endurskoðun jarðalaga# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:03]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar að lögin séu í endurskoðun og muni koma inn í þingið í haust endurskoðuð hvað þetta varðar því það er ekki vansalaust að svona ákvæði séu í lögum. Ég fagna því og mun auðvitað setjast yfir þau frv. í hv. nefnd þegar þar að kemur.

Ég sé ekki betur en þau lög sem núna eru í gildi séu þannig úr garði gerð að ábúendum jarða sé stórkostlega hyglað á kostnað þeirra sem t.d. hafa erft viðkomandi jörð með þeim sem eru búsettir í bæ eða borg. Ég tel að það væri til mikillar farsældar fyrir alla sem málið við kemur að lögin yrðu endurskoðuð eins og hér er verið að gera samkvæmt þeim upplýsingum sem hér komu fram. Ég vona að sú endurskoðun verði til þess að réttar allra sem eiga og erfa slíkar jarðir verði betur gætt því það kann ekki góðri lukku að stýra þegar einum er hyglað á kostnað annars. Ég þekki fjölmörg dæmi þess að slík mál hafa skapað ómæld leiðindi í fjölskyldum og illindi milli náinna ættingja og hafa sundrað fjölskyldum. Þetta hefði ekki gerst ef lögin hefðu verið þannig úr garði gerð að gætt hefði verið réttlætis fyrir alla sem hlut áttu að máli.

Ég fagna því að fram hafi komið að þessi úreltu lagaákvæði skulu vera í endurskoðun.